SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Reglubundinn sparnaður úr einkahlutafélagi

Leggi einkahlutafélag reglubundnar greiðslur inn á sparnaðarreikning á kennitölu einkaeiganda síns er það skattskyld úttekt úr félaginu. Því er mikilvægt að bókarar og þeir sem sjá um launauppgjör athugi að draga slíkar fastar greiðslur frá útborguðum mánaðarlaunum eigandans. Sé afgangur af rekstri má líka kanna möguleikann á því að félagið sjálft leggi fyrir sinn skyldusparnað. Um leið og minnt er á að í því er fólgin meiri áhætta, sem felst í óvissu gengi félagsins, mætti þó kanna slíka möguleika hjá viðskiptabankanum. Víst má þó telja að vaxtakjör félaga í slíkum sérsjóðum séu alltaf lakari en í höndum einstaklinga.

Kosturinn er hins vegar sá að slíkur sparnaður er ekki skattskyldur í hendi eiganda fyrr en hann er greiddur út úr félaginu annað hvort í formi launa eða arðs.

Úthlutun verðmæta

Svo virðist sem skattyfirvöld hafi nú markað ákveðna stefnu varðandi útlán einkahlutafélaga til eigenda sinna og eru kröfur á þá skilgreindar sem laun í samræmi við 2. málsgrein 11. gr. laga um tekjuskatt, sem hljóðar svo:

“Úthlutun verðmæta skv. 1. mgr. til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt er starfsmaður félags, eða tengds félags, telst vera laun skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr., ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög.”

Á mannamáli þýðir þetta að standi eigandi í skuld við félag sitt í lok árs má búast við að skattstjóri þurrki hana út en bæti jafnhárri fjárhæð við laun eigandans það ár.

Lagagreinin er ekki óumdeild og virðist stangast á við viss ákvæði laga um hlutafélög og einkahlutafélög og jafnvel vera í ósamræmi við önnur ákvæði skattalaga, en ekki hefur enn tekist að hnekkja aðgerðum þessum fyrir yfirskattanefnd.

Greiðsla til eigenda félags er óheimil umfram það sem reglur einkahlutafélagalaga um arðsúthlutun kveða á um. Því hafa skattyfirvöld sterka stöðu til slíkra aðgerða og rétt að ráðandi eigendur gjaldi varhug við eigin lántökum hjá félögum sínum, jafnvel þó að endurgreiðsla sé fyrirhuguð á næsta ári, svo að ekki sé hætta á því að þeir fái slíka meðhöndlun skattyfirvalda.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum