SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Sniðganga eða undanskot – einföldunar er þörf.

Eru málin að þróast til betri vegar?

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umræðu fjölmiðla síðustu vikurnar, sem kviknuðu af skyndilegri uppljóstrun um vel varðveitta sjóði forsætisráðherrafrúarinnar í erlendum lágskattaríkjum. (Eins og menn hafi ekki grunað það fyrir löngu?!). Lögmæti slíks fyrirkomulags dregur enginn í efa, en þó hrökklaðist eiginmaðurinn úr starfi.

Eins og fyrr hefur verið vikið að í bloggi þessu heimilast fólki, sérstaklega því sem hefur fé undir höndum (eigið eða annarra) að vista það erlendis. Það telst lögmæt leið til að sniðganga það skattkerfi þess lands sem viðkomandi býr í. Á fínu máli heitir þetta skattasniðganga en ríki heimsins eru í vaxandi mæli að þrengja þessar heimildir.

Margar fleiri leiðir eru til skattasniðgöngu en í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um síðustu helgi þótti mér bréfritari heldur betur hafa víkkað hugtakið þar sem hann greinir frá því að hann hafi ekki nýtt sér þann möguleika að telja til gjalda þann útlagða kostnað sem hann fékk endurgreiddan á þingmannsdögum sínum. Heldur taldi hann fengnar greiðslur til gjalda án frádráttar. Nú er það svo að gjarna þiggja menn greiðslur til að standa straum af kostnaði. Algengasta dæmið er atvinnurekstur. Það er nýlunda í mínum huga að réttilega færð gjöld, tengd viðkomandi tekjum nefnist skattasniðganga. Ef svo er iðka ég daglega aðstoð við slíkar athafnir þegar ég veiti þjónustu á sviði bókhalds og reikningsskila. En auðvitað er þetta lögmæt leið til að lækka tekjuskattstofn, og hingað til hafi ég talið það bæði rétt og skilt að tekjuskattleggja mismun tekna og tengdra gjalda en ekki brúttótekjur. Annað væru frjáls framlög til ríkissjóðs, sem að vísu eru vel þegin á þeim bæ.

Að skjóta tekjum undan skatti er allt önnur athöfn og lýtur að því að vantelja tekjur eða oftelja frádrátt. Þá eru menn, gjarna gegn betri vitund, að forðast lögmæta skattlagningu tekna.

Önnur grein í Morgunblaðinu nýlega vakti athygli mína, en það var svar Baldurs Guðlaugssonar við umfjöllun Gunnars Smára Egilssonar um stefnu liðinna ríkisstjórna í skatta- og efnahagsmálum. Grein Baldurs er býsna upplýsandi um þau viðhorf sem giltu í ráðuneyti því sem hann starfaði hjá fyrr á árum. Má skilja að ráðuneytið væri fylgjandi auknu skatteftirliti og hafi lagt ríka áherslu á eflingu þess á vegum ríkisskattstjóra. Annað hvort væri nú að ráðuneyti það sem sett er til að gæta fjármála ríkisins vildi herða skatteftirlit, en ég verð þó að telja eftirtekjuna í rýrara lagi. En hvað svo sem er að gerast á eftirlitsvettvangi ríkisskattstjóra verð ég í mínu starfi var við ákveðna vakningu í þá átt að fólk vilji nú fara að „gjalda keisaranum það sem keisarans er“.   Er ég ekki frá því að umfjöllun fjölmiðla um þessi mál hafi þessi jákvæðu áhrif. Ef þessi tilfinning mín er rétt, væri nú tækifæri fyrir skattyfirvöld, atvinnulífið og fagaðila til að taka höndum saman um að bæta úr þessum málum. Jafnframt væri mikilvægt að allir þessir aðilar myndu vinna með löggjafanum að róttækum lagabreytingum sem miðuðu að einföldun á íslensku skattkerfi. Með því væri stigið mikilvægt skref til að gera hinn almenna skattþegn jákvæðari og skilningsríkari gagnvart þeirri þörf sem okkar sameiginlegu sjóðir eru í ef viðhalda á eða jafnvel auka þá velferð sem við búum við í þessu landi.

Verkefnið væri tvíþætt; að fækka gráu svæðunum og að laga reglurnar betur að því viðskiptaumhverfi sem við lifum í í dag.

Sigurjón Bjarnason.

Skattaskjól

Örfá orð í tilefni dagsins (3. apríl 2016)
Einn ágætur áhrifamaður lýsti því yfir í útvarpinu í gær að hann væri á móti skattaskjólum. 
Vaknar þá spurningin: Um hvað er maðurinn að tala?
Alþjóðasamfélagið er sammála um að hvert ríki hafi rétt til að semja sínar reglur um opinber gjöld. Þannig hafa einstök fylki Bandaríkjanna sínar reglur og Evrópusambandið hefur ekki tekið fram fyrir hendur stjórnvalda í þessu efni. Um þetta ríkir einfaldlega sátt, sem engin umræða er um að rjúfa.
Önnur staðreynd er að fjármagn flæðir nú í vaxandi mæli á milli ríkja án afskipta stjórnvalda. Þetta er í þágu almennings, atvinnulífs og afkomu sameiginlegra sjóða. 
Augljóslega hafa ríki mismunandi þörf fyrir skatttekjur og stjórnmálin leggja mismunandi mikla áherslu á velferð og samneyslu. Þar af leiðir að eigendur fjármuna leitast við að koma þeim fyrir þar sem minnst fer til hinna sameiginlegu sjóða. 
Það sem að ofan er lýst er hið sjálfsagða, einfaldlega náttúrulögmál á meðan fólk á sparifé og vill varðveita það með sem hagkvæmustum hætti. 
Þetta skapar hins vegar þau vandamál að maður, heimilisfastur í landi þar sem velferð er mikil og dýrt að reka ríkissjóð, velur að vista fjármuni sína í öðru landi þar sem hið opinbera hefur minni þörf fyrir rekstrarfé. 
Þetta er það sem við köllum að koma peningunum sínum í„skattaskjól“.
Viðbrögð ríkja heims eru löngu kunn.

  1. Þau hafa í fyrsta lagi gert tvísköttunarsamninga til að maður sem hefur tekjur í öðru landi en heimalandinu er skattlagður eins og reglur heimalandsins heimila.

  2. Til að ná til lögaðila hafa víða verið settar svokallaðar CFC-reglur, það er erlend félög í eigu landsmanna eru skattlögð eins þau væru skráð á Íslandi. (Controlled Foreign Companies)

  3. Til enn frekari jöfnunar hafa flest nágrannaríki Íslands hafa girt fyrir þann möguleika að eigendur láni félagi sínu erlendis stórfé og reikni síðan háa vexti sem dragast frá tekjum þess. (Thin capitalizion eða þunn eiginfjármögnun) Vaxtatekjurnar bera síðan lága (jafnvel enga) skatta í heimaríkinu. Íslensk stjórnvöld hafa ekki enn sett slíkar reglur, hvað sem veldur.

  4. Nýlega náðust svokallaðir upplýsingaskiptasamningar Íslands við fjölmörg af þekktustu „skattaskjólum“ heims. Undirrituðum er hins vegar ekki kunnugt um inntak þeirra eða hversu rúmar heimildir íslensk stjórnvöld hafa til að afla upplýsinga um eignir og tekjur samborgara okkar í hinum einstöku „fríríkjum“.
Á góðæristímunum fyrir 2008 var það íslensk alkunna að efnameira fólk lagði fé sitt á erlenda bankareikninga eða fjárfesti á annan hátt í þeim ríkjum þar sem spara mátti skattlagningu. Í nútímanum virðist vilji stjórnvalda um heim allann stefna í þá átt að tryggja hverju ríki tekjur í samræmi við þarfir og vilja heimafyrir, hvar sem tekjur skattþegna verða til. Þróun í þessa átt er jákvæð og hraðari en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Umræða um „skattaskjól“ í dag kemur mér því mjög á óvart, einkum sá andarteppustíll sem einkennir hana. Fjölmiðlafólki væri að mínu viti nær að kynna sér eðli og þróun þessara mála á heimsvísu og uppfræða lýðinn í stað þess að slá ryki í augu hans og gera einstaka ráðamenn að syndahöfrum.

Sigurjón Bjarnason.

Þekkingarvæðing skatteftirlits

Ferill minn sem bókara er orðinn nokkurra áratuga langur eða frá 1972 með nokkrum útúrkrókum. Margt hefur á dagana drifið, framþróun á mörgum sviðum, með talsvert áberandi undantekningum.

Fljótlega komst ég að raun um hversu mikilvægt er að hafa náið samstarf við skattyfirvöld, kynna mér þær reglur sem í gildi voru og þau vinnubrögð sem tíðkuðust hjá skattstofunum og ríkisskattstjóra. Ekki var skilningur minn og þeirra á lögum og reglum alltaf sá sami. Var þá leitast við að rökstyðja og leitað til ríkisskattanefndar (sem svo hét þá) ef úrskurður skattyfirvalda var ekki viðunandi að mínu mati og viðkomandi skattaðila.

Á þessum árum var ekki óalgengt að kallað væri eftir gögnum að baki bókhaldi og átti maður þá í framhaldinu von á löngu bréfi með mörgum athugasemdum sem margar höfðu eðli leiðréttinga sem sjálfsagt var að taka tillit til. Þegar frá leið fækkaði þessum tilvikum og í nútímanum heyrir til undantekninga ef viðskiptavinir mínir þurfa að sæta rannsókn af þessu tagi. Einhver gæti sagt sem svo: „Þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því, haga mér bara eftir hentugleikum“. En það er alls ekki svo í mínu tilviki og sakna ég mjög lifandi sambands við starfsfólk ríkisskattstjóra. Stuðningur og aðhald af hálfu samstarfsaðila minna hjá gömlu skattstofunum er nú nánast liðin tíð. Og þá sjaldan að kemur til athugunar af þeirra hálfu blasir oftar en ekki við vankunnátta þeirra í bókhaldi.

Það vekur hjá mér slæmar tilfinningar þegar ég, þolandinn, er betur að mér í grundvallarreglum bókfærslu en sá sem á að veita aðhald og leiðbeiningar. Snemma varð ég þess áskynja að kollegar mínir á endurskoðunarstofum réðu yfir reynslu, færni og þekkingu, sem fyrirfannst ekki hjá embættum skattyfirvalda. Skýringin var og er einföld: Á meðan ríkissjóður var (og er) bundinn af umsömdum launakjörum opinberra starfsmanna gátu endurskoðunarstofur og aðrir fagaðilar leyft sér að greiða margföld laun miðað við ríkisstofnanir. Þekkingin á þessu sviði sogaðist því frá þessum mikilvægu opinberu eftirlitsaðilum til þeirra sem störfuðu á vegnum atvinnulífsins.

„Þetta er ójafn leikur“, sagði einn gamall og grandvar viðskiptavinur minn þegar ég lýsti þessu fyrir honum. Því hélt ég því snemma fram að mótvægi þyrfti að skapast. Hugmyndinni má lýsa í grófum dráttum á eftirfarandi hátt:
·         Fjármálaráðuneytið býður út þann hluta af starfi skattyfirvalda sem snýr að eftirliti með bókhaldi og öðrum þeim gögnum sem liggja að baki skattskilum félaga og einstaklinga með rekstur.
·         Gerð skal verklýsing á hinu útvistaða verkefni.
·         Tilboðsgjafar skulu vera endurskoðendur, þjálfaðir bókarar eða aðrir sem hafa meira en miðlungsþekkingu á verkefninu og skal þekking og færni þeirra könnuð sérstaklega áður en samningsaðili er valinn.
·         Tiltekin skal óframlengjanlegur verktími, sem gæti verið á bilinu 5-10 ár.
·         Verktakinn þarf að hafa allan sama aðgang að heimildum og starfsfólk ríkisskattstjóra og lúta stjórn embættisins eftir þar til settum reglum.
·         Viðkomandi verktaki sinni ekki aðstoð við almennan markað á meðan verktímabilið stendur.

Aðalatriðið er að samningur kjör þessa verktaka eru ekki bundin af kjarasamningum. Þrátt fyrir það er mikilvægt að tengingin við ríkisskattstjóra og önnur tengd embætti séu traust og samstarf náið. Án þess að vera stuðningsmaður einkavæðingar, sýndist mér snemma að í þessu efni væri tækifæri sem væri jafnt til hagsbóta fyrir ríkissjóð og þá sem veita fyrirtækjum þjónustu á þessum sviðum.

Á hinum langa starfstíma mínum hafa dunið í eyrum yfirlýsingar ráðamanna sem miða að því að bæta skattskil. „Átak skal gert“. „Löggjöf skal hert“. Fyrir mér hafa yfirlýsingar þessar verið frekar hlægilegar. Átök ríkisskattstjóra til úrbóta hafa því miður verið á afar þröngu sviði og árangurinn ekki meiri en svo að varla er hægt að tala um fælingarmátt hvað þá meira. Nýjar lagareglur hafa gefið mönnum jafnmörg tækifæri til undandráttar og götin voru sem stoppa átti í.

Þegar þetta er ritað er tímarit ríkisskattstjóra, Tíund, nýlent á skrifborði mínu. Tíund flytur alltaf mikinn fróðleik og tel ég hann skyldulesningu fyrir alla sem vinna á þessum vettvangi. Leiðari þessa nýjasta tölublaðs er í raun ákall um úrbætur þar sem nýjar rannsóknir hafa leitt í ljós að í kringum 80 milljarðar, (skrifað svona: 80.000.000.000 kr.) virðast ekki skila sér af lögbundnu skattfé. Ritstjórar Tíundar, Skúli Eggert Þórðarson og Ingvar J. Rögnvaldsson, biðja hins vegar um herta löggjöf. Það er góðra gjalda vert en málið er það að allar lagareglur má túlka á marga vegu og þjálfaður fagmaður með mikla þekkingu og gott kaup er gjarna fundvís á smugur í löggjöf, ég tala nú ekki um ef bókhaldinu er haldið frá opinberum eftirlitsaðilum. Ég er þar með sannfærður um að hertar reglur muni ekki skila nema broti af þessu fé til sameiginlegra sjóða, ef nokkru.

Ekki veit ég hvað framkvæmd minnar hugmyndar myndi kosta, en gæti trúað að einn milljarður af þessum áttatíu gæti skilað upp undir helmingi af þessu glataða fjármagni í ríkissjóð. Sem sagt: Löggjöfin hjálpar ekki ef þekkingin er ekki staðar hjá þeim sem með völdin og eftirlitið fara.

Lokaorð mín skulu vera þau að verði ekki farin leið einhvers konar einkavæðingar við skatteftirlit er þýðingarlaust að kvarta yfir skattundanskotum. Ef þessi leið verður af einhverjum ástæðum ekki skoðuð af þeim sem með völdin fara, lýsi ég fullri ábyrgð á hendur þeim og tel þýðingarlaust fyrir þá að kvarta undan slæmum skattskilum.

Sigurjón Bjarnason

Rýnt í nána framtíð

Nú styttist í hina árlegu uppgjörs- og skattavertíð og þá rétt að nefna nokkur atriði sem gott er að vita.


Tekjuskattur

Álagning opinberra gjalda einstaklinga verður birt mánuði fyrr en venjulega eða um mánaðamót júní-júlí. Þrátt fyrir þetta er ekki gert ráð fyrir því að frestur fagaðila styttist, breytingin er fyrst og fremst rökstudd með tækniframförum og betra aðgengi skattsins að upplýsingum og hefur hvorttveggja flýtt mjög fyrir vinnslu innsendra framtala.
Þá mun kærufrestur verða lengdur upp í 60 daga og verður nærri ágústlokum eins og verið hefur.
Þetta mun koma fram í árlegri auglýsingu fjármála- og efnahagsráðherra að fengnum tillögum ríkisskattstjóra auk þess sem kærufrestur skv. 112. grein tekjuskattslaga breytist í 60 daga úr 30.
Við athugun á „bandorminum“ svonefnda sem afgreiddur var á Alþingi nú rétt fyrir jól kemur fátt fram sem breytir skattalegri meðferð tekna utan hefðbundnar breytingar á skattstiga. Þó ber að nefna að aðeins 50% af leigutekjum af íbúðarhúsnæði verða nú skattlagðar í stað 70% áður og að nú verður óheimilt að jafna barnabótum á móti skuldum við ríkissjóð.  


Virðisaukaskattur

Stóra breytingin á næsta ári verður sú að ferðaþjónusta, þar með talið farþegaflutningar sem ekki teljast reglubundnar almenningssamgöngur, verður virðisaukaskattskyld. Við þá breytingu þurfa þeir sem eingöngu hafa selt skipulagðar ferðir og farþegaflutninga að skrá sig á virðisaukaskattskrá frá 1. jan. 2016 og þeir sem hafa rekið virðisaukaskattskylda starfsemi meðfram ferðaþjónustu geta nú nýtt innskatt að fullu þar sem þeir teljast ekki lengur með blandaða starfsemi. Þess skal þó geta að eftir er að leysa úr ýmsum markatilvikum og búast má við að framkvæmdin verði að mótast í í einhverja mánuði, jafnvel í nokkur ár eftir að breytingin tekur gildi.


Ársreikningalög

Enn hefur breytingafrumvarp um ársreikningalög ekki verið lagt fram á Alþingi, en það hefur verið í undirbúningi á annað ár. Reikna má með því að það líti dagsins ljós í byrjun þingtíma eftir áramót og boði ýmsar róttækar breytingar.

Í tilskipun Evrópusambandsins er reiknað með að lögin verði sniðin eftir smærri félögum og að sett verði sérákvæði um félög yfir ákveðnum stærðarmörkum. Þessu er öfugt farið í gildandi ársreikningalögum og undirbúningshópurinn gerir ekki ráð fyrir breytingu á því.

Undirritaður er þeirrar skoðunar að þessu hefði þurft að breyta þar sem stærstur hluti íslenskra félara teljast örfélög og smærri félög (líklega yfir 95%) en félög yfir þeim stærðarmörkum eru tiltölulega fá. Aðalefni ársreikningalaga eftir breytingar mun því miðast við mjög lítinn hluta félaga en sérákvæðin varða stærsta hlutann.

Margrar annarrar nýlundu má vænta í frumvarpinu svo sem heimild til þess að fela ríkisskattstjóra að senda ársreikningaskrá samandreginn ársreikning byggðan á innsendu framtali, sjóðstreymi verði ekki lögbundinn hluti af ársreikningi o.m.fl.

Þá er í tillögum starfshópsins ákvæði um stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 sem leggst á þegar frestur er liðinn til að skila inn ársreikningi, en sem lækkar síðan um 60% ef skilað er innan tveggja mánaða og um 40% ef skilað er innan þriggja mánaða.

Þetta á þó allt eftir að koma í ljós einnig hvort gildistími breytinga verður frá og með reikningsárinu 2016 eða hvort lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017.

Sigurjón Bjarnason

Virðisaukaskattlagning ferðaþjónustu – ýmis tilbrigði.

Eins og kunnugt er verður ferðaþjónusta virðisaukaskattskyld frá og með næstu áramótum með nokkrum undantekningum þó. (Almenningssamgöngur, skólaakstur ofl.)

Undirritaður sat undir fyrirlestri Soffíu Björgvinsdóttur og Magnúsar Jónssonar starfsmanna KPMG í gær og punktaði niður hjá sér eftirfarandi.

Í ferðaþjónustu getur verið um að ræða afþreyingu, fólksflutninga eða aðra tegund þjónustu.

Dæmi:

1.       Gönguferð (afþreying) 24%

2.       River rafting (fólksflutningar) 11%

3.       Veiðileyfi (afnot af landi) 0%

4.       Hjólaferðir (fólksflutningar) 11%.

5.       Lyfta/kláfur/þyrla vegna skíðaferðar (fólksflutningar) 11%

6.       Hestasýningar við gististaði (Afþreying) 24%

Ef um pakkaferðir er að ræða með blöndu af þessum þjónustuþáttum gildir sú þjónusta sem er í hæsta skattþrepi innan pakkans.

Vel að merkja: Undanþágur eru alltaf skilgreindar þröngt í skattarétti og til að þær fáist þurfa þær að koma skýrt fram í lögum eða reglugerðum.

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum