SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Tekjuskattur en engar tekjur

Við eigum að greiða tekjuskatt án þess að hafa tekjur.

Þá höfum við það.

Hæstiréttur felldi í gær dóm þess efnis að greiddur skuli tekjuskattur af fé, sem skattgreiðandi hefur ekki undir höndum, heldur hefur skilað eiganda sínum aftur samkvæmt lagaskyldu.

Í niðurstöðu dómsins stendur meðal annars þetta: Hæstiréttur vísaði meðal annars til þess að markmið fyrrgreindra lagaákvæða hefði verið að stemma stigu við ólögmætri úthlutun fjár í formi láns úr félögum og að endurgreiðsla láns, á borð við þau er málið varðaði, hefði engin áhrif á skattskyldu.

Orðin sem undirstrikuð eru er hvergi að finna í lagatexta, en eru hins vegar túlkun skattyfirvalda þegar til framkvæmdar kemur.

Álit þeirrar þingnefndar sem undirbjó lagasetninguna geymir hins vegar eftirfarandi orð meðal annarra: „..huga skuli að skattlagningu, þegar úthlutað sé fjármunum til eigenda í formi láns án þess, að burðir séu í reynd til endurgreiðslu fyrr en skattstjóri geri athugasemd".

Niðurstaða dómsins er þá sú að unnt sé að haga skattlagningu eftir túlkunum skattyfirvalda, þó að mikill vafi leiki á því hvort vilji löggjafans liggi að baki og þó að skattaðili hafi engar tekjur í hendi, heldur eingöngu uppgreidd lán.

Eftirtaldar meginreglur hafa að viti bloggara verið brotnar með dómi þessum.

1. Skattlagningu tengdra aðila skal haga eins og um ótengda aðila væri að ræða. (57. gr. tekjuskattslaga)
2. Ákvæði laga í skattarétti skulu vera skýr og ótvíræð.
3. Vafi skal túlkaður sökunauti í hag.
4. Tekjuhugtakið skal lagt til grundvallar tekjuskattstofni.
5. Ekki er hægt að byggja dóma á mótsagnakenndum og óskýrum lögum.

Þá má geta þess að Íslendingar njóta "sérréttinda" í þessu efni meðal Norðurlandaþjóða.

Sjá dóm hæstaréttar nr. 153/2012.

Áætlanir ríkisskattstjóra

Aðstoð við svarta atvinnustarfsemi?

Þegar sá sem þetta ritar hóf störf á vettvangi bókhalds og skattskila stóðu margir viðskiptavinir frammi fyrir áætluðum opinberum gjöldum, þegar þeir leituðu aðstoðar. Fjárhæðir áætlunar þóttu stundum með ólíkindum háar og allar götur ólíkar þeim tekjum, sem rekstraraðilarnir höfðu í raun. 

Aðspurð sögðust þáverandi skattayfirvöld ekki taka mið af líklegum tekjum við gerð áætlana, heldur var markmiðið að knýja skattaðila til framtalsskila. Á því hafði ég fullan skilning og ekki annað að gera en að aðstoða viðskiptavininn við að uppfylla lögmætar kröfur hins opinbera.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag virðist sem áætlanir taki fremur mið af líklegum tekjum, hugsanlega með hliðsjón af innkomnum verktakamiðum eða slíku.

Fjölmargar starfsgreinar fá lítið sem ekkert uppgefið af tekjum sínum á verktakalaunamiðum. Má þar sérstaklega nefna ferðamanna"iðnaðinn", sem vex nú hröðum skrefum. Því er alþekkt að innsendir verktakamiðar gefa engar upplýsingar um raunverulegar rekstrartekjur fjölmargra atvinnurekenda.

Nú er svo komið að rekstraraðilar, margir hverjir, gleðjast yfir áætlunum sínum og draga það í lengstu lög að skila inn réttu skattframtali.

(Þegar þetta er ritað hefur bloggari áætlun fyrir framan sig upp á tæp 200.000 kr., en rekstrartekjur viðkomandi aðila nema tugum milljóna og hagnaður að líkindum verulegur. )

Mér virðist sem Ríkisskattstjóri sé með þessum vinnubrögðum að stuðla að svartri atvinnustarfsemi og í raun búinn að gefast upp við að ná fram eðlilegum framtalsskilum. Á meðan fjölgar þeim rekstraraðilum, sem greiða áætlanir sínar árlega glaðir í bragði og eru síðan tilbúnir með nýja kennitölu þegar og ef ríkisskattstjóri skiptir um taktik.

Sigurjón Bjarnason

Héraðsdómur um úttekt eiganda

Þann 23. janúar síðast liðinn féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Stefáns Guðjónssonar gegn Íslenska ríkinu. Þar sem bloggari átti þar hlut að máli, hefur hann kynnt sér efni dómsins og komist að eftirfarandi niðurstöðum.

  1. Viðurkennt er af dómara að skuld einstaklings getur við útborgun flokkast sem skattskyldar tekjur. Þannig er útborgun fjár, sem mögulega skal koma til endurgreiðslu, skilgreind á sama hátt í skattalegu tilliti og endanleg úthlutun verðmæta.
  2. Tvísköttun virðist vera heimil á Íslandi, a.m.k. í vissum tilvikum. (Spurning hvernig erlendum fjárfestum líst á slíkar fréttir af landinu kalda.)
  3. 57. grein tekjuskattslaga, um jafnræði milli tengdra og ótengdra aðila, víkur í tilfellum lántöku eiganda úr eigin félagi.
  4. Samanburður við nágrannalönd kemur ekki til álita, þó að starfsnefnd Alþingis hafi markað þá stefnu í áliti sínu.
  5. Meginregla laga um skýrleika í skattarétti kemur heldur ekki til álita. 

En .......... þrátt fyrir allt sem að ofan greinir er það talið brjóta gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar að skattleggja fé, sem skattþegn hefur ekki undir höndum, enda gengur ríkið með því á eignir hans. 

Það er út af fyrir sig jákvætt að hafa unnið þetta mál gegn ríkinu, en við leit að forsendum virðist dómarinn hafa gripið síðasta hálmstráið til að réttlæta niðurstöðuna, sem sagt stjórnarskrárbrot.

Undirritaður er þeirrar skoðunar að ólögmætar úttektir eigenda úr félögum sínum sé ósiður, sem sjálfsagt sé að leggja af og ber stjórnvöldum að framfylgja banni við þeim með öllum tiltækum ráðum. Þess vegna gæti ég alveg keypt þau rök að það þjóni almannaheill að refsa fyrir slíkt með upptöku eigna, en þar verður þá að gæta meðalhófs og byggja á skýrum ákvæðum laga, sem við dómarinn erum sammála um að ekki séu fyrir hendi.

Sigurjón Bjarnason

Útskúfun kröfuhafans og skjól skuldarans

Eitt af hlutverkum bókara er að kanna verðmæti krafna fyrir viðskiptavini sína. Í dag ætlaði ég að forvitnast um stöðu þrotabús og vildi vita hver skiptaráðandi væri, svo að hægt væri að halda kröfu viðskiptavinar míns til haga.

Þetta hefur gengið ósköp ljúflega þar sem ég er hef netáskrift að Lögbirtingablaðinu og þar hefi ég getað slegið inn kennitölu viðkomandi skuldara, fundið þannig innköllunartilkynninguna og um leið hver skiptastjóri er.

Í morgun birtist mér á skjá Lögbirtings að Persónuvernd hefði lokað fyrir slíkar uppflettingar.

Það er ofvaxið mínum skilningi hverra hagsmuni er hér verið að vernda. Þegar aðili er opinberlega gjaldþrota er hann kominn í skjól skiptastjóra og því engin hætta á því að eignir tapist, ef allt er með felldu. Kröfuhafinn er hins vegar varnarlaus ef hann getur ekki hjálparlaust komist að því hvert skal snúa sér með kröfu sína.

Er það stefna stjórnvalda að torvelda þannig aðgang óbreyttra borgara að eignum sínum?

Eiga skuldarar heimtingu á meiri persónuvernd en skuldareigendur?

Ef svo er, þá hvers vegna?

Halda menn að traust skapist á milli þjóðfélagsþegna með þvílikum aðgerðum?

Sigurjón Bjarnason

Skattaleg meðferð úttekta einstaklinga úr eigin einkahlutafélögum

Leiðbeinandi hugmyndir um framkvæmd af hálfu skattyfirvalda.

Allmargir úrskurðir yfirskattanefndar hafa mælt fyrir um að skuldir einstaklinga við eigin fyrirtæki skuli skattlagðar eins og um tekjur væri að ræða og vísa þar til ákvæða 3. mgr. 1. tl. og 2. mgr. 4. tl. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga auk 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Að áliti ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar kemur síðari endurgreiðsla ekki í veg fyrir slíka skattlagningu.

Meðal heimilda, sem stjórnvöld byggja túlkun þessa á er álit efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við setningu laga nr.133/2001, en þar er vísað til framkvæmdar sambærilegra mála í nágrannalöndunum.

Athugun hefur þó leitt í ljós að í Noregi, Danmörku og Svíþjóð er meðferð þessara mála með innbyrðis ólíkum hætti. Í Danmörku er einungis skattlagt það vaxtalega hagræði, sem einstaklingur hefur af slíkum lánum. Í Noregi er þess krafist að skuldin verði greidd, en verði ekki af endurgreiðslu skal hún skattlögð. Í Svíþjóð virðist hafður sami háttur á og hjá íslenskum stjórnvöldum, og miða eftirfarandi hugleiðingar við hún verði áfram í gildi.

Tekið skal fram að sjónarmið það sem liggur að baki þessari framkvæmd er skiljanlegt í ljósi þess að íslenskt lagaumhverfi býður upp á viðleitni til þess líta á eigin fjárhag og fjármuna eigin félags sem óaðskiljanleg fyrirbæri og að menn geta án utanaðkomandi afskipta tekið sér fé úr eigin félögum.

Á Íslandi hefur verið heimilt frá árinu 1995 að stofna einkahlutafélag án þess að til þess þurfi nema einn einstakling, sem þá er eigandi að öllu hlutafénu. Allar götur síðan hefur slíkum félögum farið fjölgandi, en þó sérstaklega eftir að einstaklingum með rekstur var heimilað að formbreyta rekstri sínum í einkahlutafélag samkvæmt núgildandi 56. grein tekjuskattslaga.

Almennt eru eigendur slíkra félaga óupplýstir um þær reglur sem gilda um úthlutun arðs samkvæmt lögum um einkahlutafélög og eigin lán úr slíkum félögum. Ákvæði þessa efnis liggja þó fyrir í lagabókstafnum, en reglubundið eftirlit með því að lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög séu haldin, hvað þá að viðurlögum hafi verið beitt, hefur verið mjög í skötulíki.

Lesa meira

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum