SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Bókhaldsrannsóknir á Íslandi

Það var fyrir 36 árum að bloggari hóf störf við bókhald og fljótlega bættust reikningsskil og skattskil við.

Samskipti við skattyfirvöld voru frá fyrstu tíð ágæt.

Fyrir kom að starfsfólk skattstofu innkallaði fylgiskjöl sem lágu að baki skattalegum niðurstöðum.

Var þá bókarinn oft á milli vonar og ótta.

Hafði nú starfið verið unnið á þann veg að vammlaust mátti kalla gagnvart samfélaginu?

Eða mátti hann búast við löngu athugasemdabréfi eða beiðni um nánari skýringar á tilteknum fylgiskjölum?

Alltaf leystust þó málin hvort sem til bréfaskipta kom eða ekki.

Enn situr undirritaður og starfar við bókhald og reikningsskil. Það er hins vegar af sem áður var. Nú eru slíkar beiðnir skattyfirvalda orðnar afar fátíðar, ef ekki aflagðar með öllu.

Á skattanámskeiði nokkru flutti einn ágætur starfsmaður skattstjórans í Reykjavík fyrirlestur. Kom meðal annars fram í máli hans að brýn þörf væri á því að auka bókhaldsrannsóknir á vegum embættisins. Mannskapur væri nægur, en hann væri bundinn við að bera saman innkomna launamiða við tekjur viðkomandi tekjuþega. Með sjálfvirkni á þessu sviði væri unnt að veita bókurum og atvinnulífinu nauðsynlegt aðhald og tryggja rétt skattskil eins og kostur er.

Ekki hef ég séð að þessum samviskusama embættismanni hafi orðið að ósk sinni. Í samtölum mínum við löggileta endurskoðendur og starfsfólk skattstjóranna hefur verið látið í ljós að slík vinna sé óþörf þegar löggiltir endurskoðendur hafa lagt blessun sína yfir eða samið ársreikning. Þeir séu í raun þeir aðilar, sem hafi þetta hlutverk. Frekari afskipti hins opinbera ættu a.m.k. í flestum tilvikum að vera óþörf.

Í umræðu samtímans hefur vaknað sú spurning og raunar krafa um viðamiklar bókhaldsrannsóknir á stærstu fyrirtækjum landsmanna.

Þessi áleitna krafa skapar augljóslega vanda. Ég sé ekki betur að hér hafi veigamikil fagþekking tapast að stærstum hluta. Bókhaldskennsla í framhaldsskólum hefur þokað fyrir öðrum námsgreinum.

Endurskoðendur geta jafnvel hlotið löggildingu án þess að hafa þjálfun í starfi bókarans.

Það hefur raunar gleymst að viðhalda þeirri þekkingu, sem öllum þykir þó sjálfsagt að allir þeir sem koma nálægt rekstri, skattskilum og meðferð fjármuna, hafi til að bera.

Fullltúi fyrirtækjaskrár hefur nýlega opinberað í fjölmiðlum að þar á bæ sé enginn mannskapur til að fylgjast með því að lög um hlutafélög og einkahlutafélög séu haldin.

Vissu fleiri en þögðu þó.

Nútíminn einkennist af skorti á aðhaldi af hálfu almannavaldsins. Verndun einstaklinginn fyrir "áreitni" hins opinbera hefur kostað mikla óreiðu á meðal vor. Enginn veit lengur hver lýgur eða segir satt. Yfirvofandi eru heimsóknir rannsóknarnefnda utan úr heimi þar sem Íslendingar hafa lagt niður nánast allt sem heitir opinbert eftirlit.

Okkur er öllum mikilvægt að geta lifað í þeirri trú (og helst vissu) að þegnar þessa lands sitji við sama borð. Hlíti sömu lögum. Það verður ekki á meðan hver fer sínu fram án þess að eiga von á athugunum af hálfu samfélagsins, sem helst þurfa að vera reglubundnar.

Ég er hiklaust þeirrar skoðunar að stjórvöld þessa lands þurfi snarlega að skipta um stefnu á þessu sviði, eigi þjóðin ekki að sökkva ennþá dýpra í fen óreiðu, tortryggni og jafnvel ófriðar. Til þess að svo megi verða þarf ekki síst að efla bókhaldsþekkingu í landinu og skilning á mikilvægi þess að það sé rétt og skilmerkilega af hendi leyst til að auðvelda athugun þar til bærra skoðunarmanna og embættismanna.

Sigurjón Bjarnason

Reglubundinn sparnaður úr einkahlutafélagi

Leggi einkahlutafélag reglubundnar greiðslur inn á sparnaðarreikning á kennitölu einkaeiganda síns er það skattskyld úttekt úr félaginu. Því er mikilvægt að bókarar og þeir sem sjá um launauppgjör athugi að draga slíkar fastar greiðslur frá útborguðum mánaðarlaunum eigandans. Sé afgangur af rekstri má líka kanna möguleikann á því að félagið sjálft leggi fyrir sinn skyldusparnað. Um leið og minnt er á að í því er fólgin meiri áhætta, sem felst í óvissu gengi félagsins, mætti þó kanna slíka möguleika hjá viðskiptabankanum. Víst má þó telja að vaxtakjör félaga í slíkum sérsjóðum séu alltaf lakari en í höndum einstaklinga.

Kosturinn er hins vegar sá að slíkur sparnaður er ekki skattskyldur í hendi eiganda fyrr en hann er greiddur út úr félaginu annað hvort í formi launa eða arðs.

Úthlutun verðmæta

Svo virðist sem skattyfirvöld hafi nú markað ákveðna stefnu varðandi útlán einkahlutafélaga til eigenda sinna og eru kröfur á þá skilgreindar sem laun í samræmi við 2. málsgrein 11. gr. laga um tekjuskatt, sem hljóðar svo:

“Úthlutun verðmæta skv. 1. mgr. til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt er starfsmaður félags, eða tengds félags, telst vera laun skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr., ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög.”

Á mannamáli þýðir þetta að standi eigandi í skuld við félag sitt í lok árs má búast við að skattstjóri þurrki hana út en bæti jafnhárri fjárhæð við laun eigandans það ár.

Lagagreinin er ekki óumdeild og virðist stangast á við viss ákvæði laga um hlutafélög og einkahlutafélög og jafnvel vera í ósamræmi við önnur ákvæði skattalaga, en ekki hefur enn tekist að hnekkja aðgerðum þessum fyrir yfirskattanefnd.

Greiðsla til eigenda félags er óheimil umfram það sem reglur einkahlutafélagalaga um arðsúthlutun kveða á um. Því hafa skattyfirvöld sterka stöðu til slíkra aðgerða og rétt að ráðandi eigendur gjaldi varhug við eigin lántökum hjá félögum sínum, jafnvel þó að endurgreiðsla sé fyrirhuguð á næsta ári, svo að ekki sé hætta á því að þeir fái slíka meðhöndlun skattyfirvalda.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum