SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Ekkert framtal - engin sök????

Undirritaður fann á vefnum, nánar til tekið á www.mbl.is eftirfarandi frétt í gær.

Undanfarin 40 ár hef ég staðið í þeirri trú að skattayfirvöld væru í fullum rétti til að áætla skatta, skili framteljendur ekki inn fullnægjandi skattframtali með viðhlítandi fylgigögnum. Standi áætlunin sem fullgild krafa á skattaðila þangað til inn hafa verið send gögn sem standast reglur og skoðun skattstjóra.

Í fljótu bragði sýnist mér Héraðsdómur Suðurlands snúa þessu við og samkvæmt honum virðist mér að Ríkisskattstjóri þurfi nú sjálfur að leggja fram sannanir gegn framteljendum, vilji hann ekki eiga á hættu að áætlanir hans verði felldar úr gildi. 

Eða hvað sýnist lesendum?

Er það nú orðið svo að skattþegnar geti látið undir höfuð leggjast að skila skattframtölum án þess að skattayfirvöld fái rönd við reist?

En .... ekki er allt sem sýnist.

Lögfræðingur hefur bent mér á að málið snúist ekki um skyldu til greiðslu skatta, heldur um það hvort framin hafi verið refsiverð háttsemi. Spurninguna um það hvort sekta skuli viðkomandi sérstaklega eða dæma hann í fangelsi. Það þýðir að sönnunarbyrðin fellur jafnt á ákæruvaldið og ákærða.

Sigurjón Bjarnason

 Fréttin hljóðar svo:

Héraðsdóm­ur Suður­lands hef­ur sýknað mann og tvö fyr­ir­tæki hans af meiri hátt­ar brot­um gegn skatta­lög­um. Sýknu­dóm­ur­inn grund­vall­ast af skorti á gögn­um. Í hon­um kem­ur meðal ann­ars fram að héraðssak­sókn­ari gekk ekki á eft­ir því að maður­inn sem var ákærður myndi mæta við aðalmeðferð til að gefa skýrslu. Eng­in vitni hafi verið kölluð til og því skorti gögn.

Maður­inn hafði til­kynnt að hann myndi ekki mæta við aðalmeðferð, til að gefa skýrslu, þrátt fyr­ir að hafa ekki lög­mæt for­föll. „Hefði slík skýrslu­gjöf verið eðli­leg­ur þátt­ur í sönn­un­ar­færslu sækj­anda fyr­ir dómi en […] get­ur ákær­andi lagt fyr­ir lög­reglu að sækja ákærða eða færa hann síðar fyr­ir dóm með valdi ef þörf kref­ur.“

Um var að ræða ákæru vegna van­greiðslu á sam­tals 19 millj­ón­um króna, ým­ist á virðis­auka­skatti eða staðgreiðslu launa.

Tekið er fram í dómn­um að hvorki verj­andi né sækj­andi hafi óskað eft­ir því að vitni yrðu leidd fyr­ir dóm­inn við aðalmeðferð „en skýrslu­gjöf vitna er eðli­leg­ur þátt­ur í sönn­un­ar­færslu saka­máls fyr­ir dómi“. Fram kem­ur í dómn­um að ein­ung­is liggi fyr­ir gögn sem aflað var af hálfu skatt­rann­sókn­ar­stjóra og héraðssak­sókn­ara, þar á meðal skýrsl­ur sem ákærði gaf.

Í dómn­um seg­ir að í þeim skýrsl­um hafi maður­inn til­tekið að aðrir nafn­greind­ir menn hefðu ann­ast bók­hald fé­lag­anna. Gagn­rýnt er að hjá héraðssak­sókn­ara hafi sá ákærði ekk­ert verið spurður um aðkomu þess­ara manna „þó að til­efni hafi verið til“. „Við meðferð máls­ins fyr­ir dóm­in­um hef­ur hvorki komið fram neitt um að þess­ir menn, sem ákærði nafn­greindi við skýrslu­gjöf sína hjá skatt­rann­sókn­ar­stjóra, hafi séð um fjár­mál og skatt­skil fé­lag­anna, né að þeir hafi ekki gert það, en um þetta ber ákæru­vald sönn­un­ar­byrði eins og annað sem er ákærða í óhag,“ seg­ir í dómn­um.

Dóm­ur­inn komst að þeirri niður­stöðu að gegn neit­un manns­ins hafi ekki verið færð fram sönn­un um sekt sem ekki verði vé­fengd með skyn­sam­leg­um rök­um. Því verði hann sýknaður.

Sérálit um auðlindagjald

Umræða um veiðigjald gengur fjöllum hærra og atvinnugreinin sjávarútvegur kvarta undan álagningu 2017, sem miðast við afkomu ársins 2015. Reiknað er með frekar rýru ári í ár, en aftur var árið 2015 heldur hagstætt.

Sjávarútvegsráðherra telur að búast hefði mátt við hækkun í ljósi góðs árs 2015. Hins vegar veit ég ekki til þess að veiðigjald sé framreiknað almennt í reikningsskilum útgerðarfyrirtækja, enda hygg ég að sá útreikningur yrði háður ýmsum fyrirvörum og endanleg ákvörðun í höndum framkvæmdavalds tveim árum síðar.

Nú er það svo að undirritaður hefur haft efasemdir um réttmæti sérstaks gjalds á þessa tilteknu atvinnugrein í krafti þess að hún er að nýta náttúrulega auðlind. Málið er að það eru ekki allir að hagnast á nýtingu náttúrulegra auðlinda. Þar má til dæmis nefna ýmsar greinar landbúnaðar, sem varla geta talist miklar mjólkurkýr fyrir eigendur sína.

Í framhjáhlaupi má líka nefna aðrar auðlindir sem ekki eru náttúrulegar, heldur er umhverfi viðkomandi atvinnugreina gert hagstætt af löggjafanum og öðrum þeim sem stýra efnahagslegu umhverfi. Þar má nefna rekstur fjármálastofnana, tryggingafélaga og fleiri slíkra, en afkoma þeirra má teljast nokkuð trygg og fátt bendir til annars en að svo verði a.m.k. í náinni framtíð.

Spurningin er hvort að slík fyrirtæki ætti ekki líka að greiða auðlindagjald, þó að auðlindin sé ekki náttúruleg heldur sköpuð af mannavöldum.

Til að jafnræðis sé gætt milli atvinnugreina sýnist mér því einfalda leiðin vera sú að „auðlindagjald“ verði einfaldlega reiknað sem álag á tekjuskatt fyrirtækja sem hagnast yfir ákveðnu marki, ef til vill sem hlutfalli af veltu.

Svo getum við farið út í umræðuna um verðmætin í kvótanum, frjálsa framsalið og fleira, en geymum það til síðari tíma.

Hraunsnefskettir nútímans

Einu sinni var köttur. Hann var ekki stígvélaður eins og í ævintýrinu heldur ósköp venjulegur heimilisköttur og átti heima á Hraunsnefi í Norðurárdal.

Köttur þessi þótti einkar góður til áheita líkt og Strandarkirkja síðar og safnaðist honum því nokkurt fé. Eigendur kattarins sáu í kettinum snjalla leið til að koma einhverju af tekjum sínum framhjá þeirra tíma skattheimtu og völdu því að telja þær honum til tekna. Eitthvað reyndu sveitaryfirvöld að koma kisa á skattskrá, en tókst ekki svo að talsverðar skattlausar eignir voru komnar á hans nafn þegar hann lét sig hverfa stuttu eftir andlát eigandans, þar á meðal einhverjar jarðeignir. Segir ekki af álagningu opinberra gjalda á „einstakling“ þennan því aldrei tókst að gera hann að „lögpersónu“.

Víkur þá sögunni til nútímans.
Í dag las ég sameiginlega tillögugerð forystumanna Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins þar sem taldar eru upp opinberar aðgerðir sem þeir telja nauðsynlegar til að sporna við svokölluðu kennitöluflakki, en það felst einkum í því að fólk sem stofnar einkahlutafélög samkvæmt þaraðlútandi lögum gugnar í baráttunni, seint eða snemma, leggur sína ágætu „lögpersónu“ til hliðar og stofnar til nýrrar án þess að hirða um gera upp skuldir hinnar fyrri né halda skattskilum hennar til haga. Ábyrgð þeirra er nú einu sinni lögum samkvæmt takmörkuð við innborgað hlutafé. Lágmarksfjárhæð hlutafjár er 500.000 kr. og hefur mér vitanlega enginn minnst á að hækka hana í 22 ár.
Leit lauslega yfir tillögur höfðingjanna og sýndist þær ganga í rétta átt. En því miður, jafnvel þó að þessum átta liðum væri hrundið í framkvæmd væri til lítils barist. (Tillögur þeirra og athugasemdir mínar birtast í lok þessa pistils). 
Eins og ég hef áður nefnt í pistlum mínum munu viðurlög við vanskilum ársreikninga hækka úr 250.000 kr. í 600.000 kr. frá og með næsta hausti. Allt gott um það. En hverjir eiga nú að borga sektirnar. Jú, það eru viðkomandi „lögpersónur“. Það væri líkt og að Hraunsnefskötturinn væri látinn borga skammirnar ef hann væri uppvís að svikum. Það gekk nú svona og svona í den. 
Þessu má líkja við hunda sem ekki eru færðir til hreinsunar reglum samkvæmt. Sektin væri þá lögð á hundinn sjálfan en ekki eigandann, hvaðan sem seppa ætti að koma sú viska að borga þessar vammir húsbóndans, hvað þá fjármagn til þeirra nota.
Lögpersónur eða lögaðilar nútímans eru því miður aðeins dauðir hlutir hannaðir af löggjafanum okkar, örugglega með vilja og vitund stjórnenda atvinnulífs. Á meðan slíkum sektargreiðslum er ekki beint gegn þeim sem hagsmuna eiga að gæta, (samanber húsbændum á Hraunsnefi) þarf enginn að búast við því að nein kúvending verði í þessum málum.

Viðauki:
Til­lög­ur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands eru í átta eftirtöldum liðum.  Athugasemdir SB eru skáletraðar í rauðu.
  1. Heim­ild til að svipta þá ein­stak­linga sem telj­ast van­hæf­ir vegna óverj­andi viðskipta­hátta eða rök­studds gruns um refsi­verðan verknað í rekstri heim­ild sinni til að taka þátt í stjórn­un fé­lags með tak­markaða ábyrgð í allt að þrjú ár. Hver á að meta það hverjir teljast „vanhæfir“ og hvernig?
  2. Líf­eyr­isiðgjöld verði bet­ur vernduð svo að laga­leg­ar af­leiðing­ar fylgi því að skilja eft­ir líf­eyr­is­sjóðsskuld­bind­ing­ar í eigna­lausu þrota­búi. Eiga þessar greiðslur þá að falla undir „rimlagjöld“. Hafa menn athugað hvernig gengur að innheimta ógreidda staðgreiðslu og virðisaukaskatt hjá þeim sem bera ábyrgðina, eftir að viðkomandi félag er farið á hausinn. Hef grun um að á þeim kröfum séu miklar „Hálfdánarheimtur“.
  3. Nefnd skipuð um hvort og þá hvernig megi styrkja stöðu kröfu­hafa þrota­búa með laga­breyt­ing­um svo að smærri kröfu­haf­ar sjái ávinn­ing í því að fara í rift­un­ar­mál. Verða skiptastjórar tilbúnir að framfylgja þessu? Þeir eru bara í því að fá sem mestan pening fyrir sem fæstar vinnustundir. Það er líka spurning hversu mikla vinnu á að leggja í innheimtu á smærri upphæðum.
  4. Heim­ild ráðherra til að slíta fé­lög­um færð yfir til rík­is­skatt­stjóra. Hjálpar þetta til að koma ábyrgð yfir á síðustu stjórn eða framkvæmdastjóra? Í 121. gr. ársreikningaga stendur: „Ef ársreikningi eða samstæðureikningi hefur ekki verið skilað innan átta mánaða..... skal ársreikningaskrá krefjast skipta á búi félagsins.“ (Nýtt ákvæði sem eftir er að sjá hvernig virkar.)
  1. Rík­is­skatt­stjóri fái upp­lýs­ing­ar um refsi­dóma í tengsl­um við at­vinnu­rekst­ur. Eru slíkir dómar ekki opinberir nú þegar?
  2. Op­in­ber­ir aðilar marki sér heild­stæða stefnu um aðkomu sína að þrota­bú­um fé­lags svo að tíðara sé að þeir beiti sér sem virk­ir kröfu­haf­ar í þrota­bú­um. Þá þurfa nú blessaðir sýslumennirnir að fá pening til að geta sinnt því.
  3. Hæfis­skil­yrði hluta­fé­laga nái til skugga­stjórn­enda. Skuggastjórnendur eru aldrei sýnilegir, nema með mikilli fyrirhöfn. Hvernig nálgast menn upplýsingar um þá?
  4. SA ASÍ leggi til við stjórn­völd ásamt öðrum aðilum vinnu­markaðar­ins að stjórn­völd taki sam­an hönd­um og vinni sam­eig­in­lega að upp­byggi­legri fræðslu. Besta tillagan. Kostar bara peninga, sem ég veit ekki hvort að ríkissjóður, sjóðir atvinnulífs eða launþega eru tilbúnir að borga. Það kemur allavega ekki fram í hugmyndum forystumanna atvinnulífsins.
Sjálftaka

Á fyrstu árum mínum á vinnumarkaði vann ég í banka. Kunningjar mínir töldu að ég ætti þá greiðan aðgang að lánsfjármagni, en svo var nú aldeilis ekki. Bankastarfsmönnum var einfaldlega bannað að taka lán hjá þeim banka sem þeir störfuðu við. Annað varð að leita þyrfti maður að slá víxil, sem var algengasta lánsformið á þeim árum.

Svo liðu árin og ástandið í dag þekkjum við. Nú er enginn banki með bönkum nema hann hygli starfsfmönnum sínum á allan mögulegan hátt, lánveitingar ekki undanskildar (jafnvel án endurgreiðsluskyldu). Mest eru þó áberandi svokallaðir bónusar og kaupréttarsamningar þar sem starfsmönnum er ívilnað á margan hátt oft óháð afkomu fyrirtækisins sem þeir vinna hjá. Þetta telst mikilvægur þáttur í að efla atvinnulífið og á að gera menn jákvæða gagnvart vinnuveitendum sínum, svo þeir haldi tryggð við stofnanirnar.

Áður var þeim sem sýndu trúnað í starfi veitt stöðuhækkun með viðeigandi launaauka. Um lán var ekki að ræða. Sjálfur þurfti ég að leita til samkeppnisaðilans í byggðarlaginu, Sparisjóðs Fljótsdalshéraðs, þegar fyrsti bíllinn, Moskvits árgerð 1964, var færður á mitt nafn.

Frelsi fjármagnsins á síðari tímum hefur ekki hvað síst byggst á því að auka aðgengi starfsmanna og eigenda fyrirtækja að hagnaði og eignum vinnuveitenda. Hér hafa einkahlutafélög í einstaklingseigu sérstöðu þar sem enginn raunverulegur eftirlitsaðili getur fylgst með því hvernig aflafé þeirra er útdeilt eða ráðstafað. Vissulega gilda um það lög og reglur en framkvæmdin í raun ekki sýnileg öðrum en þeim sem hafa tögl og hagldir, nefnilega einstaklingnum sem á 100% eignarhlut í félaginu.

Í starfi mínu hef ég kynnst mörgum í þessari stöðu sem hafa kynnt sér þessar reglur og fylgja þeim út í æsar, en því miður virðast hinir vera fleiri sem hafa látið það vera eða kæra sig ekki um að fara eftir þeim.

Hér er komið að hinu vandasama og oft óvinsæla hlutverki bókarans. Bendi i hann viðskiptavini sínum á þessar tiltölulega einföldu reglur, er ekki víst að undirtektirnar verði jákvæðar. Þar sem ytra eftirlit er ósýnilegt (og kannski óframkvæmanlegt) er erfitt að sýna dæmi sem styðja sjónarmið hans. Hendi það, sem sjaldan skeður, að skattyfirvöld fyrir tilviljun komist að ólögmætri ráðstöfun fjár úr einkahlutafélagi, hefur bókarinn gengisfellt sig fyrir augum stjórnvaldsins og á því hvorki miskunn hjá því né viðskiptavini sínum.

Það styttist í að ferill minn á þessum vettvangi taki enda. Vanlíðan mín í starfi hefur farið vaxandi hins síðari ár af þessum sökum og óska ég þess innilega að eftirmönnum mínum verði gert auðveldara að leysa verkefni sín með hliðsjón af gildandi rétti en verið hefur.  Hvernig það má vera hef ég ekki ljósa hugmynd um en er eindregið þeirra skoðunar að samband stjórnvalda, hvort sem þau heita fyrirtækjaskrá, ríkisskattstjóri eða eitthvað annað, þurfi að vera miklu nánara við almenning en verið hefur hin síðari ár.

En eftir stendur spurningin: Því skyldu mínir ágætu viðskiptavinir ekki mega fara frjálslega með fé atvinnulífsins eins og æðstu fjármálastofnanir landsins? „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það“ stendur í Passíusálmum Hallgríms.

Um ársreikninga smærri einkahlutafélaga

Gerð ársreikninga.

Til athugunar við upphaf uppgjörsvertíðar.

Af umræðu liðins árs og breytingum á ársreikningalögum, sem samþykktar voru á Alþingi í sumar mátti gjarna ráða að smærri einkahlutafélögum (örfélögum með heildareignum undir 20 millj. kr., hreinni veltu undir 40 millj. kr. og færri en þrem ársverkum) væri óskylt að semja ársreikninga yfir fjárreiður næstliðins árs. Átti þetta að auðvelda þeim lífið sem hafa valið þetta form fyrir atvinnurekstur sinn. Til að átta sig ögn á stöðunni og þar sem framundan er vinnutörn við skattskil og ársreikningagerð tók undirritaður sig til og tíndi saman nokkur ákvæði um ársreikninga í ýmsum lögum og reglum og fer samtíningur sá hér á eftir: 

 1. Einkahlutafélalög:
Eftirfarandi er upphaf 59. greinar: 
Aðalfund skal halda eftir því sem félagssamþykktir ákveða, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári og aldrei síðar en innan átta mánaða frá lokum hvers reikningsárs. Á aðalfundi skal leggja fram ársreikning og skýrslu endurskoðenda eða skoðunarmanna. [...] Á aðalfundi skal taka ákvörðun um:    
a. staðfestingu ársreiknings;    
[b. hvernig fara skuli með hagnað eða tap félagsins á reikningsárinu;
Einnig kemur eftirfarandi fram í 74. grein sömu laga: Einungis er heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. … 1)
Þá er að finna ákvæði í sömu lögum um að ársreikningar skuli lagðir til grundvallar í kafla nr. X1, Sérstakar rannsóknir og ef til vill víðar í lögum um einkahlutafélög.

B. Algeng ákvæði í samþykktum einkahlutafélaga.

Hvert einkahlutafélag starfar eftir settum eigin reglum, samþykktum, og er þar að finna ákvæði sem kalla á gerð ársreikninga. Dæmi:
Aðalfundur skal haldinn fyrir lok ágústmánaðar ár hvert. 
1)               Stjórn félagsins skal skýra frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári. 
2)           Ársreikningur ásamt athugasemdum endurskoðenda/skoðunarmanna skal lagður fram til samþykktar.

og

5. REIKNINGSHALD OG ENDURSKOÐUN

5.1.
Á aðalfundi skal kjósa löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til eins árs í senn.

 5.2.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn félagsins skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt fyrir endurskoðanda eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund samkvæmt gr. 3.2. samþykkta þessara.

C. Úr lögum nr. 145/1994 um bókhald:

Í lögum um bókhald er sérstakur kafli um ársreikninga. Telur kaflinn 14 greinar og hefst hann svo:
III kafli. Ársreikningar.
Reikningsár og undirritun.
22. gr. Þeir sem bókhaldsskyldir eru skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár samkvæmt lögum þessum enda séu ekki gerðar strangari kröfur í öðrum lögum. Ársreikningurinn skal a.m.k. hafa að geyma rekstrarreikning og efnahagsreikning, svo og skýringar eftir því sem við á. Ársreikningurinn skal mynda eina heild. [Reikningsárið skal vera tólf mánuðir og miðast við mánaðamót. Nýtt reikningsár hefst daginn eftir að fyrra reikningsári lýkur. Við upphaf eða lok rekstrar eða breytingu á reikningsári getur tímabilið verið skemmra eða lengra, þó aldrei lengra en fimmtán mánuðir. Reikningsári verður því aðeins breytt síðar að sérstakar aðstæður gefi tilefni til. Breytingin skal tilgreind og rökstudd í skýringum.] 1) Ársreikningurinn skal fullgerður og undirritaður eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsársins. Hann skal undirritaður af þeim sem ábyrgð bera á bókhaldinu, sbr. 5. gr. Hafi einhver, sem skyldur er til að undirrita ársreikninginn, mótbárur fram að færa gegn honum skal hann undirrita reikninginn með árituðum fyrirvara. Koma skal fram hvers eðlis fyrirvarinn er.

Nánari ákvæði er að finna í 23-35. grein um framsetningu ársreikninga, eignamat, endurskoðun og fleira. 

 1. Úr ársreikningalögum
Hér fara á eftir nokkur atriði úr ársreikningalögum eftir nýsamþykktar breytingar:

Samning ársreiknings.
3. gr. [Félög skv. 1. gr. skulu semja ársreikning í samræmi við lög þessi, reglugerðir og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á. [Sé ekki mælt fyrir um tiltekið atriði í lögum þessum eða reglugerðum skal fara eftir viðeigandi ákvæðum í settum reikningsskilareglum.]
1)] 2)


Úr 7. mgr. sömu greinar
[Í stað ársreiknings skv. 1. mgr. er örfélögum heimilt að semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit, byggð á skattframtali félagsins. Teljast slík rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit gefa glögga mynd af afkomu og efnahag félagsins í skilningi 20. tölul. 2. gr. Ársreikningaskrá skal gera örfélögum kleift, við rafræn skil til skrárinnar, að nota innsendar upplýsingar til ríkisskattstjóra til að semja rekstraryfirlitið og efnahagsyfirlitið. Ekki er skylt að skoðunarmaður yfirfari slík reikningsyfirlit. Ráðherra setur reglugerð um framsetningu rekstraryfirlits og efnahagsyfirlits og önnur atriði skv. 1. málsl. við beitingu 3. málsl.

Sérfræðingar og höfundar lagabreytinga hafa látið í veðri vaka að þar með sé smærri félögum ekki lengur skylt að gera ársreikninga, innsent skattframtal dugi til að fullnægja birtingarskyldu í ársreikningaskrá. Það ber þó að hafa í huga að allir lögaðilar eru bókhaldsskyldir og yfir þá ná ákvæði laga um bókhald, þar með talinn kaflinn um ársreikninga. Ennfremur er vandséð hvernig hægt er að gera grein fyrir fjárreiðum stórra eða smárra félaga á aðalfundum þeirra og öðrum vettvangi án þess að unninn sé áritaður ársreikningur, sem sýni að minnsta kosti, tekjur, gjöld, eignir og skuldir auk annarra mikilvægra fjárhagsupplýsinga.
Þar að auki er ekki svo að tekjuskattslög nr. 90/2003 hafi slakað á í þessu efni samanber eftirfarandi:

D. Ákvæði í lögum um tekjuskatt:

Upphaf 90. greinar um skattframtal hljóðar svo:

Skattframtöl.
90. gr. Allir, sem skattskyldir eru skv. I. kafla laga þessara, svo og þeir sem telja sig undanþegna skattskyldu skv. 4. tölul. 4. gr., skulu afhenda [ríkisskattstjóra]
1) skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður þar sem greindar eru að viðlögðum drengskap tekjur á síðastliðnu ári og eignir í árslok, svo og önnur atriði sem máli skipta við skattálagningu. Skýrslu lögaðila og einstaklinga sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal fylgja undirritaður ársreikningur [með sundurliðunum og skýringum]
2) í samræmi við ákvæði laga um bókhald eða eftir atvikum laga um ársreikninga, ásamt sérstakri greinargerð um skattstofna í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.


Niðurlagsorð

Vinna við bókhald og reikningsskil er unnin í þágu viðkomandi atvinnurekenda. Afrakstur þeirrar vinnu er meðal annars skil nauðsynlegra fjárhagsupplýsinga til skattyfirvalda. Þrátt fyrir að slakað sé á kröfum um birtingu ársreikninga svokallaðra örfélaga breytast innri þarfir þeirra ekki. 
Lögin um bókhald eru afgerandi hvað form ársreikninga snertir og mér vitanlega hefur engin umræða farið fram um breytingu á þeim.
Ekki er hægt að mæla með því að hinn almenni félagsmaður geri minni kröfur til reikningsskila en verið hefur.
Að lokum taka lög um tekjuskatt af allan vafa um að skattyfirvöld krefjast áfram undirritaðs ársreiknings með sundurliðunum og skýringum, enda hlýtur traust og réttlát skattlagning ávallt að byggja að greinargóðum fjárhagsupplýsingum af hálfu skattaðila.

Pistill þessi er settur saman af sjónarhóli þess sem er í þjónustu atvinnurekenda, bókara sem jafnframt annast ársreikningagerð og skattskil. Í fljótu bragði sé ég ekki að starf mitt minnki að umfangi við breytingu ársreikningalaga að öðru leyti en
 1. innsending ársreikninga örfélaga til ársreikningaskrár hverfur. Er það vissulega ánægjuefni en afar takmarkaður tímasparnaður, og

 2. hægt er að sleppa gerð sjóðstreymis við gerð ársreiknings. Það er þó sáralítill vinnusparnaður því almennt er þessi hluti ársreiknings fasttengdur við viðkomandi efnahagsliði og því oft sjálfsprottinn um leið og aðrir hlutar ársreikningsins liggja fyrir.
Væri fróðlegt að vita nánar um skoðanir eða væntingar þeirra sem að lagabreytingu þessari stóðu og hvort að unnið sé að frekari breytingum á lagaumhverfi þeirra sem annast bókhald og fjárreiður smærri einkahlutafélaga.

Leturbreytingar í textanum eru undirritaðs.

Sigurjón BjarnasonHAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum