SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Skattaleg meðferð úttekta einstaklinga úr eigin einkahlutafélögum

Leiðbeinandi hugmyndir um framkvæmd af hálfu skattyfirvalda.

Allmargir úrskurðir yfirskattanefndar hafa mælt fyrir um að skuldir einstaklinga við eigin fyrirtæki skuli skattlagðar eins og um tekjur væri að ræða og vísa þar til ákvæða 3. mgr. 1. tl. og 2. mgr. 4. tl. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga auk 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Að áliti ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar kemur síðari endurgreiðsla ekki í veg fyrir slíka skattlagningu.

Meðal heimilda, sem stjórnvöld byggja túlkun þessa á er álit efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við setningu laga nr.133/2001, en þar er vísað til framkvæmdar sambærilegra mála í nágrannalöndunum.

Athugun hefur þó leitt í ljós að í Noregi, Danmörku og Svíþjóð er meðferð þessara mála með innbyrðis ólíkum hætti. Í Danmörku er einungis skattlagt það vaxtalega hagræði, sem einstaklingur hefur af slíkum lánum. Í Noregi er þess krafist að skuldin verði greidd, en verði ekki af endurgreiðslu skal hún skattlögð. Í Svíþjóð virðist hafður sami háttur á og hjá íslenskum stjórnvöldum, og miða eftirfarandi hugleiðingar við hún verði áfram í gildi.

Tekið skal fram að sjónarmið það sem liggur að baki þessari framkvæmd er skiljanlegt í ljósi þess að íslenskt lagaumhverfi býður upp á viðleitni til þess líta á eigin fjárhag og fjármuna eigin félags sem óaðskiljanleg fyrirbæri og að menn geta án utanaðkomandi afskipta tekið sér fé úr eigin félögum.

Á Íslandi hefur verið heimilt frá árinu 1995 að stofna einkahlutafélag án þess að til þess þurfi nema einn einstakling, sem þá er eigandi að öllu hlutafénu. Allar götur síðan hefur slíkum félögum farið fjölgandi, en þó sérstaklega eftir að einstaklingum með rekstur var heimilað að formbreyta rekstri sínum í einkahlutafélag samkvæmt núgildandi 56. grein tekjuskattslaga.

Almennt eru eigendur slíkra félaga óupplýstir um þær reglur sem gilda um úthlutun arðs samkvæmt lögum um einkahlutafélög og eigin lán úr slíkum félögum. Ákvæði þessa efnis liggja þó fyrir í lagabókstafnum, en reglubundið eftirlit með því að lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög séu haldin, hvað þá að viðurlögum hafi verið beitt, hefur verið mjög í skötulíki.

Lesa meira

Um sölu á hlutum í einkahlutafélögum

IV. kafli laga nr. 138/1994 fjalla um meðferð hluta í einkahlutafélögum, en gjarna eru slík viðskipti háð forkaupsrétti viðkomandi félags eða annarra hluthafa. Þykir greinarhöfundi líklegt að í meirihluta slíkra viðskiptatilfella hafi viðskiptin átt sér stað innan þessa hóps, nema um sölu allra hluta félagsins hafi verið að ræða.

Það sem rekur mig til að vekja athygli á lagakafla þessum er áherslan á tilkvaðningu dómkvaddra matsmanna, ef ekki næst samkomulag um verð hluta. (3. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 15. gr.) Þessar greinar kveða á um að leita megi til dómkvaddra matsmanna náist ekki samkomulag um verð hluta.

Oft á tíðum virðist löggjafinn illa átta sig á eðli forkaupsréttar og er hér gott dæmi um það.

Minn skilningur á þessu mikilvæga fyrirbæri í samningarétti er þessi:

Forkaupsréttur er réttur þriðja aðila til þess að koma í stað kaupanda, sem áður hefur gert samning um kaup á einhverju því sem forkaupsrétturinn nær til.

Seljandinn, sem á að vita um forkaupsréttinn, gefur forkaupsréttarhafa upplýsingar um fyrirhugaða sölu. Heppilegast væri að upplýsingar þessar bærust á þrem stigum:
a) Þegar hlutur er boðinn til sölu.
b) Þegar væntanlegur kaupandi er fundinn.
c) Þegar náðst hefur samkomulag um viðskiptin.

Forkaupsréttarhafi getur hvenær sem er á þessu ferli gefið til kynna að hann hafi hug á að nýta sér forkaupsrétt sinn. Ekki er þó hægt að krefjast þess að hann taki endanlega ákvörðun fyrr en proforma samningur liggur fyrir, enda veit hann ekki fyrr að hvaða kjörum hann er að ganga. Gildir þetta jafnt um viðskipti með eignarhluti í félögum sem aðrar eignir.

Lögin um einkahlutafélög gera reyndar ráð fyrir þessu ferli og sé því fylgt kemur ekki til álita að leita þurfi umsagnar dómkvaddra matsmanna.

Séu 3. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 15. gr. skoðaðar sérstaklega virðast lögin þó gera ráð fyrir því að stjórn fyrir hönd félagsins eða aðrir hluthafar geti krafist þess að nýta forkaupsrétt sinn án þess að reynt hafi verið að selja hlutinn út fyrir félagið eða aðrar tilraunir hafi verið gerðar til þess að verðleggja hann. Lítur jafnvel út fyrir að þessar lagagreinar mæli fyrir um að eigendaskipti skuli fara fram á þessum tegundum eigna hvað sem það kostar.

Vissulega geta verið gild rök fyrir slíku, en eðlilegast er að eigandinn getið boðið hlutinn til sölu til áhugasamra utanaðkomandi aðila, séu þeir fyrir hendi, ef það mætti verða til þess að fá fram einhverja hugmynd um markaðsverð. Gallinn er sá að slíkir hlutir eru oftar en ekki léleg „markaðsvara“ líklegir kaupendur fáir og því óvíst að slíkt skili árangri. Þá er ekki annað að gera en að leita hófanna hjá félögum sínum. Þeir samningar geta vissulega orðið erfiðir og gildir það einu hvort að félagið eigi í vök að verjast eða hafi möguleika á góðri afkomu í náinni framtíð.

Niðurstaðan „engin viðskipti“ getur vissulega verið sársaukafull fyrir þann sem losa þarf um eign. En ef innlausnarskylda er ekki fyrir hendi er ekki annað að gera en að sitja uppi með eignina um sinn og þurfa þeir að gæta að þessu sem leggja fé í einkahlutafélög.

Hlutir í slíkum félögum eru einfaldlega sjaldan á markaði og það þarf tvo til þess að slík viðskipti takist.

Að tapa eða græða

Einn af föstum liðum við reikningsskilastörf er kynning á niðurstöðu bókhalds gagnvart eiganda eða framkvæmdastjóra fyrirtækis.

Með fullri virðingu fyrir stétt atvinnurekenda er skilningur þeirra á þýðingu þessarar niðurstöðu æði misjafn.
Afkoma fyrirtækja á Íslandi er upp og ofan og viðbrögð ráðamanna fyrirtækja við ótíðindum í rekstri oft ekki skynsamleg.
Á starfsævi minni hafa samtöl mín við einstaka viðskiptavini stundum hljóðað svona í einföldustu mynd:

Ég: Fyrirtækið þitt er að tapa peningum.
Hann: Það getur ekki verið.
Ég: Jú, gjöldin eru hærri en tekjurnar, sem þýðir tap.
Hann: Víst er ég að græða.
Ég: Ég byggi niðurstöðu mína á þeim gögnum og upplýsingum, sem þú hefur lagt fram.
Hann: Þú hefur misskilið eitthvað eða gert vitleysu í bókhaldinu.
Ég: Allir reikningar stemma og eignakönnun hefur verið gerð í samráði við þig.

Niðurstaða svona samtala er náttúrlega engin. Reikningsskilamaðurinn finnur til vanmáttar síns við að koma viðskiptavininum í skilning um það hvernig afkoman er og viðmælandinn er áfram viss í sinni sök.
Hinn vestræni fjármálaheimur hefur síðustu áratugina snúist á sveif með þeim, sem neita að horfast í augu við raunveruleikann. Má það merkja á tvennu:
  1. Í stað þess að horfa svo mjög á rekstrarreikning hefur í auknum mæli verið litið til sjóðstreymis. Það gefur eins og menn vita yfirlit yfir uppruna og ráðstöfun fjármagns. Í sjóðstreymi er ýtt til hliðar reiknuðum kostnaði (afskriftum) og skuldum sem koma síðar til gjalda (gengis- og verðbótahækkun langtímaskulda).
  2. Fundið var upp hugtakið markaðsverðsreikningsskil og notað í stað kostnaðarverðsreikningsskila, einkanlega í félögum sem störfuðu á opnum hlutabréfamörkuðum.

Mergurinn málsins er sá að í bókhaldi er fjárhæðum raðað í tvo dálka, debet og kredit. Horfum sérstaklega á kreditdálkinn. Þar eru annars vegar skráðar tekjur, hins vegar hækkun skulda. Í báðum tilfellum erum við að fá peninga en munurinn liggur í því að tekjur eru endanleg eign þeirra sem afla, skuldahækkun kemur hins vegar til endurgreiðslu síðar.

Það að fá greidda peninga þykir eftirsóknarvert. Skammtímahugsunin segir að þarna hafi okkur áskotnast fjármagn til yfirráða. Gjalddagar skulda er síðari tíma áhyggjuefni.

Þetta er nákvæmlega sú hugsun sem allur inn vestræni fjármálaheimur er helsjúkur af. Íslenskum atvinnurekendum er því viss vorkunn.

Markaðsverðsreikningsskil byggja meðal annars á því að meta líklegt söluverð eigna í stað þess að bíða eftir að þær seljist og tekjufæra þá fyrst raunverulegan söluhagnað. Raunkostnaður og rauntekjur eru víkjandi á meðan markaðsverð fjármuna tekur völdin í reikningsskilunum. Tilgangurinn með þessu er að gefa hluthöfum rétta mynd af líklegu verðmæti hluta sinna. Gott og göfugt markmið en hefur í för með sér mikla áhættu ef efnahagslegt umhverfi tekur umtalsverðum breytingum.

Hrollvekja samtímans er ekki síst til komin vegna þess að menn hafa hætt að lesa rekstrarreikninga, þeir eru oft ekki upplífgandi lesning. Þess í stað viljum við vita hvað við höfum haft mikla peninga til ráðstöfunar á liðnu reikningsári. Þannig er oft hægt að búa sér til bjartari veröld. Menn hafa hætt að gera greinarmun á tekjum og skuldasöfnun (eða eignarýrnun). Hið þekkta hugtak EBIDTA (hagnaður fyrir vexti og afskriftir) er gjarna birt í stað raunverulegrar afkomu.

Þegar eignum er safnað án þess að gefa gaum að því að hluti þeirra er aðeins fenginn að láni tímabundið, stefnir í óefni. Því er nú svo komið sem komið er fyrir íslenskri þjóð. Öflugustu athafmenn hennar hafa nú um nokkurt skeið látið greipar sópa um almannafé í nágrannalöndum á meðan við sem álengdar stöndum erum látin ljúga góðæri upp á sjálfa okkur. Það er gert í þeirri trú að ekki skipti máli hvort að á kredithliðina sé skráð endanlega fengið fé eða annarra eignir, hverra eigendur munu vitja fyrr eða síðar.

Nú er komið til kasta eftirkomaenda að standa skil á skuldum forfeðranna. Það mun taka tíma og miklar fórnir, en með bjartsýni, jákvæðu hugarfari og ekki síst raunsæi munum við rétta úr kútnum. Á síðustu öld tók nokkra áratugi að komast úr örbirgð til álna og það mun taka svipaðan tíma á nýrri öld.

Sigurjón Bjarnason

Mikilvægi fundargerða

Ákvarðanir í félögum eru teknar á fundum.

Dagleg stjórnun svo sem starfsmannamál, veðsetning og sala eigna og almennir viðskiptasamningar eru í höndum félagsstjórnar. Þegar kemur að breytingu samþykkta, aukningu hlutafjár, breytingu á nafni, samruna eða skiptingu, svo dæmi séu tekin, kemur til kasta félagsfundar, sem fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Því er minnt á þetta hér að gjarna vill mikilvægi bókana í fundargerðum gleymast, þegar eigendur félaga vilja koma slíkum breytingum á framfæri við fyrirtækjaskrá eða þá sem fara með reikningshald félagsins. Of oft eru sendar fullundirritaðar tilkynningar um breytingar án þess að hugað hafi verið að þeim sjálfsagða þætti að halda formlegan fund, rita fundargerð sem inniheldur skýrt orðaðar bókanir um ákvarðanir, sem síðan skal tilkynna fyrirtækjaskrá.

Aðstoðarmenn eigenda, svo sem bókarar og endurskoðendur eru jafnvel ekki vakandi fyrir þessum þætti og mætti örugglega bæta þar mjög úr. Nefna má í þessu sambandi hlutafjáraukningu í einkahlutafélögum. Ósjaldan láist mönnum að tilkynna slíkar ákvarðanir til fyrirtækjaskrár, aðeins látið duga að leggja inn hið aukna fjármagn í félagið og síðan farið að haga málum eins og aukningin sé fullgild.Í 25. grein laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög segir meðal annars að,“hinir nýju hlutir skulu veita réttindi í félaginu frá skráningardegi hlutafjárhækkunarinnar enda sé ekki annað ákveðið í samþykkt hluthafafundar um hækkunina.“

Þá kemur fram í 28. grein sömu laga að hlutaféð verði ekki skráð fyrr en það er allt innborgað.

Framkvæmdaröðin er því þessi.
  1. Ákvörðun um hækkun hlutafjár. Bókun á félagsfundi.
  2. Látið reyna á hvort forkaupsréttur verði nýttur.
  3. Innborgun (ef hún hefur ekki átt sér stað fyrir ákvörðun.)
  4. Félagsfundur haldinn sem staðfestir hækkunina hvað fjárhæð snertir. Hlutafjárhækkun er breyting á samþykktum og skal fara með hana sem slíka. Ef nýir hluthafar ganga í félagið þarf félagsfundur að staðfesta það. Sami fundur felur starfsmanni eða aðstoðarmanni að tilkynna hlutafjárhækkunina til fyrirtækjaskrár.
  5. Fyrirtækjaskrá færir inn upplýsingarnar. Þá fyrst er atkvæðisréttur hins aukna hlutafjár fullgildur. Sérstaklega er mikilvægt að vanda þennan undirbúning þegar um er að ræða flóknari og viðameiri ákvarðanir. Fundargerðirnar skulu þá varðveita ítarlega lýsingu á ákvörðunum félagsins og eigenda þess, því að á þeim byggjast aðgerðir stjórnenda og starfsmanna og að lokum hinar formlegu tilkynningar til fyrirtækjaskrár.

Bókarastarf í breyttum heimi

Á umbreytingatímum sem þessum þurfa stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja að huga að því hvernig við skuli bregðast. Nýtt umhverfi kallar á breytt hugarfar og öðruvísi áherslur.

Það vakti þjóðarathygli þegar Aðalsteinn Hákonarson endurskoðandi tjáði sig í sjónvarpi um þær aðstæður sem starfsstétt hans hefur búið við hin síðari ár.

Stjórnendur og aðaleigendur fyrirtækja fylgja þeirri meginleiðsögn að afla sem mestra tekna á sem skemmstum tíma. Það hefur verið trú manna að lántökur og jafnvel fjármögnun fyrirtækjanna á fjárfestingum eigenda sinna séu mikilvægur þáttur í velgengni á verðbréfamarkaðnum.

Á mannamáli:

Forstjórar hafa trúað því að aukning skulda og útþensla efnahagsreikninga gefi þeim endalaust svigrúm til að bæta reksturinn. Óljós verðmæti, svo sem viðskiptavild og ýmis réttindi hafa fengið aukið vægi eignamegin til þess að verja skuldasöfnunina gagnvart markaðnum.

Til þess að geta aflað lána þurfti ársreikningurinn að ganga í augum á bankastjóranum og til þess að ársreikningurinn félli bankastjórum í geð þurfti áritun endurskoðandans var vera án meinlegra athugasemda um stöðu fyrirtækisins.

Hér reyndi á faglegt sjálfstæði endurskoðenda eins og Ólafur Kristinsson endurskoðandi hjá PWC (áður búsettur á Egilsstöðum) kemst að orði í ágætri forsíðugrein sinni í tímariti Félags löggiltra endurskoðenda í janúar 2009.

Togstreitan á milli bókhaldslegrar fagmennsku og leitarinnar að fjármagni varir örugglega að eilífu. Atburðir síðustu mánaða sýna þó að fjárþörfin hefur orðið fagmennskunni yfirsterkari í einhverjum tilfellum. Til þess að vel eigi að fara þurfa þeir sem starfa við bókhald og endurskoðun að huga vel að sínu fagi. Trúverðugleiki verður að vera þeirra aðalsmerki. Traustara eftirlit og skýrari lagareglur gætu lagað baklandið, svo að bókarinn þurfi síður að lifa í óvissum það hvort hann gengur of langt í að þóknast viðskiptavininum eða ef til vill hinu skattalega umhverfi.

Mikilvægast er þó að stjórnendur fyrirtækja stýri fyrirtækjum sínum með langtímasjónarmið í huga í stað þess að stefna einungis að auknum seljanleika hlutabréfa og lántökumöguleikum þegar ársreikningurinn er kominn í hendurnar á þeim..

Skyndihagnaður verður örugglega víkjandi sjónarmið við stjórn alvörufyrirtækja í framtíðinni. Í stað þess kemur krafan um réttar upplýsingar um hag þeirra til lengri tíma litið. Þá kemur til kasta þeirra sem gera fjárhagsáætlanir, annast skráningu á fjárhreyfingum og semja ársreikninga og aðrar skýrslur gagnvart umhverfinu. Bókarinn verður þá mikilvægur og sjálfstæður í störfum sínum, sem bæði eru unnin í þágu rekstraraðilans og þess umhverfis sem fyrirtækið starfar í.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum