Hraunsnefskettir nútímans
Köttur þessi þótti einkar góður til áheita líkt og Strandarkirkja síðar og safnaðist honum því nokkurt fé. Eigendur kattarins sáu í kettinum snjalla leið til að koma einhverju af tekjum sínum framhjá þeirra tíma skattheimtu og völdu því að telja þær honum til tekna. Eitthvað reyndu sveitaryfirvöld að koma kisa á skattskrá, en tókst ekki svo að talsverðar skattlausar eignir voru komnar á hans nafn þegar hann lét sig hverfa stuttu eftir andlát eigandans, þar á meðal einhverjar jarðeignir. Segir ekki af álagningu opinberra gjalda á „einstakling“ þennan því aldrei tókst að gera hann að „lögpersónu“.
Víkur þá sögunni til nútímans.
Í dag las ég sameiginlega tillögugerð forystumanna Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins þar sem taldar eru upp opinberar aðgerðir sem þeir telja nauðsynlegar til að sporna við svokölluðu kennitöluflakki, en það felst einkum í því að fólk sem stofnar einkahlutafélög samkvæmt þaraðlútandi lögum gugnar í baráttunni, seint eða snemma, leggur sína ágætu „lögpersónu“ til hliðar og stofnar til nýrrar án þess að hirða um gera upp skuldir hinnar fyrri né halda skattskilum hennar til haga. Ábyrgð þeirra er nú einu sinni lögum samkvæmt takmörkuð við innborgað hlutafé. Lágmarksfjárhæð hlutafjár er 500.000 kr. og hefur mér vitanlega enginn minnst á að hækka hana í 22 ár.
Leit lauslega yfir tillögur höfðingjanna og sýndist þær ganga í rétta átt. En því miður, jafnvel þó að þessum átta liðum væri hrundið í framkvæmd væri til lítils barist. (Tillögur þeirra og athugasemdir mínar birtast í lok þessa pistils).
Eins og ég hef áður nefnt í pistlum mínum munu viðurlög við vanskilum ársreikninga hækka úr 250.000 kr. í 600.000 kr. frá og með næsta hausti. Allt gott um það. En hverjir eiga nú að borga sektirnar. Jú, það eru viðkomandi „lögpersónur“. Það væri líkt og að Hraunsnefskötturinn væri látinn borga skammirnar ef hann væri uppvís að svikum. Það gekk nú svona og svona í den.
Þessu má líkja við hunda sem ekki eru færðir til hreinsunar reglum samkvæmt. Sektin væri þá lögð á hundinn sjálfan en ekki eigandann, hvaðan sem seppa ætti að koma sú viska að borga þessar vammir húsbóndans, hvað þá fjármagn til þeirra nota.
Lögpersónur eða lögaðilar nútímans eru því miður aðeins dauðir hlutir hannaðir af löggjafanum okkar, örugglega með vilja og vitund stjórnenda atvinnulífs. Á meðan slíkum sektargreiðslum er ekki beint gegn þeim sem hagsmuna eiga að gæta, (samanber húsbændum á Hraunsnefi) þarf enginn að búast við því að nein kúvending verði í þessum málum.
Viðauki:
Tillögur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands eru í átta eftirtöldum liðum. Athugasemdir SB eru skáletraðar í rauðu.
- Heimild til að svipta þá einstaklinga sem teljast vanhæfir vegna óverjandi viðskiptahátta eða rökstudds gruns um refsiverðan verknað í rekstri heimild sinni til að taka þátt í stjórnun félags með takmarkaða ábyrgð í allt að þrjú ár. Hver á að meta það hverjir teljast „vanhæfir“ og hvernig?
- Lífeyrisiðgjöld verði betur vernduð svo að lagalegar afleiðingar fylgi því að skilja eftir lífeyrissjóðsskuldbindingar í eignalausu þrotabúi. Eiga þessar greiðslur þá að falla undir „rimlagjöld“. Hafa menn athugað hvernig gengur að innheimta ógreidda staðgreiðslu og virðisaukaskatt hjá þeim sem bera ábyrgðina, eftir að viðkomandi félag er farið á hausinn. Hef grun um að á þeim kröfum séu miklar „Hálfdánarheimtur“.
- Nefnd skipuð um hvort og þá hvernig megi styrkja stöðu kröfuhafa þrotabúa með lagabreytingum svo að smærri kröfuhafar sjái ávinning í því að fara í riftunarmál. Verða skiptastjórar tilbúnir að framfylgja þessu? Þeir eru bara í því að fá sem mestan pening fyrir sem fæstar vinnustundir. Það er líka spurning hversu mikla vinnu á að leggja í innheimtu á smærri upphæðum.
- Heimild ráðherra til að slíta félögum færð yfir til ríkisskattstjóra. Hjálpar þetta til að koma ábyrgð yfir á síðustu stjórn eða framkvæmdastjóra? Í 121. gr. ársreikningaga stendur: „Ef ársreikningi eða samstæðureikningi hefur ekki verið skilað innan átta mánaða..... skal ársreikningaskrá krefjast skipta á búi félagsins.“ (Nýtt ákvæði sem eftir er að sjá hvernig virkar.)
- Ríkisskattstjóri fái upplýsingar um refsidóma í tengslum við atvinnurekstur. Eru slíkir dómar ekki opinberir nú þegar?
- Opinberir aðilar marki sér heildstæða stefnu um aðkomu sína að þrotabúum félags svo að tíðara sé að þeir beiti sér sem virkir kröfuhafar í þrotabúum. Þá þurfa nú blessaðir sýslumennirnir að fá pening til að geta sinnt því.
- Hæfisskilyrði hlutafélaga nái til skuggastjórnenda. Skuggastjórnendur eru aldrei sýnilegir, nema með mikilli fyrirhöfn. Hvernig nálgast menn upplýsingar um þá?
- SA ASÍ leggi til við stjórnvöld ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins að stjórnvöld taki saman höndum og vinni sameiginlega að uppbyggilegri fræðslu. Besta tillagan. Kostar bara peninga, sem ég veit ekki hvort að ríkissjóður, sjóðir atvinnulífs eða launþega eru tilbúnir að borga. Það kemur allavega ekki fram í hugmyndum forystumanna atvinnulífsins.