Fleiri spurningar um "raunverulega eigendur"
Enn um „Raunverulegt eignarhald“
Eins og fram hefur komið í fyrra bloggi mínu sýnist mér sú vinna sem kollegar mínir eru uppteknir við þennan mánuðinn skila litlum eða engum árangri til varnar peningaþvætti í landinu. Engar sérstakar aðgerðir virðast í undirbúningi varðandi eftirlit með starfsemi þeirra aðila sem greindir eru í stafliðum a-r í 2. grein laga nr. 142/2018. Allsherjarskráning um raunverulegt eignarhald, svo gagnleg sem hún kann að vera, veitir afar veika stoð til að hindra innstreymi illa fengins fjár í hagkerfið og Ísland er síður en svo að vinna að útstrikun ríkisins af hinum svonefnda „gráa lista“ alþjóðastofnana með þessu, nema á eftir fylgi reglubundið eftirlit með fjárreiðum þeirra aðila sem tilgreindir eru í þessu lagaákvæði. Engar fregnir hafa að mínu viti borist um að slíkt eftirlit sé í undirbúningi. Eftirfarandi langloka er kannski of viðamikil til að hægt sé að ætlast til að fólk leggi í lesturinn. Hins vegar inniheldur hún allmargar spurningar sem ég held að hljóti að brenna á vörum margra sem að málinu koma og væri þökk í því ef einhver lesandi málinu kunnugur, gæfi sér tíma til að svara þeim eftir því sem þekking hans nær til.
Umsögn lögmanns ASÍ.
Við undirbúning laga um skráningu raunverulegs eignarhalds barst meðal annars umsögn frá Magnúsi Norðdahl lögmanni Alþýðusambands Íslands. Eftirfarandi er niðurlag álitsins:
"Meðan lögin sjálf eða greinargerð með þeim skilgreina ekki með skýrum hætti hvað átt sé við með hugtakinu „Stéttarfélög, þegar þau eru skráð í fyrirtækjaskrá" er það álit ASÍ að frumvarpið geti vegið að grundvallarréttindum frjálsra stéttarfélaga og sé í beinni andstöðu við þau ákvæði stjórnarskrár, íslenskra laga og alþjóðlegra sáttmála sem Ísland á aðild að og sem vernda stéttarfélög launafólks sérstaklega. Það er jafnframt álit ASÍ, að jafnvel þó stéttarfélög gætu hugsanlega við einhverjar aðstæður fallið undir gildissvið laganna vegna skráningar í fyrirtækjaskrá, þá gangi lögin sjálf allt of langt hvað varðar upplýsingagjöf um félagsmenn að ekki sé talað um afskráningu og slit þeirra skv. 17.gr."
Alþingi virðist í engu hafa tekið tillits til þessarar alvarlegu athugasemdar, sem á þó við um öll almenn félagasamtök, sem hafa það eitt að markmiði að efla almannaheill á Íslandi.
. . . . . . . . .
En nokkrar spurningar til viðbótar um innihald, áhrif og framkvæmd laga nr. 82/2019 um raunverulegt eignarhald.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um lögaðila sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá, þ.m.t. útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga.
Spurning: Hefur skráning allra „raunverulegra eigenda“ eitthver gildi til varnar peningaþvætti?
6. gr. Tilkynningar um breytingu á áður skráðum upplýsingum.
Skráningarskyldum aðilum er skylt að tilkynna ríkisskattstjóra innan tveggja vikna um allar breytingar sem varða skráningu skv. 4. eða 5. gr.
Spurningar: Er þetta hægt? Hver hefur eftirlit? Hver tekur að sér þessa vinnu?
17. gr. Heimild til afskráningar og slita skráningarskylds aðila.
Sinni skráningarskyldur aðili ekki kröfu ríkisskattstjóra um úrbætur skv. 13. gr. innan þriggja mánaða frá því að þess var krafist má fella skráningu hans niður. (Leturbr. undirritaðs)
Áður en skráning aðila er felld niður skal senda þeim sem eru eða ætla má að séu í fyrirsvari fyrir aðilann samkvæmt skráningu aðvörun þess efnis að aðili verði afskráður úr fyrirtækjaskrá verði úrbætur ekki gerðar innan þess frests sem ríkisskattstjóri setur.
Hver eru áhrif afskráningar af fyrirtækjaskrá?
Hverfur þá kennitalan?
Verður afskráður lögaðili áfram skattskyldur?
Breytist lögaðili þá í einkaaðila?
Hvað með fjöldasamtök sem starfa í þágu almannaheilla og ekki hafa tilkynnt um „raunverulega eigendur“?
Af www.rsk.is
Undir lögin [nr. 82/2019] falla eftirtaldir aðilar:
1. Hlutafélög.
2. Einkahlutafélög.
3. Samvinnufélög.
4. Sameignarfélög.
5. Samlagsfélög.
6. Byggingarsamvinnufélög.
7. Evrópufélög.
8. Evrópsk samvinnufélög.
9. Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög.
10. Húsnæðissamvinnufélög.
11. Skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.
12. Sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
13. Sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
14. Stéttarfélög, þegar þau eru skráð í fyrirtækjaskrá.
15. Lífeyrissjóðir.
16. Sparisjóðir.
17. Veiðifélög.
18. Útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga.
19. Öll önnur félög með takmarkaðri ábyrgð.
20. Erlendir fjárvörslusjóðir eða sambærilegir aðilar sem eiga viðskipti hér á landi, sbr. 5. gr.
21. Aðrir aðilar sem fengið hafa útgefna kennitölu, þó ekki aðilar samkvæmt 1.–3. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá.
Töluliðir nr. 1-3 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá hljóða svo:
Fyrirtækjaskrá skal geyma upplýsingar um:
1. Einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
2. Stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins.
3. Stofnanir og fyrirtæki í eigu sveitarfélaga.
Í vafatilvikum sker ríkisskattstjóri úr um það hvort aðili eða flokkur aðila heyrir undir lög þessi.
Spurning: Getur verið að allir aðilar skv. tölulið nr. 1 séu undanþegnir? Nú er aðgerðum ríkisskattstjóra samt sem áður beint gegn öllum félögum sem stunda atvinnurekstur.
Víkjum þá að lögum nr. 140/2018 um varnir gegn peningaþvætti.
2. gr. Gildissvið.
Undir lög þessi falla eftirtaldir aðilar: (Tilkynningarskyldir aðilar skv. 17. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna)
a. Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
b. Líftryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
c. Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum áhættu- og söfnunartengdum líftryggingum.
d. Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
e. Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.
f. Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir a–e-lið.
g. Umboðs- og dreifingaraðilar fyrirtækja og samsvarandi erlendra fyrirtækja með starfsemi hér á landi sem falla undir a–e-lið.
h. Lífeyrissjóðir samkvæmt skilgreiningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
i. Gjaldeyrisskiptastöðvar að undanskildum þeim aðilum sem öll eftirfarandi skilyrði eiga við um:
1. gjaldeyrisskipti eru hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og aðeins veitt viðskiptavinum aðilans,
2. heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemur minna en 5 millj. kr. á ári og
3. gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fara ekki yfir 100 þús. kr., hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri færslum sem virðast tengjast hver annarri.
j. Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla.
k. Þjónustuveitendur stafrænna veskja, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
l. Endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi.
m. Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í eftirfarandi tilvikum:
1. þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,
2. þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,
3. þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,
4. þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,
5. þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,
6. þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.
n. Fasteignasölur og fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar.
o. Leigumiðlarar þegar mánaðarlegar leigugreiðslur nema 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
p. Listmunasalar eða listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
q. Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
r. Einstaklingar og lögaðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
Spurningar:
Hafa stjórnvöld undirbúið eitthver sérstakt eftirlit með fjárreiðum ofantaldra aðila?
Er talið að allsherjarskráning raunverulegs eignarhalds geti komið í stað þess?
2. mgr. 38. gr. laganna um eftirlit:
Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því að þeir sem falla undir l–s-lið 1. mgr. 2. gr. fari að ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim, auk þess að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins.
Spurningar:
Hvernig verður eftirliti ríkisskattstjóra með þessum tilteknu aðilum háttað?
Hafa þessar "nánari reglur" verið samdar og birtar í endanlegri mynd?