SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Úr sameignarfélagi í einkahlutafélag

Ákvæði 2. mgr. 53. greinar laga um tekjuskatt hljóðar svo:

“Ef sameignarfélagi … er breytt í hlutafélag þannig að eigendur í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir eignarhluta sína í félagi því sem slitið var, þá skal þessi breyting ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigendur sameignarfélagsins eða félagið sjálft. Við slíka breytingu skal hlutafélagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum sameignarfélagsins.”

Ákvæði þetta er sambærilegt við ákvæði 56. greinar sem heimilar formbreytingu einkarekstrar í einkahlutafélag án skattalegra áhrifa, enda færast allar kvaðir og öll réttindi yfir í hið nýja félag.

Slík breyting getur komið sér vel þar sem einkahlutafélög bera lægri tekjuskattsprósentu en sameignarfélög og ef fyrirhugaðar fjárfestingar eru fjármagnaðar með hluta af hagnaði félagsins.

Undirritaður hefur reynslu af því að nýta fyrrgreindu heimildina án vandræða, ný kennitala einkahlutafélags fékkst í byrjun árs og sameignarfélagið tæmdist um leið, en þurfti þó að skila skattframtali næsta árs og þarnæsta, það síðara reyndar án hreyfinga.

Á síðari tímum er þetta þó ekki eins einfalt mál og áður. Á árinu 2007 voru sett ný lög um sameignarfélög nr 50/2007. Í 41. grein laganna um „framkvæmd skipta“ er meðal annars að finna ákvæði um innköllun krafna og tveggja mánaða frest til hennar. Jafnfram heimilar greinin áframhaldandi rekstur “að því marki sem æskilegt er með hliðsjón af uppgjöri eigna félagsins og skiptum þess”.

Ákvörðun um slit sem tekin er við áramót getur því ekki tekið gildi fyrr en í marsbyrjun vegna lögboðins frests til innköllunar.  Fyrr getur nýtt einkahlutafélag ekki yfirtekið eignir og rekstur eða fengið kennitölu þar sem það er stofnað með yfirtöku hreinna eigna sameignarfélagsins við slit. Nýtt einkahlutafélag sem stofnað er á grunni sameignarfélagsins fæst ekki skráð fyrr en slit hins síðarnefnda eru frágengin. Svo virðist sem formbreytingin sé óframkvæmanleg á sama hátt og um yfirtöku einkareksturs væri að ræða skv. 56. grein, en þá gildir efnahagur við árslok sem stofnefnahagsreikningur nýs einkahlutafélags.  

En hvað ef ákvörðun um skipti verður tekin í október miðað við formbreytingu um áramót?

Í fljótu bragði sýnist það vera lausnin, en þó vaknar lokaspurningin ef sameignarfélagið á að halda fullum rekstri til áramóta. Hvernig skal fara með þær kröfur sem myndast á hendur félaginu á þessum tveim síðustu rekstrarmánuðum? Þarf að hefja nýtt innköllunarferli vegna þeirra? Kannski er innköllunarskylda við slit ekki jafn „fortakslaus“ eins og ríkisskattstjóri orðar það gjarna í túlkun sinni.

Hjáleið?: Ef litlar sem engar eignir finnast í sameignarfélaginu gætu eigendur sameignarfélagsins fært reksturinn yfir á eigin kennitölur sem hefðu reksturinn með höndum a.m.k. í eitt heilt almanaksár. Að því búnu stofnað tvö (eða fleiri) félög upp úr einkarekstri samkvæmt 56. grein tekjuskattslaga.  Enn síðar færi svo fram samruni tveggja einkahlutafélaga. Virðist ansi löng og dýr krókaleið og tilgangslaus ef væntanlegur hagnaður er ekki hugsaður til fjárfestinga í rekstrinum. 

Sigurjón Bjarnason

Húsaleigutekjur og skerðing bóta.

(Hvað er tekjuskattstofn?)

Við sem vinnum við framtalsgerð viljum halda því fram að niðurstöður á tekjusíðum sé hinn eini og sanni tekjuskattstofn.

En á því eru undantekningar, eða hvað?

Á blaðsíðu 3 í einstaklingsframtali koma fram fjármagnstekjur, sem skattlagðar eru um 22% til tekjuskatts. Í lið 3.7 skal telja fram tekjur af útleigu húsnæðis og í aftari dálki eru þær lækkaðar um 50% (helming) og þar af reiknaður tekjuskattur. Nú gætu menn haldið að þá sé fundinn stofn til tekjuskatts.

Stofn til tekjuskatts einstaklinga er ákvarðaður í II. og III. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, tekjur í fyrri kaflanum, frádráttur frá þeim í seinni (svona í stórum dráttum). Í frádráttarkaflanum er hins vegar ekkert að finna um þessa lækkun húsaleigutekna áður en skattur er lagður á.

En hvar er þá skýringu að finna?

66. grein laganna lýsir skattstiga manna í allmörgum liðum. Þriðja málsgrein þessarar greinar kveður á um álagningarprósentu af fjármagnstekjum. Þar má finna eftirfarandi ákvæði: „[Þó skal ekki reikna tekjuskatt skv. 1. málsl. af heildarvaxtatekjum að fjárhæð [150.000 kr.] 8) á ári hjá manni og [50%] 9) af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis [sem nýtt er til búsetu leigjanda og fellur undir húsaleigulög]. 10)4) „

Rökin að baki þessu lækkunarákvæði eru að mínu viti ljós. Með þessu er komið til móts við íbúðareigendur vegna kostnaðar við rekstur eignanna, svo sem fasteignagjöld og tryggingar, viðhald og annað sem eðlilega fylgir slíku eignarhaldi, og þessi kostnaður er metinn til lækkunar á tekjuskattstofni.

Víkur nú sögunni til Tryggingastofnunar og til laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þar segir í 16. grein að til tekna teljist tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt að teknu tilliti til frádráttarákvæða í 28. grein tilgreindra liða í 30. og 31. grein. Sú lækkun tekjuskattstofns til skattlagningar, sem lýst er hér að ofan er ekki talin með.

Eins og kunnugt er skerðast bætur almannatrygginga samhliða hækkun annarra tekna. En þar sem ekki er vísað til þessa ákvæðis 66. greinar tekjuskattslaga kemur það ekki til álita við útreikning bóta. Ellilífeyrisþegi fær því skerðingu sem nemur öllum húsaleigutekjum burtséð frá þeim kostnaði sem fylgir þessari tilteknu tekjuöflun.

Á mannamáli: Bætur almannatrygginga skerðast að fullu á móti leigutekjum, burtséð frá því sem kostar að afla þeirra.

Eftir stendur spurningin hvort niðurstaða bls 3 á skattframtali teljist vera tekjuskattstofn.

Til að flækja málið má benda á að skattleysismörk vaxtatekna er ekki sýnd á framtalseyðublaði, þó að þau séu tilgreind í sömu málsgrein og lækkun húsaleigutekna til skatts.

Sigurjón Bjarnason

Er GAMMA toppur á ísjaka?

Að sjálfsögðu er ég sekur um að hafa gleypt í mig það sem fréttamenn höfðu fram að færa í fréttaskýringum Kveik í hinu íslenska ríkissjónvarpi að kvöldi, þann 24. mars 2020.

Innihaldið er kannski ekki ljóst fyrir öllum sem fylgdust með og út af því má leggja á mismunandi vegu.

Málið snertir mig persónulega þar sem ég er félagi í þeim lífeyrissjóði sem hrapallega var hlunnfarinn sem kaupandi í viðskiptum með félag, sem hafði veifað reikningsskilum sem reyndust að öllu leyti haldlaus.

En minn hlutur er þó algert aukaatriði. Heldur hinn slæmi grunur um að fjárhagsupplýsingar úr hinu íslenska atvinnu- og viðskiptalífi séu ekki alltaf sem haldbestar.

Og ástæðurnar eru að mínu viti einkum tvær:

  • a) Þeir sem vinna bókhald fyrir fyrirtæki landsmanna, stór eða smá, eru stundum beittir ofríki eigenda með einum eða öðrum hætti. Þeir fá ekki alltaf réttar upplýsingar, fá gögn til bókunar sem standast ekki skoðun og það sem verst er, eru fengnir til þeirra óhæfuverka að eiga þátt í að framreiða falskar upplýsingar. Sumir stjórnendur fyrirtækja, einkum smárra og meðalstóra, lifa samkvæmt kjörorðinu „ég á þetta, ég má þetta“ og þá er bókarablókinni vissast að gera eins og henni er sagt.
  • b) Stétt manna sem ber hið lögverndaða heiti ENDURSKOÐENDUR yfirfara bókhald, setja upp ársreikninga og staðfesta þá með áritun sinni. Þar með ætti réttmæti upplýsinganna að vera staðfest.
    En er það svo?
    Það vita þeir sem að þessum málum vinna að áður en endurskoðandi leggur nafn sitt við ársreikninginn lætur hann viðskiptavininn, oftast framkvæmdastjóra félagsins, undirrita svokallað staðfestingarbréf. Þar er staðfest að allar þær upplýsingar sem endurskoðandi hafi fengið séu réttur, þær séu tæmandi um hag félagsins og að hann hafi ekkert að fela sem hugsanlega geti breytt meginniðurstöðum ársreikningsins. Með bréf þetta í höndunum staðfestir endurskoðandinn að ársreikningurinn sé „í öllum meginatriðum“ réttur og „gefi glögga mynd“ af afkomu félagsins og hag þess í lok reikningsársins. Og er þar með orðinn „ábyrgðarlaus í athöfnum sínum“ eins og segir á einum stað í stjórnaskránni okkar.

Og hvernig getur nú almenningur brugðist við ástandinu?

Í fljótu bragði séð er ekkert hægt að gera, bara vita hvernig við högum upplýsingagjöf úr okkar atvinnulífi. Að vilja breyta háttum þessum er ekki vinsælt umræðuefni og fáir sem búa yfir nægri þekkingu til að kryfja það til mergjar.

En ef vilji væri fyrir hendi væri til dæmis hægt að

  • a) vernda hinn samviskusama bókara með því að gefa honum kost á að leita réttar síns út fyrir fyrirtækið ef á að hafa hann til óhæfuverka.
  • b) gera endurskoðendur í auknum mæli ábyrga fyrir áritunum sínum.
  • c) láta eftirlitsstofnun á vegum ríkisins ráða hæfa einstaklinga til að gera úrtakskannanir á bókhaldi fyrirtækja sem valin eru af handahófi burtséð frá atvinnugreinum, stærð eða áritunum. Úrtakið þarf ekki að vera stórt en hefði örugglega mikinn fælingarátt gagnvart þeim hafa valdið ótrúverðugleika í atvinnulífi okkar um alllangt skeið.
En meðan ekkert er gert megum við búast við því að horfa á efnahagsreikninga þar sem hálfbyggðar byggingar (eða bara lóðir) eru metnar sem fullbyggð hús, eignarhlutar í dótturfélögum gróflega ofmetnir og viðskiptavild eignfærð þó að félagið hafi verið rekið með tapi í áravís og enginn sé líklegur kaupandi. Við eigum það sem sagt áfram á hættu að ársreikningarnir geti í verstu tilfellum bara verið pappírsins virði þó að eignir umfram skuldir sýnist vera einhverjir milljarðar.

Eignarhald almannaheillasamtaka.

Eins og þjóð veit starfar í landinu mikill fjöldi félagasamtaka þar sem fólk tekur sig saman um að vinna að málefnum, undantekningarlaust til gagns fyrir menningu og þjóðlíf allt. Opinberlega ganga félög þessi undir heitinu „almenn félagasamtök“ og mörg þeirra eru skráð í fyrirtækjaskrá hvert með sína kennitölu og aðrar grunnupplýsingar.

Seint verður ofmetið allt það góða starf sem unnið er á þessum vettvangi eða talin öll þau þjóðþrifamál sem hin frjálsu félagasamtök standa fyrir.

Hvað eignarhald snertir eru eignir þeirra óskipt sameign félagsmanna og afraksturinn rennur allur til þeirra málefna sem skráður tilgangur segir til um samkvæmt samþykktum. Félagsfundir kjósa stjórnir og aðra embættismenn til takmarkaðs tíma í senn oftast eitt ár eða til fárra ára. Kjörnir stjórnarmenn eiga ekkert meira í eignum félagsins en hinn óbreytti félagsmaður. Hins vegar hvílir á þeim sú ábyrgð að haga starfinu í samræmi við tilgang félagslaga.

Þetta er rifjað upp í tilefni af því að opinber stofnun í skjóli löggjafans hefur nú knúið stjórnarmenn þessara þörfu stofnana til að játa ranglega á sig eignarhald á eignum þeirra og rekstri. Þar með hafa fjöldi landsmanna látið leiðast til að játa á sig að eignarhald á eignum sem þeir hafa í raun mjög takmörkuð yfirráð yfir.

Til að kóróna rangindi þessi hefur ríkisskattstjóri nú hótað öllum þessum almannaheillasamtökum sem ekki sinna kalli hans refsingu sem nemur vænum fjárhæðum pr. dag.

Ekki er að efa að stjórnvaldinu gengur gott til með aðförum þessum, en hvernig væri nú að einhver í forystunni færi nú að hugsa áður en lengra er haldið?

Sigurjón Bjarnason

Kór Egilsstaðakirkju - raunverulegir eigendur

Hinn raunverulegi eigandi kórs Egilsstaðakirkju

Reynslusaga

Nú hefur undirritaður afrekað skráningu á tangarhaldi sínu á Kór Egilsstaðakirkju. Ætlaði að skrá mig sem 100% eiganda þar sem hagsmunir eru verulegir, en hafði óvart skilgreint kompaníið áður með dreift eignarhald, svo það gekk ekki. Varð því að láta í minni pokann skráði 20% (er einn af fimm í stjórn) Verð líklega í framhaldinu að beina því til meðstjórnarfólks að skrá sín 20%.

Ekki ber samt á öðru en að ríkisskattstjóri (fyrirtækjaskrá) sé saddur og sæll með fengna tilkynningu, þrátt fyrir að aðrir stjórnarmenn hafi að mínu viti látið undir höfuð leggjast að telja sér til eignar hin 4*20 prósentin, allavega sé ég ekki annað á mínum aðgangi að þessu virðulega félagi.  

Nú er ég tengdur allmörgum hliðstæðum samtökum, en óvíst að ég geri frekari tilraunir á þessu sviði uns ég skynja refsivönd laganna nálgast mig með óvéfengjanlegum hætti.

Annað mál:

Skæðar tungur herma að ekki þurfi langt að leita upplýsinga um það hverjir séu raunverulegir eigendur að stærstum hluta atvinnulífs á Íslandi. Um er að ræða tiltölulega fáar fjölskyldur og eignarhaldið byggist á aðild einstaklinganna á félögum með lögheimili erlendis, svo sem á Kýpur, Bresku jómfrúreyjum, Guernsay og víðar. Ekki er vitað hvort „fjölskyldurnar fjórtán“ bregðist við ákalli íslenskra stjórnvalda um skráningu á tengslum sínum inn í atvinnulíf.

En það er önnur saga.

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum