SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Fleiri spurningar um "raunverulega eigendur"

Enn um „Raunverulegt eignarhald“

Eins og fram hefur komið í fyrra bloggi mínu sýnist mér sú vinna sem kollegar mínir eru uppteknir við þennan mánuðinn skila litlum eða engum árangri til varnar peningaþvætti í landinu. Engar sérstakar aðgerðir virðast í undirbúningi varðandi eftirlit með starfsemi þeirra aðila sem greindir eru í stafliðum a-r í 2. grein laga nr. 142/2018. Allsherjarskráning um raunverulegt eignarhald, svo gagnleg sem hún kann að vera, veitir afar veika stoð til að hindra innstreymi illa fengins fjár í hagkerfið og Ísland er síður en svo að vinna að útstrikun ríkisins af hinum svonefnda „gráa lista“ alþjóðastofnana með þessu, nema á eftir fylgi reglubundið eftirlit með fjárreiðum þeirra aðila sem tilgreindir eru í  þessu lagaákvæði. Engar fregnir hafa að mínu viti borist um að slíkt eftirlit sé í undirbúningi. Eftirfarandi langloka er kannski of viðamikil til að hægt sé að ætlast til að fólk leggi í lesturinn. Hins vegar inniheldur hún allmargar spurningar sem ég held að hljóti að brenna á vörum margra sem að málinu koma og væri þökk í því ef einhver lesandi málinu kunnugur, gæfi sér tíma til að svara þeim eftir því sem þekking hans nær til.

Umsögn lögmanns ASÍ.
Við undirbúning laga um skráningu raunverulegs eignarhalds barst meðal annars umsögn frá Magnúsi Norðdahl lögmanni Alþýðusambands Íslands. Eftirfarandi er niðurlag álitsins:

"Meðan lögin sjálf eða greinargerð með þeim skilgreina ekki með skýrum hætti hvað átt sé við með hugtakinu „Stéttarfélög, þegar þau eru skráð í fyrirtækjaskrá" er það álit ASÍ að frumvarpið geti vegið að grundvallarréttindum frjálsra stéttarfélaga og sé í beinni andstöðu við þau ákvæði stjórnarskrár, íslenskra laga og alþjóðlegra sáttmála sem Ísland á aðild að og sem vernda stéttarfélög launafólks sérstaklega. Það er jafnframt álit ASÍ, að jafnvel þó stéttarfélög gætu hugsanlega við einhverjar aðstæður fallið undir gildissvið laganna vegna skráningar í fyrirtækjaskrá, þá gangi lögin sjálf allt of langt hvað varðar upplýsingagjöf um félagsmenn að ekki sé talað um afskráningu og slit þeirra skv. 17.gr."

Alþingi virðist í engu hafa tekið tillits til þessarar alvarlegu athugasemdar, sem á þó við um öll almenn félagasamtök, sem hafa það eitt að markmiði að efla almannaheill á Íslandi.

. . . . . . . . .

En nokkrar spurningar til viðbótar um innihald, áhrif og framkvæmd laga nr. 82/2019 um raunverulegt eignarhald.

 2. gr. Gildissvið.
 Lög þessi gilda um lögaðila sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá, þ.m.t. útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga.

Spurning: Hefur skráning allra „raunverulegra eigenda“ eitthver gildi til varnar peningaþvætti?

6. gr. Tilkynningar um breytingu á áður skráðum upplýsingum.
 Skráningarskyldum aðilum er skylt að tilkynna ríkisskattstjóra innan tveggja vikna um allar breytingar sem varða skráningu skv. 4. eða 5. gr.

Spurningar: Er þetta hægt? Hver hefur eftirlit? Hver tekur að sér þessa vinnu?

17. gr. Heimild til afskráningar og slita skráningarskylds aðila.
 Sinni skráningarskyldur aðili ekki kröfu ríkisskattstjóra um úrbætur skv. 13. gr. innan þriggja mánaða frá því að þess var krafist má fella skráningu hans niður. (Leturbr. undirritaðs)
 Áður en skráning aðila er felld niður skal senda þeim sem eru eða ætla má að séu í fyrirsvari fyrir aðilann samkvæmt skráningu aðvörun þess efnis að aðili verði afskráður úr fyrirtækjaskrá verði úrbætur ekki gerðar innan þess frests sem ríkisskattstjóri setur.

Hver eru áhrif afskráningar af fyrirtækjaskrá?
Hverfur þá kennitalan?
 Verður afskráður lögaðili áfram skattskyldur?
Breytist lögaðili þá í einkaaðila?
Hvað með fjöldasamtök sem starfa í þágu almannaheilla og ekki hafa tilkynnt um „raunverulega eigendur“?

 Af www.rsk.is

Undir lögin [nr. 82/2019] falla eftirtaldir aðilar:

 1. Hlutafélög.

2. Einkahlutafélög.

3. Samvinnufélög.

4. Sameignarfélög.

5. Samlagsfélög.

6. Byggingarsamvinnufélög.

7. Evrópufélög.

8. Evrópsk samvinnufélög.

9. Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög.

10. Húsnæðissamvinnufélög.

11. Skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

12. Sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

13. Sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

14. Stéttarfélög, þegar þau eru skráð í fyrirtækjaskrá.

15. Lífeyrissjóðir.

16. Sparisjóðir.

17. Veiðifélög.

18. Útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga.

19. Öll önnur félög með takmarkaðri ábyrgð.

20. Erlendir fjárvörslusjóðir eða sambærilegir aðilar sem eiga viðskipti hér á landi, sbr. 5. gr.

21. Aðrir aðilar sem fengið hafa útgefna kennitölu, þó ekki aðilar samkvæmt 1.–3. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá.

Töluliðir nr. 1-3  2. gr.  laga um fyrirtækjaskrá hljóða svo:
Fyrirtækjaskrá skal geyma upplýsingar um:
    1. Einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
    2. Stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins.
    3. Stofnanir og fyrirtæki í eigu sveitarfélaga.

Í vafatilvikum sker ríkisskattstjóri úr um það hvort aðili eða flokkur aðila heyrir undir lög þessi.

Spurning: Getur verið að allir aðilar skv. tölulið nr. 1 séu undanþegnir? Nú er aðgerðum ríkisskattstjóra samt sem áður beint gegn öllum félögum sem stunda atvinnurekstur.

Víkjum þá að lögum nr. 140/2018 um varnir gegn peningaþvætti.
2. gr. Gildissvið.
Undir lög þessi falla eftirtaldir aðilar: (Tilkynningarskyldir aðilar skv. 17. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna)
    a. Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
    b. Líftryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
    c. Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum áhættu- og söfnunartengdum líftryggingum.
    d. Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
    e. Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.
    f. Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir a–e-lið.
    g. Umboðs- og dreifingaraðilar fyrirtækja og samsvarandi erlendra fyrirtækja með starfsemi hér á landi sem falla undir a–e-lið.
    h. Lífeyrissjóðir samkvæmt skilgreiningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    i. Gjaldeyrisskiptastöðvar að undanskildum þeim aðilum sem öll eftirfarandi skilyrði eiga við um:
    1. gjaldeyrisskipti eru hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og aðeins veitt viðskiptavinum aðilans,
    2. heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemur minna en 5 millj. kr. á ári og
    3. gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fara ekki yfir 100 þús. kr., hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri færslum sem virðast tengjast hver annarri.
    j. Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla.
    k. Þjónustuveitendur stafrænna veskja, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
    l. Endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi.
    m. Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í eftirfarandi tilvikum:
    1. þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,
    2. þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,
    3. þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,
    4. þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,
    5. þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,
    6. þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.
    n. Fasteignasölur og fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar.
    o. Leigumiðlarar þegar mánaðarlegar leigugreiðslur nema 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
    p. Listmunasalar eða listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
    q. Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
    r. Einstaklingar og lögaðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.

Spurningar:
Hafa stjórnvöld undirbúið eitthver sérstakt eftirlit með fjárreiðum ofantaldra aðila?
Er talið að allsherjarskráning raunverulegs eignarhalds geti komið í stað þess?

2. mgr. 38. gr. laganna um eftirlit:

 Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því að þeir sem falla undir l–s-lið 1. mgr. 2. gr. fari að ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim, auk þess að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins.

Spurningar:
Hvernig verður eftirliti ríkisskattstjóra með þessum tilteknu aðilum háttað? 

Hafa þessar "nánari reglur" verið samdar og birtar í endanlegri mynd?

„Raunverulegir eigendur“ Vindhögg aldarinnar.

Undirritaður tók sér fyrir hendur að kanna hvað liggur að baki því verkefni sem allar bókhalds- og endurskoðunarstofur þurfa að vinna í þessum mánuði, eigi viðskiptavinir þeirra ekki á hættu að sæta sektum eða öðrum refsingum af hálfu hins opinbera.

Samvkæmt vef ríkisskattstjóra, sem nú ber stofnanaheitið „Skatturinn“. falla eftirtaldir lögaðilar undir skyldu til að skila skráningu um það hverjir séu „raunverulegir eigendur“ samkvæmt lögum nr. 82/2019:

1. Hlutafélög.

2. Einkahlutafélög.

3. Samvinnufélög.

4. Sameignarfélög.

5. Samlagsfélög.

6. Byggingarsamvinnufélög.

7. Evrópufélög.

8. Evrópsk samvinnufélög.

9. Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög.

10. Húsnæðissamvinnufélög.

11. Skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

12. Sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

13. Sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

14. Stéttarfélög, þegar þau eru skráð í fyrirtækjaskrá.

15. Lífeyrissjóðir.

16. Sparisjóðir.

17. Veiðifélög.

18. Útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga.

19. Öll önnur félög með takmarkaðri ábyrgð.

20. Erlendir fjárvörslusjóðir eða sambærilegir aðilar sem eiga viðskipti hér á landi, sbr. 5. gr.

21. Aðrir aðilar sem fengið hafa útgefna kennitölu, þó ekki aðilar samkvæmt 1.–3. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá.

Liðir nr. 1-3 í 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá hljóða svo:
Fyrirtækjaskrá skal geyma upplýsingar um:
    1. Einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
    2. Stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins.
    3. Stofnanir og fyrirtæki í eigu sveitarfélaga.

Þessi félög eru sem sagt undanþegin samkvæmt upptalningu „Skattsins“.

Finnst engum þett svolítið mótsagnakennt?

Eða er undirritaður að skilja málið „röngum skilningi“ og bið ég þá lesanda mér fróðari að leiða mig í sannleikann.

Til að skelfa þjónustuaðila og skjólstæðinga þeirra virkilega eru refsiákvæði laganna um skráninguna eftirfarandi:

14. gr. Dagsektir.
 Ríkisskattstjóri getur lagt dagsektir á skráningarskyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Greiðast dagsektir þar til farið hefur verið að kröfum ríkisskattstjóra. Dagsektirnar geta numið frá 10 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri skráningarskylds aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.

Tilgangur alls þessa er að komast að upplýsingum, sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir peningaþvætti (eða „fjárböðun“ eins og einn góður hagfræðingur kallaði það). Sem sagt: Tilgangurinn er auðskiljanlegur og ætti að hjálpa til að koma Íslandi af hinum svokallaða gráa lista yfir þau lönd sem ekki þykja standa trúverðuglega að því að hindra innstreymi illa fengins fjár inn í hagkerfi heimsins.

Og er þá best að líta til þeirra laga sem sett voru á árinu 2018 um varnir gegn peningaþvætti. Þau eru númer 140/2018 og í annarri grein þeirra eru taldir upp þeir aðilar sem eru eftirlitsskyldir:

Úr lögum nr. 140/2018 um varnir gegn peningaþvætti.
2. gr. Gildissvið.
Undir lög þessi falla eftirtaldir aðilar:
    a. Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
    b. Líftryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
    c. Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum áhættu- og söfnunartengdum líftryggingum.
    d. Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
    e. Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.
    f. Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir a–e-lið.
    g. Umboðs- og dreifingaraðilar fyrirtækja og samsvarandi erlendra fyrirtækja með starfsemi hér á landi sem falla undir a–e-lið.
    h. Lífeyrissjóðir samkvæmt skilgreiningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    i. Gjaldeyrisskiptastöðvar að undanskildum þeim aðilum sem öll eftirfarandi skilyrði eiga við um:
    1. gjaldeyrisskipti eru hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og aðeins veitt viðskiptavinum aðilans,
    2. heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemur minna en 5 millj. kr. á ári og
    3. gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fara ekki yfir 100 þús. kr., hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri færslum sem virðast tengjast hver annarri.
    j. Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla.
    k. Þjónustuveitendur stafrænna veskja, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
    l. Endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi.
    m. Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í eftirfarandi tilvikum:
    1. þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,
    2. þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,
    3. þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,
    4. þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,
    5. þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,
    6. þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.
    n. Fasteignasölur og fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar.
    o. Leigumiðlarar þegar mánaðarlegar leigugreiðslur nema 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
    p. Listmunasalar eða listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
    q. Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
    r. Einstaklingar og lögaðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.

Og nú spyr höfundur eins og fávís kona: Hvar í þessu registri er að finna aðila eins og stéttarfélög, veiðifélög, trúfélög eða almenn félagasamtök yfirleitt? Svarið hlýtur að liggja í því að framkvæmdaaðili („Skatturinn“) vill útiloka þá, að mínu viti, óhugsanlegu möguleika að til dæmis örfélög skv. skilgreiningu ársreikningalaga eða almenn félagasamtök geti átt í slíkum og þvílíkum viðskiptum sem að ofan greinir.

Þrjár spurningar í tilefni dagsins að lokum:

  • Hver getur talist „raunverulegur eigandi“ félagasamtaka sem starfa í þágu almannaheilla og fjöldi manns er aðili að?
  • Er líklegt að félög sem falla undir skilgreininguna „örfélag“ séu að velta yfir 10 þús Evrum í reiðufé í einni eða tengdum greiðslum árlega.
  • Sá aragrúi einkahlutafélaga sem nú þrífst í landi voru er að ganga kaupum og sölum að hluta til eða að öllu leyti, stundum oft á ári. Getur það verið vilji löggjafans að í hvert skipti sem slík viðskipti eiga sér stað tilkynni kaupandi og seljandi hinu opinbera slíka nafnabreytingu? Að viðlögðum sektum sem nema margföldum verðmætum þess sem verslað er með?

Í fljótu bragði verður ekki annað séð en að framkvæmd þessa eftirlits sé í engu samræmi við þann tilgang sem birtist í lögunum um varnir gegn peningaþvætti. Ef einhver er á öðru máli, þætti mér væntum að heyra álit hans.  Hugsanlega býr eitthvað annað að baki, sem ég hef ekki kynnt mér, en gott væri að fá að vita.

Sigurjón Bjarnason.

Alræði á kostnað meðeigenda.

Við setningu laga um einkahlutafélög árið 1994 var heimilað að velja einn mann í stjórn, enda séu eigendur ekki fleiri en einn.

Með setningu laga nr. 13/2010 var gerð breyting á þessum lögum (nr. 138/1994) og hljóðar upphaf 39. greinar nú svo: Í stjórn einkahlutafélags skulu eiga sæti fæst þrír menn nema hluthafar séu fjórir eða færri, þá nægir að stjórnina skipi einn eða tveir menn. Ef stjórn félags er skipuð einum manni skal valinn a.m.k. einn varamaður.

Sem þýðir að einn einstaklingur hefur öll völd og tekið allar ákvarðanir sem ekki þarf að bera undir hluthafafund, þar með talið selt og keypt fasteignir, lýst félagið gjaldþrota, ráðið og rekið starfsfólk og beinlínis gert hvaðeina burtséð frá hagsmunum meðeigenda.

Nú kann svo að vera að í vissum tilvikum hafi eigendur nýtt sér þetta ákvæði og haft einn mann í stjórn í ljósi góðs samkomulags á sínum tíma „í einingu andans og bandi friðarins“. En tímarnir breytast og rifjast þá upp vísan góða:

„Man ég okkar fyrsta fund,
forn þó ástin réni.
En nú er eins og hundur hund
hitti á tófugreni.“

Góða samkomulagið og gagnkvæma traustið getur verið fokið út í veður og vind þegar tímar líða og hárin grána. Geðið verður stirt og hinir bestu vinir breytast í þjófa og ræningja þegar fram í sækir. Við köllum þetta að „sambandið súrni“ á nútímamáli.

Þegar svo er komið situr meðeigandi uppi með að fá fréttir utan úr bæ af gerðum stjórnar félagsins síns. Hinn eini stjórnarmaður getur svift hann prókúru, framkvæmdastjóraembætti, lokað aðgangi að bókhaldsgögnum og síðast ekki síst selt allar eigur félagsins fyrir slikk án þess að hinn afskipti meðeigandi fái að vita það nema á skotspónum.

Ekki veit ég hvað hefur vakað fyrir löggjafanum þegar hann samdi 1. mgr. 8. gr. laga nr. 13/20100 eða hvaða ráðgjafar hann hefur notið, en mitt álit er að lagasetning þessi hafi skapað fleiri vandræði en hún átti að leysa.

Pistlasafn á bók.

Auk þess að hafa ritað pistla á þessa bloggsíðu undanfarin ár, hafa mér dottið í hug ýmsar hugleiðingar um óskyld mál, sem ég hef safnað í tölvu mína. Upp á síðkastið hefur hvarflað að mér að veita fólki þá þjónustu að fá aðgang að öllum þessum hugrenningum, sem eru orðnar á annað hundrað, fleiri og meiri að vöxtum en ég hafði áttað mig á óathuguðu máli. Því hefur orðið af því að koma frá sér safni þessu í bókarformi undir heitinu „Þungir skrifborðsþankar“.

Til hægðarauka fyrir þá sem vilja kynna sér efni einstakra pistla hef ég flokkað þá í sex meginflokka sem bera heitin: „Austurland“, „fjármál“, „hrunið“, „siður“, „skatturinn“ og „stjórnmál“. Sumt af þessum greinum hefur verið birt, aðallega í austfirskum fjölmiðlum, annað hefur aldrei komið fyrir almenningssjónir.

Þess skal getið að í skrifum mínum eru settar fram ýmsar kenningar sem skjóta skökku við ríkjandi viðhorf, Ætlast ég ekki til að menn séu mér sammála, svona almennt, heldur lesi þetta með opnum huga. Ef þetta verður til að víkka sjóndeilarhring lesenda þá er tilganginum náð.

Bókin er prentuð í takmörkuðu upplagi, en er samt komin í nokkrar bókabúðir, þar sem hún kostar 3.990 kr.

Hins vegar geta bloggvinir fengið hana beint frá forlaginu á kr. 3.500 með því að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og gefa upp nafn, heimili og kennitölu. Verður þá bókin send til viðtakenda og innheimt með bankakröfu eða látinn fylgja greiðsluseðill.

Sendingarkostnaður er innifalinn í verðinu.

Dæmisaga úr bókhaldinu

Eigandi einkahlutafélags kemur að máli við bókarann sinn og hefur meðferðis reikning stílaðan á félagið yfir útigrill upp á 350.000 kr.

„Viltu gjaldfæra þetta og innskatta í bókhaldinu“, segir hann.

Bókarinn veit að gripurinn nýtist ekki í rekstrinum, en mun verða á heimili eigandans án þess að félaginu skíni nokkuð gott af, hvað þá að það varði tekjuaukningu. Bókarinn þekkir líka reglur um gjaldfærslu og innsköttun.

En hann er undirmaður, eigandinn ræður og rekur fyrirtækið undir kjörorðinu „ég á þetta og ég má þetta“. Bókarinn á ekki annars úrkosta en að hlýða, enda nánast engar líkur á því að upp komist af hálfu þeirra sem hlut eiga að máli, hins almenna skattborgara.

Félagið er að öðru leyti vel rekið og skilar reglubundið jákvæðum virðisaukaskattskýrslum.

Dæmið hér að ofan er ekki einsdæmi, langt frá því. Og fjárhæðin er lág miðað við önnur dæmi sem heyrst hafa. Bókarar sem mótmæla og vilja fara eftir reglum eiga í vök að verjast.

Háttsettur embættismaður hjá ríkisskattstjóraembættinu tjáði mér nýlega að alllangt væri síðan að reglubundnum úrtakskönnunum á bókhaldi rekstraraðila hafi verið hætt. Ástæða: Sáralítið kom út úr þeim, aðeins fundust villur sem kölluðu á breytingar í ca 8% tilvika.

Undirritaður leyfir sér að hafa þá skoðun að 8% sé hátt hlutfall og ekkert yfir núllinu sé viðunandi. Auk þess er horfinn sá fælingarmáttur sem fækkaði verulega bókhaldsbrotum af þessu tagi.

Ríkisskattstjóri hefur hins vegar tekið upp stranga skoðun á öllum gjaldfærslum þegar innskattur er umfram útskatt á virðisaukaskattskýrslum. Vissulega þarft framtak, en þar er líka slegið margt vindhöggið.

Rafrænt eftirlit og samkeyrsla er mikilvægur þáttur í skatteftirliti. En á meðan engin viðleitni er höfð til að rannsaka annað það sem að baki ársreikninga liggur er hætt við að þeir sem búa yfir einhverjum brotavilja, hvað þá einbeittum, gangi frjálslega um eigur annarra þegar þeir færa bækur sínar til stuðnings ársreikningum og skattframtölum ár hvert.

Sigurjón Bjarnason.

 

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum