SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Er gistináttaskatturinn sjálfbær?

Í byrjun árs 2012 var tekinn upp nýr skattur á Íslandi, gistináttaskattur. Fjármagnið átti að renna til uppbyggingar vegna aukinnar umferðar ferðafólks í landinu. Kollegar mínir í bókarastétt eyddu verulegum tíma í að kynna sér útreikning og skýrslugerð vegna hins nýja tekjustofns ríkisins og í dag fer alltaf nokkur tími aukalega í að halda honum til haga og aðstoða viðskiptavini við að gjalda keisaranum það sem keisarans er í þessu efni sem öðru. Þá er ótalin sú vinna sem hugbúnaðarsfræðingar lögðu í breytingar á bókhaldsforritum svo þau gætu þjónað þessum nýja skatti.
Eitt af því fyrsta sem stúderað var var gjaldstofninn gistináttaeining, en af hverri einingu áttu eigendur gistirýma að skila 100 kr. til ríkisins en einnig virðisaukaskatti þar til viðbótar þannig að í dag greiða neytendur 111 kr. til ríkisins á þessa einingu.

Hugum nú aðeins að hugtakinu gistináttaeining. 
Hún gildir fyrir eina nótt eftir orðanna hljóðan. Halda mátti að einn maður í eina nótt væri því gistináttaeining. En málið reyndist alls ekki svo einfalt, enda kannski erfitt að halda utan um slíka talningu hvað þá að hafa eðlilegt eftirlit af hálfu skattyfirvalda. Í stað þess er meginreglan þessi:
 1. Eitt útleigt herbergi í eina nótt telst ein gistináttaeining, sama hvað margir gista í herberginu.
 2. Ein íbúð eða orlofshús í eina nótt telst líka ein gistináttaeining. Gestafjöldi skiptir ekki máli.
 3. Nótt á tjaldstæði er ein gistináttaeining. Ekki skiptir máli þó að í tjaldinu kúri einn puttaferðalangur eða hvort fjölmenn fjölskylda í stórum húsbíl eigi í hlut.
 4. Ef rúm eða bara svefnpokapláss er leigt út í stærra rými telst það eitt gistirými, þó að mörgum gestum sé komið fyrir í stórum sal.
Ofantaldar gistináttaeiningar eru síðan seldar á mjög misjöfnu verði. Mér er nær að halda að verðin séu á bilinu 5.000 til 50.000 kr., (og gistináttaskatturinn frá 0,2% upp í 2% af veltu) þó að eflaust megi finna bæði lægra og hærra verð og hlutfall. Að framangreindu athuguðu læðist að manni grunur um að í stað þessarra tilbúnu eininga gæti skattstofninn einfaldlega verið sölutekjur, sem gæti einfaldað alla meðferð til muna og gert innheimtu skilvirkari. 
Fyrir utan þetta hefur sú spurning vaknað hvort þessi tiltölulega hógværa skattlagning skili nokkru til ferðaþjónustunnar, sem átti nú einu sinni að njóta teknanna með einum eða öðrum hætti. Hver er kostnaður við álagningu, eftirlit, innheimtu og ekki síst utanumhald sjálfra innheimtuaðilanna, gistihúsaeigenda víða um land. Eru tekjurnar örugglega að standa undir þessu öllu saman? Raunar er ekki hlaupið að því að hafa upp á áreiðanlegum upplýsingum um þennan tekjulið ríkissjóðs, en heyrst hafa tölur frá 250 milljónir á ári upp í 500 milljónir, sem þýðir svosem verðgildi 3-6 einbýlishúsa. 
Með öðrum orðum: Er gistináttaskatturinn sjálfbær?
Önnur spurning snýr að því hvort að eðlilegt sé að skatturinn sé bundinn við þá sem bjóða gistirými, en auðvitað hagnast flestar ef ekki allar þjónustugreinar landsmanna á fjölgun ferðamanna, ekki aðeins hótelrekendur.

Sigurjón Bjarnason.

Ábyrgð einstaklings að baki eigin atvinnurekstri - skattaleg ívilnun.

Viðskiptavinur minn lenti í hremmingum vegna þess að bankaskuld einkahlutafélags, sem hann átti hlut í féll á hann vegna sjálfskuldarábyrgðar. Hann var að vísu aðeins 50% eigandi í félaginu og meðeigandi hans hafði tekið að sér greiðslu á sínum hluta. Af þessu skapaðist fjárhagsbyrði sem skerti gjaldþol verulega og því freistandi að láta reyna á 6. tl. 65. greinar tekjuskattslaga og leita eftir ívilnun vegna tapaðra krafna sem ekki stafa af atvinnurekstri.

Niðurstaðan var næsta fyrirsjáanleg, eins og segir í niðurstöðu ríkisskattstjóra þar sem hann vitnar til reglu í 66. gr. tekjuskattslaga: „Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið er að gjaldþol manna sé verulega skert vegna tapa á útistandandi kröfum sem ekki stafa af atvinnurekstri hans. Með atvinnurekstri í þessu sambandi er átt við atvinnurekstur sem einstaklingur hefur með höndum og eignaraðild í sameignarfélagi eða hlutafélagi. Það telst þó ekki atvinnurekstur ef eignarhluti í hlutafélagi er óverulegur og aðild eða tengsl manns við félagið eru þannig að ekki sé ástæða til að líta þannig á að um atvinnurekstur sé að ræða. Sé eignarhluti minni en 20% telst hann óverulegur í þessu sambandi ...“

Því miður er mörg dæmi um að heimili fái slíka bakreikninga vegna aðildar að atvinnurekstri og því rétt að vara fólk við persónulegum uppáskriftum skuldabréfa eða tryggingabréfa fyrir fjármála­stofnanir í rekstrarlegum tilgangi.

Öll höfum við trú á fyrirtækjunum okkar og viljum veg þeirra sem mestan. Blasi við skortur á fjármagni er hins vegar rétt að spyrja sig hvort að tekjur framtíðarinnar séu öruggar. Eru engir hákarlar í kjölfarinu? Er meðeigandi traustur? Reynist svörin við þessum spurningum verða jákvæð, myndi ég samt sem áður skoða eftirtalin atriði áður en ég set nafnið mitt undir skjalið: 
 1. Eru aðrar leiðir til fjármögnunar útilokaðar, (til dæmis fyrirframgreiðsla viðskiptavinar inn á tekjur)?
 2. Gæti ég lánað félaginu úr eigin sjóði.
 3. Gæti ég tekið persónulegt lán, sem ég gæti síðan greitt af með sjálfsaflafé?
 4. Gæti ég tekið á mig þessa skuld félagsins án þess að verða sjálfur fyrir verulegum skakkaföllum, ef illa fer?
Ef svörin við þessum spurningum eru neikvæð er ekki nema eitt að gera: Kveðja þessa hugmynd um atvinnurekstur og snúa sér að einhverju öðru.

Hitt er svo annað mál og rétt að spyrja sig þeirrar spurningar líka: „Er ég tilbúinn að fórna aleigunni svo að draumurinn rætist?“ Má vera að svo sé og þá er ekki annað að gera en að henda sér í djúpu laugina.

Hitt er svo annað mál, að ef við göngum í sjálfskuldarábyrgð fyrir frænda, frænkur eða annað venslafólk til að auðvelda fjármögnun þeirra atvinnurekstrar og ef sú skuld fellur á okkur sjálf, þá getum við óhikað leitað eftir skattalegri ívilnun, þar sem við erum þá ekki sjálf með reksturinn, heldur hefur skapast krafa á hinn óheppna ættingja eða vin sem er töpuð, enda verði hann gjaldþrota eða þoli árangurslaust fjárnám.

En eitt er á hreinu: Verði mönnum á að bakka upp eigin atvinnurekstur með persónulegri ábyrgð, þýðir ekki brauðs að biðja varðandi skattalega ívilnun.

Sigurjón Bjarnason      

Birting skattskrár

Á þrítugsaldrinum var ég gerður formaður í nýstofnuðu íþróttafélagi. Félagið var fátækt, fátt um aðgengilega tekjustofna. Ýmis uppátæki voru valin til fjáröflunar. Meðal þeirra var útgáfa og sala skattskrár allra skattgreiðenda í þeim hreppi Egilsstaðahreppi.

Ekki man ég betur en að viðtökur hafi verið góðar. Allavega seldist upplagið og framtakið mæltist almennt vel fyrir. Einhverjir urðu þó til að draga úr því að þessari starfsemi yrði framhaldið, þó að skattskrá landsmanna væri þá opinbert plagg og aðgengileg allan ársins hring á skattstofunni.

Og árin liðu. Raddir urðu háværari um að hætta birtingu skattskrár og að lokum var hún gerð aðgengileg fáa daga eftir útkomu, síðan einkamál embættismanna.

Ég hef reynt að setja mig inn í hugarheim þeirra sem telja misráðið að gefa almenningi kost á vitneskju um framlög einstakra skattþegna í sameiginlega sjóði. Algengustu rökin eru þau að talsvert er um áætluð gjöld, álagningin því ekki fyllilega marktæk, og að tryggustu lesendum gangi til forvitni og jafnvel illgirni. Upplýsingarnar séu notaðar gegn fólki sem ekkert hefur til saka unnið. Upplýsingar í skattskránni séu persónulegar sem „leynt skuli fara“.

Ég vil á hinn bóginn eiga kost á því að vita hvaða hópi ég tilheyri, hverjir greiða félagsgjöld í þá sjóði sem ég er aðili er að og hversu ríkulegt framlag kemur frá hverjum og einum. Mig varðar hins vegar ekkert um fjárhag eða afkomu, fjárfestingar eða lántökur samborgara minna, enda koma slíkir hlutir ekki fram í skattskránni. Þar á móti tel ég aðildargjöld samborgara minna að okkar ágæta samfélagi ekki einkamál. Og eftir umræðu þessara daga og vikna sýnist mér andrúmsloftið í íslensku samfélagi ekki verða hreinsað fyrr en gamli siðurinn verði tekinn upp, upplýsingar um álagðan tekjuskatt og útsvar gerð aðgengileg allan ársins hring. Hitt er svo spurning hvort að rétt er að gefa þær út í bókarformi og dreifa í hús.

Og hvað forvitni og illgirni okkar ágætu samborgara líður, verðum við bara að búa við það hvort sem okkur líkar betur eða verr. Slíkir finna sér alltaf leiðir til að þjóna lund sinni og væri okkur skammar nær að innleiða kurteisi og virðingu fyrir hag og einkamálum samborgara okkar, frekar en að láta einhverja elítu um vitnesju sem varðar almannahag.

Sigurjón Bjarnason. 

Sniðganga eða undanskot – einföldunar er þörf.

Eru málin að þróast til betri vegar?

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umræðu fjölmiðla síðustu vikurnar, sem kviknuðu af skyndilegri uppljóstrun um vel varðveitta sjóði forsætisráðherrafrúarinnar í erlendum lágskattaríkjum. (Eins og menn hafi ekki grunað það fyrir löngu?!). Lögmæti slíks fyrirkomulags dregur enginn í efa, en þó hrökklaðist eiginmaðurinn úr starfi.

Eins og fyrr hefur verið vikið að í bloggi þessu heimilast fólki, sérstaklega því sem hefur fé undir höndum (eigið eða annarra) að vista það erlendis. Það telst lögmæt leið til að sniðganga það skattkerfi þess lands sem viðkomandi býr í. Á fínu máli heitir þetta skattasniðganga en ríki heimsins eru í vaxandi mæli að þrengja þessar heimildir.

Margar fleiri leiðir eru til skattasniðgöngu en í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um síðustu helgi þótti mér bréfritari heldur betur hafa víkkað hugtakið þar sem hann greinir frá því að hann hafi ekki nýtt sér þann möguleika að telja til gjalda þann útlagða kostnað sem hann fékk endurgreiddan á þingmannsdögum sínum. Heldur taldi hann fengnar greiðslur til gjalda án frádráttar. Nú er það svo að gjarna þiggja menn greiðslur til að standa straum af kostnaði. Algengasta dæmið er atvinnurekstur. Það er nýlunda í mínum huga að réttilega færð gjöld, tengd viðkomandi tekjum nefnist skattasniðganga. Ef svo er iðka ég daglega aðstoð við slíkar athafnir þegar ég veiti þjónustu á sviði bókhalds og reikningsskila. En auðvitað er þetta lögmæt leið til að lækka tekjuskattstofn, og hingað til hafi ég talið það bæði rétt og skilt að tekjuskattleggja mismun tekna og tengdra gjalda en ekki brúttótekjur. Annað væru frjáls framlög til ríkissjóðs, sem að vísu eru vel þegin á þeim bæ.

Að skjóta tekjum undan skatti er allt önnur athöfn og lýtur að því að vantelja tekjur eða oftelja frádrátt. Þá eru menn, gjarna gegn betri vitund, að forðast lögmæta skattlagningu tekna.

Önnur grein í Morgunblaðinu nýlega vakti athygli mína, en það var svar Baldurs Guðlaugssonar við umfjöllun Gunnars Smára Egilssonar um stefnu liðinna ríkisstjórna í skatta- og efnahagsmálum. Grein Baldurs er býsna upplýsandi um þau viðhorf sem giltu í ráðuneyti því sem hann starfaði hjá fyrr á árum. Má skilja að ráðuneytið væri fylgjandi auknu skatteftirliti og hafi lagt ríka áherslu á eflingu þess á vegum ríkisskattstjóra. Annað hvort væri nú að ráðuneyti það sem sett er til að gæta fjármála ríkisins vildi herða skatteftirlit, en ég verð þó að telja eftirtekjuna í rýrara lagi. En hvað svo sem er að gerast á eftirlitsvettvangi ríkisskattstjóra verð ég í mínu starfi var við ákveðna vakningu í þá átt að fólk vilji nú fara að „gjalda keisaranum það sem keisarans er“.   Er ég ekki frá því að umfjöllun fjölmiðla um þessi mál hafi þessi jákvæðu áhrif. Ef þessi tilfinning mín er rétt, væri nú tækifæri fyrir skattyfirvöld, atvinnulífið og fagaðila til að taka höndum saman um að bæta úr þessum málum. Jafnframt væri mikilvægt að allir þessir aðilar myndu vinna með löggjafanum að róttækum lagabreytingum sem miðuðu að einföldun á íslensku skattkerfi. Með því væri stigið mikilvægt skref til að gera hinn almenna skattþegn jákvæðari og skilningsríkari gagnvart þeirri þörf sem okkar sameiginlegu sjóðir eru í ef viðhalda á eða jafnvel auka þá velferð sem við búum við í þessu landi.

Verkefnið væri tvíþætt; að fækka gráu svæðunum og að laga reglurnar betur að því viðskiptaumhverfi sem við lifum í í dag.

Sigurjón Bjarnason.

Skattaskjól

Örfá orð í tilefni dagsins (3. apríl 2016)
Einn ágætur áhrifamaður lýsti því yfir í útvarpinu í gær að hann væri á móti skattaskjólum. 
Vaknar þá spurningin: Um hvað er maðurinn að tala?
Alþjóðasamfélagið er sammála um að hvert ríki hafi rétt til að semja sínar reglur um opinber gjöld. Þannig hafa einstök fylki Bandaríkjanna sínar reglur og Evrópusambandið hefur ekki tekið fram fyrir hendur stjórnvalda í þessu efni. Um þetta ríkir einfaldlega sátt, sem engin umræða er um að rjúfa.
Önnur staðreynd er að fjármagn flæðir nú í vaxandi mæli á milli ríkja án afskipta stjórnvalda. Þetta er í þágu almennings, atvinnulífs og afkomu sameiginlegra sjóða. 
Augljóslega hafa ríki mismunandi þörf fyrir skatttekjur og stjórnmálin leggja mismunandi mikla áherslu á velferð og samneyslu. Þar af leiðir að eigendur fjármuna leitast við að koma þeim fyrir þar sem minnst fer til hinna sameiginlegu sjóða. 
Það sem að ofan er lýst er hið sjálfsagða, einfaldlega náttúrulögmál á meðan fólk á sparifé og vill varðveita það með sem hagkvæmustum hætti. 
Þetta skapar hins vegar þau vandamál að maður, heimilisfastur í landi þar sem velferð er mikil og dýrt að reka ríkissjóð, velur að vista fjármuni sína í öðru landi þar sem hið opinbera hefur minni þörf fyrir rekstrarfé. 
Þetta er það sem við köllum að koma peningunum sínum í„skattaskjól“.
Viðbrögð ríkja heims eru löngu kunn.

 1. Þau hafa í fyrsta lagi gert tvísköttunarsamninga til að maður sem hefur tekjur í öðru landi en heimalandinu er skattlagður eins og reglur heimalandsins heimila.

 2. Til að ná til lögaðila hafa víða verið settar svokallaðar CFC-reglur, það er erlend félög í eigu landsmanna eru skattlögð eins þau væru skráð á Íslandi. (Controlled Foreign Companies)

 3. Til enn frekari jöfnunar hafa flest nágrannaríki Íslands hafa girt fyrir þann möguleika að eigendur láni félagi sínu erlendis stórfé og reikni síðan háa vexti sem dragast frá tekjum þess. (Thin capitalizion eða þunn eiginfjármögnun) Vaxtatekjurnar bera síðan lága (jafnvel enga) skatta í heimaríkinu. Íslensk stjórnvöld hafa ekki enn sett slíkar reglur, hvað sem veldur.

 4. Nýlega náðust svokallaðir upplýsingaskiptasamningar Íslands við fjölmörg af þekktustu „skattaskjólum“ heims. Undirrituðum er hins vegar ekki kunnugt um inntak þeirra eða hversu rúmar heimildir íslensk stjórnvöld hafa til að afla upplýsinga um eignir og tekjur samborgara okkar í hinum einstöku „fríríkjum“.
Á góðæristímunum fyrir 2008 var það íslensk alkunna að efnameira fólk lagði fé sitt á erlenda bankareikninga eða fjárfesti á annan hátt í þeim ríkjum þar sem spara mátti skattlagningu. Í nútímanum virðist vilji stjórnvalda um heim allann stefna í þá átt að tryggja hverju ríki tekjur í samræmi við þarfir og vilja heimafyrir, hvar sem tekjur skattþegna verða til. Þróun í þessa átt er jákvæð og hraðari en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Umræða um „skattaskjól“ í dag kemur mér því mjög á óvart, einkum sá andarteppustíll sem einkennir hana. Fjölmiðlafólki væri að mínu viti nær að kynna sér eðli og þróun þessara mála á heimsvísu og uppfræða lýðinn í stað þess að slá ryki í augu hans og gera einstaka ráðamenn að syndahöfrum.

Sigurjón Bjarnason.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum