SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Til varnar eignarskatti

Til varnar eignarskatti.

Í nýútkomnum Úlfljóti fjallar Garðar Valdimarsson lögmaður og fyrrverandi skattrannsóknarstjóri um nýlegan dóm Hæstaréttar í máli Guðrúnar Lárusdóttur gegn Íslenska ríkinu nr. 726/2013.

Málið snerist um lögmæti álagningar auðlegðarskatts og styður Garðar mál sitt með vísun til eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Þarna hefur verið reitt hátt til höggs, ganga átti af auðlegðarskattinum dauðum. Málið tapaðist hins vegar og er niðurstaða Hæstaréttar (að sögn Garðars) í meginatriðum studd þeim rökum að aldagömul hefð sé fyrir álagningu eignarskatts í einhverju formi á Íslandi og vísar þar fyrst og fremst til tíundarlaga sem komust á strax á þjóðveldisöld. Garðar telur þetta hæpin rök og get ég tekið undið það.

Ég hef hins vegar alltaf haft samúð með eignarskatti af einhverri tegund, en ekki af því að hann sé gamalt fyrirbrigði. Hann er hins vegar brúklegur aðallega til tveggja hluta.

a)      Að jafna hlut skattþegna þegar eignir hafa skipst svo ójafnt að almenningi ofbýður og stjórnvöld telja aðgerða þörf.

b)      Að skattleggja eignatekjur með óbeinum hætti og koma þá a.m.k. að hluta til í stað þess fjármagnstekjuskatts, sem nú er mjög í tísku í hinum vestræna heimi.

Þetta hefði ég viljað sjá sem meginrök Hæstaréttar, en ekki uppflettingar í vafasömum fornum lagareglum sem þóttu ekki par gáfulegar þegar erlendir sendimennt létu álit sitt í ljós.

Tvennt er það sem gengið hefur af eignarskattinum dauðum á síðari tímum og eiga þar sökina helst þeir sem mest hafa haldið honum á lofti.

a)      Of há prósenta, en auðlegðarskatturinn náði allt að 2% af eignum, sem gat jafngilt 50% af tengdum tekjum. Var þá ekki skrýtið þó menn vildu forða sér undan honum með öllum ráðum.

b)      Fríeignamark eignaskatts var orðið asnalega lágt þegar hann var lagður af á Íslandi. Mig minnir að það hafi verið 40 milljónir króna undir lokin. Á áttunda áratugnum voru viðmið þeirra sem stóðu að gerð skattalaga þau að hjón skyldu eiga skuldlaust einbýlishús og góðan bíl án þess að þola eignarskatt. Það gætu gert um 100-120 milljónir í dag, einmitt þau mörk sem sett voru við setningu laga um auðlegðarskatt.

c)       Einn ágætur stjórnmálamaður hélt því fram í ræðu og riti á góðæristímanum að eigin íbúð ætti sérstaklega að undanskiljast eignarskatti. Það hefði orðið ranglát eignamörk því að eins og kunnugt er búa menn í mjög misjafnlega dýrum íbúðum. Svona hugmyndir gera út af við þessa skattlagningaraðferð.

Án þess að ég sé endilega að mæla eignarskatti bót vil ég meina að í mörgu efni er fjármagnstekjuskattur vandræðagripur. Í dag er hann til dæmis lagður á nafnvexti (þar með taldar verðbætur) sem þýðir að skattlagðar eru tekjur sem engar eru. Hefur áður verið fjallað um það efni í pistlum mínum. Að leggja fjármagnstekjuskatt á raunvexti er hins vegar flóknara en svo að hægt sé að koma saman réttlátum lagaákvæðum um það.

Svo er líka spurning hvort „reiknaðar tekjur“ ættu ekki að skattleggjast. Garðar virðist ekki veraá þeirri skoðun en tökum dæmi: Einstaklingur á sumarbústað að verðmæti 250 millj. kr. Hann hefur engar peningalegar tekjur af honum en nýtir hann sér til ánægju og dægradvalar. Væri ekki hægt að hugsa sér eigin leigu af slíkri eign? Hann gæti hugsanlega selt hann fyrir arðbærari eignir en kýs að gera það ekki. Er fráleitt að skattleggja slík hlunnindi? Eða kannske afnot af eigin lystisnekkju? Eða einkaþotu?

Garðar andmælir líka dómi Hæstaréttar á þeirri forsendu að Tíundarkerfið hafi verið umdeilt. Satt er það. Í fljótubragði virðist það hafa verið mjög íþyngjandi og skattlaus lágmargseign 10 hundruð samsvaraði lélegri bújörð. En hvenær hafa ákvæði skattalaga verið óumdeild? Mér er nær að halda að í nútímanum hafi flest ef ekki öll skattlagning mætt andstöðu, stundum harðri. Ýmist vegna eðlis hennar eða hversu íþyngjandi skattbyrðin hefur verið.

En svo dómi hæstaréttar sé haldið til haga er aldur hefðar eignarskattsálagningar á Íslandi ekki einu rökin fyrir niðurstöðu hans. Dómurinn fjallar einnig um þær sérstöku þjóðfélagslegu ástæður sem urðu til þess að stjórnvöld lögbuðu svonefndan auðlegðarskatt á árinu 2009. Skal ekki farið nánar út í það hér, en í meginatriðum get ég verið sammála báðum aðilum. Garðari að því leyti að gömul og úrelt hefð með vafasamt orðspor séu ekki brúkleg rök að baki hæstaréttardómum og hæstarétti að því leyti að ástæður í landinu gerðu það freistandi fyrir stjórnvöld að leggja sérstakar skattbyrðar á þá sem best bjuggu á árunum eftir hið margfræga hrun.

Sigurjón Bjarnason.

Ólyginn sagði mér

Í starfi okkar reikningsskilamanna eru skattamál oftar en ekki á dagskrá.

Margs verðum við vísari og ósjaldan verður okkur gripið til lagaskruddna frá ríkisskattstjóra eða litið inn á vefinn, en nú hefur það ágæta embætti komið upp mjög aðgengilegu safni laga og reglugerða, sem fljótlegt er að sækja sér upplýsinga úr. http://www.skattalagasafn.is/

Allt er þetta nú gott og blessað.

Hins vegar virðast margir atvinnurekendur hafa tileinkað sér talsverða þekkingu á þessu sviði, stundum í takt við raunveruleikann en alloft byggða á misskilningi. Inni maður viðmælandann eftir heimildum vefst honum gjarna tunga um tönn. Þá er þetta einhver sem hann treystir en vill ekki bera hann fyrir því.

Til að skýra nánar mál mitt langar mig til að nefna nokkur dæmi.
 1. Maður nokkur reri til fiskjar á báti annars manns í verktöku. Hann var upplýstur um að ekki þyrfti að bæta virðisaukaskatti við reikningana sína þar sem unnið væri um borð í bátnum. Ég lenti í þeirri vandræðalegu stöðu að þurfa að lesa upp úr vsk-lögunum um að vinna við viðgerðir um borð í fiskiskipi væri vissulega undanþegin virðisaukaskatti, en það ætti ekki við störf að fiskveiðum. Viðkomandi meðtók þessi sannindi en vinsældavísitala undirritaðs hækkaði ekki hjá honum við að heyra þessa frétt.
 2. Nýlega uppástóð einn ágætur viðskiptavinur að móttekinn styrkur til uppbyggingar nýlegs einkahlutafélags væri undanþeginn skatti. Hafði hann greitt styrkinn áfram sem þóknun fyrir störf í þágu félagsins án þess að viðtakandi teldi hann til tekna í ljósi þessara meinta skattfrelsis. Taldi þessi viðskiptavinur þessa meðferð reista á traustum heimildum. Ekki er gott að átta sig á í hverju þessi misskilningur liggur. Vitað er að slík opinber framlög eru skattfrjáls ef viðtakandinn (frjáls félagasamtök til dæmis) eru ekki tekjuskattskyld. Hugsanlega er verið að rugla virðisaukaskatti inn í dæmið, en auðvitað ber ekki að skila virðisaukaskatti af slíku fengnu fé. Hins vegar gat ég ekki leynt því að hinn endanlegi viðtakandi, sá sem innti hina skattskyldu þjónustu af hendi ætti að telja þetta til skattskyldra tekna og eftir atvikum að skila af þessu virðisaukaskatti.
 3. Verstu tilfellin sem ég man í svipinn eru þó föst framlög einstaklinga í söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, sem jafnframt gegna sparnaðahlutverki og tryggja greiðandann stundum fyrir slysum eða jafnvel dauða. Þá getur nú vandin vaxið að mun og birta viðkomandi samningar yfirleitt ekki neitt um skattalega meðferð og oft er komið að tómum kofunum hjá sölumönnunum, þó breytilegt eftir einstaklingum. Það lofsverða í þessum tilvikum er að sjaldnast hefur greiðandinn svör á reiðum höndum og hægt er þá að leita réttra upplýsinga án milliliða.

En það sem mér þykir athyglisverðast og kannske áhugaverðast er hversu vel heimildamenn eru yfirleitt varðir en nöfn þeirra eru sjaldan gefin upp, enda hjálpar það lítt. Hins vegar vildi ég gjarna beina því til þeirra sem veita upplýsingar um skattamál að
 1. kynna sér hvernig málið er vaxið hjá viðkomandi kunningja eða viðskiptavini, svo að misskilingi verði örugglega eytt.
 2. afla traustra upplýsinga úr lögum eða reglugerðum en styðjast ekki eingöngu við það sem „ólyginn sagði mér“ o.s.frv. því eins og segir í vísunni: Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi.
Það er jafnan þungbært að vera boðberi válegra tíðinda, en það er þó óhjákvæmilegur þáttur í starfi okkar bókara og reikningsskilamanna.

Sigurjón Bjarnason

Að borga skatt eftir dauðann

Hingað til hefur undirritaður staðið í þeirri meiningu að við gjaldþrot væri rekstri slitið, lífi lokið. Aðeins eftir að ganga formlega frá skiptum eigna og skulda milli þeirra sem eiga kröfur á þrotamanninn eftir settum reglum og viðkomandi lagagreinum. Eignir mínar dugðu ekki fyrir skuldum og þeir óheppnu sem ekki fengu greitt, bera tjón sitt óbætt. Ég er gjaldþrota „dauður“ og verð ekki sóttur, nema mér takist með dugnaði eða klókindum að afla fjár til að gera upp við mína ágætu lánveitendur síðar meir.

Þegar um lögaðila er að tefla þýðir gjaldþrotið venjulega lok starfsemi, endanlegan „dauða“ skattaðilans. Kröfuhafa geta ekki vænst endurgreiðslu umfram það sem kemur til úthlutunar úr búinu. Í undantekningartilvikum rekur búið atvinnustarfsemi og þá með samþykki kröfuhafa í því skyni að vernda eignir sínar, verjast frekara tapi. Gilda þá almennar reglur um skattlagninguna á meðan.

Nú hefur ríkisskattstjóri birt í áliti sínu nr. 2/2015 alveg nýjan flöt á málinu, sem sagt: Ég á að borga skatt af því sem ríkisskattstjóri kallar „eftirgefnar kröfur“ í þrotabú. Ef ég á kröfu í einhvern drullusokk eða glæpafyrirtæki sem hefur orðið gjaldþrota þá hann að skila tekjuskatti af því fé sem hann hefur „grætt“ á gjaldþrotinu áður en hann skilar restinni til mín.

Í kíkti á þetta tímamótaálit og sá þar ýmislegt fróðlegt. Tvennt vakti þó einkum athygli mína.
 1. Ríkisskattstjóri telur þær kröfur sem tapast við gjaldþrot vera „eftirgefnar“ eða „niðurfelldar“. Nú er það svo að ég sem kröfuhafi felli hvorki niður né gef eftir kröfur á hendur þrotabúi. Ég lýsi þeim í búið og fái ég þær ekki að fullu greiddar á ég fullan rétt að fá þær greiddar síðar við endurreisn eða endulífgun þrotamanns. (Sem reyndar er afar ólíklegt að gerist.)
 2. Skilji ég álit ríkisstjóra rétt telur hann að eignaraðild breytist ekki við gjaldþrot og falli tilvikið því ekki undir síðari málslið 8. tl. 1. mgr. 31. gr. tskl. Fyrir mér er þetta nýlunda. Hingað til hef ég staðið í þeirri trú að við gjaldþrot hafi þrotamaður verið sviftur forræði yfir búi sínu og geti ekki talist eigandi þess lengur. Við taki skiptastjóri í umboði þeirra sem kröfur eiga í búið og fyrri eigandi hefur þá hvorki eignarhald né atkvæðisrétt.

Sem sagt: Þrotabú er ekki leyst undan því að greiða skuldir sínar, það á einfaldlega ekki fyrir þeim og er slitið þegar eignum þess hefur verið ráðstafað upp í kröfur. Fljótt á litið sé ég ekki að uppgjör eigna og skulda skapi tekjuskattstofn.

Kannske ósambærileg en ekki með öllu óskyld hliðstæða:

Við andlát gildir erfðaréttur. Eignum er úthlutað til erfingja að frádregnum erfðafjárskatti. Eigi hinn látni ekki fyrir skuldum fara venjulega fram opinber skipti, búið kallað skuldafrágöngubú og erfingjar ekki skyldugir að standa skil á skuldum hins látna. En hvorki hann né þeir eru krafðir um skatt af því sem þeir hafa „grætt“ á óspilunarsemi hins látna. Það var hann sem naut góðs af óráðsíu sinni og fer með allar kvaðir af þeirri breytni sinni í gröfina.

Sigurjón Bjarnason

Trúin á sjóðstreymi

Eitt af því fyrsta sem mér ungum bókara var innprentað var að fylgjast með sjóðnum, hinu handbæra fé. Jafnframt var áréttað að staða hans þurfti alls ekki að endurspegla raunverulega afkomu, hvort að fyrirtækið væri rekið með tapi eða hagnaði. Sjóðurinn (eða bankainnstæðan) gat verið feitur og pattaralegur þó að hagnaðurinn væri enginn og minna en það. Hann gat líka verið ansi aumingjalegur þó að reksturinn gengi í sjálfu sér vel.

Og til þessa gátu legið ýmsar ástæður.

Ein af þeim er sala eigna. Hver kannast ekki við þegar höfðingjar vorir ætla að rétta við halla ríkissjóðs með sölu eigna. Þeir vita það ekki, greyin, að með því eru þeir bara að breyta einni tegund eignar í aðra og ríkissjóður heldur áfram að skíttapa. Stundum er verið að selja bestu mjólkurkýrnar og þá fer aldrei vel.

Önnur er lántaka til langs tíma. Oft á að bjarga heilu ríkjunum með því að lána þeim peninga. Það er alveg gefið mál að þessi lausn breytir ekki tapi í hagnað. Allt annað og miklu meira þarf að koma til. Ætli við Íslendingar höfum ekki fengið að þefa úr því og enn erum við að snapa lán til að snúa okkur út úr vandræðum.

Tómir sjóðir geta líka stafað af öðrum en rekstrarhalla. Dæmi:

Fjárfest hefur verið í eignum sem líkegar eru til að styrkja reksturinn til lengri og skemmri tíma litið.

Líka getur verið að óhagstæð lán hafi verið greidd upp með því sem reksturinn hefur skilað.

Reyndar eru mörg tilvik ótalin sem geta skýrt tæpa eða sterka sjóðstöðu.

Á fyrstu bókaraárum mínum þekktust ekki sjóðstreymi í almennum reikningsskilum. Hjá sveitarfélögum var hins vegar til svokallaður eignabreytingareikningur, sem gat verið svolítil þraut að koma saman fyrir óvanan. Þá höfðu menn bara rekstrarreikning sem sagði hver mismunur væri á tekjum og gjöldum. Það skipti höfuðmáli þá og gerir enn.

Ætli níundi eða tíundi áratugur síðustu aldar hafi ekki innleitt þetta fyrirbrigði, sjóðstreymi. Skylt varð að hafa það órjúfanlegan hlut af ársreikningi. Framhaldið var að lánastofnanir hættu að líta eingöngu á afkomu samkvæmt rekstrarreikningi, sjóðstreymið var svo miklu meira spennandi, hvaðan peningarnir komu og hvert þeir fóru. Hugtakið EBIDTA fór að verða leiðarstef og meginviðmið fjárfesta. Tapið skipti ekki máli, miklu frekar þetta fyrirbrigði, sem mælir bara peningalega afkomu án fjármagnskostanaðar. Innstreymi peninga var málið. Skítt með það þó þeir væru andvirði lánsfjár eða seldra eigna.

Og trúin á sjóðstreymið varð svo sterk á Íslandi að nýstofnaðir einkabankar héldu að það væri upphaf og endir alls. Fé var safnað úr öllum heimshornum, lofað gulli og grænum skógum, gjalddaginn var einhvern tíma í framtíðinni. Í dag situr þjóðin uppi með skuldir sem nema einni þjóðarframleiðslu. Það samsvarar öllum tekjum (eða gjöldum) allra fyrirtækja og heimila í landinu, þar með talið ríkissjóðs í eitt ár. Man ekki hvað það eru mörg þúsund milljarðar.

Þeir fáu sem ekki höfðu tekið trú á EBITDU og sjóðstreymi sáu alveg fyrir hvað myndi gerast, líklega svona eitt prósent viti borinna manna á Íslandi. 99 prósentin voru blind og voru viss um gjalddaginn væri í fjarlægri framtíð. Enginn færi að rukka moldríka þjóð svona allt í einu. Og í krafti markaðar voru eignir margfaldaðar og hækkunin öll talin til tekna. Þetta gildir enn í dag og bankarnir sagðir vera reknir með hagnaði, þó að undirritaður hafi sínar efasemdir, allavega um fjárhæðirnar. Það er nefnilega sitthvað athugavert við reikningsskilaaðferðir nútímans Þær gefa ekki beinlínis glögga mynd af rekstrinum á sama hátt og gömlu góðu kostnaðarverðsreikningsskilin gerðu. Og hagnaður af sölu er ekki í hendi fyrr en búið er að selja viðkomandi eign.

Í ágætri grein Guðmundar Guðbjarnasonar í Morgunblaðinu í dag lýsir hann því hvernig samfélagið hefur tekið til við að refsa einstökum stjórnendum fjármálafyrirtækja, sem þó spiluðu alveg samkvæmt viðurkenndum reglum alla sína starfsævi. Ég er alveg sammála Guðmundi. Það á ekki að refsa mönnum fyrir að vera hálfvitar, allra síst ef þeir eru hluti af 300.000 slíkum (eða fleiri milljónum) og hafa fylgt reglum, sem þeir reyndar hafa sett sjálfir.

Það þarf annað og meira að koma til meðal annars að afleggja trú okkar á sjóðstreymið.

Og nú er eins og menn séu farnir að sjá ljósið. Meðal þess sem fram kemur í nýlegri tilskipun ESB, sem þó hefur ekki verið tekin upp á Íslandi, er skyldan til þess að birta sjóðstreymi í ársreikningum smærri fyrirtækja numin úr gildi. Kannske væri góð byrjun að slökkva á þessu villuljósi, sem leitt hefur til vonlausra fjárfestinga og enn vonlausari lánveitinga, áhrifalausum fjármagnseigendum til skaða og skapraunar.

Sigurjón Bjarnason.

Erfið slit sameignarfélaga

Slit sameignarfélaga og erfitt dauðastríð þeirra.

Á árinu 2007 voru sett lög um sameignarfélög, en slík lög höfðu ekki verið í gildi fyrr. Í stað þess var félagssamningur þau lög sem félagið byggði á fyrir utan nauðsynlega skráningu í firmaskrá og hjá skattyfirvöldum eftir því sem efni stóðu til. Eitt megineinkenni sameignarfélaga er að sá sem gerðist aðili að slíku félagi er sjálfkrafa ábyrgur fyrir öllum skuldum þess. Hægt var að ganga að hvaða félagsmanni sem er og krefja hann um skuld félagsins, standi félagið sjálft ekki við skuldbindingar sínar.

Í hinum nýju lögum eru ákvæði um slit slíkra félaga. Í stuttu máli er ferlið þannig:
 1. Félagsfundur ákveður að slíta félaginu.
 2. Ákvörðunin er tilkynnt fyrirtækjaskrá.
 3. Auglýsing er birt í Lögbirtingablaðinu þar sem lýst er eftir kröfum á hendur félagsins.
 4. Haldinn er skiptafundur þar sem kröfuhafar leggja fram kröfur sínar.
 5. Skiptalok eru tilkynnt fyrirtækjaskrá. Jafnframt er gefin yfirlýsing um áframhaldandi ábyrgð félagsmanna á skuldum félagsins eftir slit þess, sbr. 43. grein laganna.
Enga undanþágu er að fá frá ofanlýstu ferli.

Það sem undrun mína vekur er skyldan til innköllunar þar sem við stofnun félagsins gerast félagar ábyrgir fyrir öllum skuldum þess eins og áður er lýst. Einfalda leiðin væri að félagar tilkynntu slit félagsins og lýstu um leið yfir ábyrgð sinni á skuldum félagsins „in solidum“ þrátt fyrir slit þess.

Nú er fyrir hendi slík heimild til frágangs einkahlutafélaga, jafnvel þó þau hafi verið stofnuð með takmarkaðri ábyrgð. Síðustu hluthafar gangast einfaldlega í persónulega ábyrgð fyrir skuldum þess við slit og málið er dautt, kennitalan afmáð og félagið heyrir sögunni til.

Hvers vegna getur slíkt ekki gilt við starfslok sameignarfélaga?

Mjög hafði verið lýst eftir lögum um sameignarfélög og þótti mönnum vanta lagagrundvöll fyrir þessu algenga félagsformi, sem hafði verið í notkun áratugum saman. Vel má vera að einhverja nauðsyn hafi borið til slíkrar lagasetningar, en mér er til efs að höfundar þessarar vel meintu lagasetningar hafi almennilega áttað sig á því hvað þeir voru með í höndunum þegar þeir sömdu 39-42. greinar laga nr. 50/2007.

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum