SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Ódrepandi einkahlutafélög

Eftir því sem best er vitað eru fjöldi einkahlutafélaga og annarra smárra félaga í atvinnurekstri meiri á Íslandi en í nágrannalöndum. Pistilshöfundur hefur ekki glöggar upplýsingar um þessi mál, en nýlega hlýddi hann á fyrirlestur fulltrúa fyrirtækjaskrár, sem sagði að einkahlutafélög væru yfir 40.000 á Íslandi, sem gerir um það bil eitt á hverja átta Íslendinga á meðan til dæmis í Noregi væru þau einungis brot af því hlutfalli.
Hér á landi ræður sem sé önnur hver fjögurra manna fjölskylda yfir einkahlutafélagi.
Þessar upplýsingar koma ekki á óvart því reynsla mín af þessum vettvangi bendir til mikillar vinsælda einkahlutafélagsformsins og á árinu 2016 hafa fjölmörg ný verið skráð hjá fyrirtækjaskrá. Má ætla að þau skipti jafnvel einhverjum þúsundum.

Einhver einkahlutafélög hafa verið afskráð og þurrkuð út af félagaskrá á sama tíma, en örugglega mun færri. Ein ástæða þess er að slitaferill er mun flóknari en stofnun félags. Þó hafa verið stigin skref til einföldunar og liggja fyrir á vef ríkisskattstjóra leiðbeiningar um einföld slit á einkahlutafélagi. Slóðin er https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/breytingar-og-slit/slit-einkahlutafelags/nr/184 Einnig er rétt að benda á ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra nr. 2/2004 á slóðinni https://www.rsk.is/fagadilar/akvardandi-bref/beinir-skattar/nr/562 sem sýnist vera nokkuð samhljóða.
Leiðbeiningarnar varða einungis skuldlaus og starfslaus félög, en sé rýnt nánar í leiðbeiningarnar sýnist fátt vera einfalt varðandi þennan frágang, sem felst í fljótu bragði í eftirfarandi:

  1. Innsendingu skattframtals og ársreiknings næstliðins reikningsárs (þó að þessi gögn liggi væntanlega fyrir hjá ríkisskattstjóra.)
  1. Skattframtal yfirstandandi reikningsárs skal gert og skilað inn. (Væntanlega fer álagning opinberra gjalda fram við móttöku umsóknar um slit, en bíður ekki næstu álagningar lögaðila eða í rúmt ár frá umókn.)
  1. Með skattframtalinu þarf að fylgja lokaársreikningur sem nær til yfirstandandi reikningsárs fram að slitum.
  1. Gera þarf grein fyrir úthlutun eigna til hluthafa samkvæmt tillögu hluthafafundar þar sem félagsslit eru samþykkt.
  1. Þá lýsa síðustu hluthafar yfir sjálfsskuldarábyrgð bak þeim skuldum sem kunna að koma í ljós eftir að félagið hefur verið tekið út af skrá og kennitalan afmáð.
Í leiðbeiningunum kemur eftirfarandi fram:

„Á grundvelli framlagðra gagna tekur atvinnurekstrardeild ríkisskattstjóra afstöðu til þess hvort unnt sé að gefa út staðfestuvottorð um það að öllum skattalegum skyldum sé lokið, sem er forsenda þess að unnt sé að afskrá félagið“.

Þetta síðasta er dálítið merkilegt í ljósi þess að ein af forsendunum fyrir slitum og afskráningu er að síðustu hluthafar eru látnir ábyrgjast þær skuldir sem birtast kunna eftir félagsslit. Ekki er að sjá að eftirstæðir skattar séu þar undanskildir. 

Hér er komin ein ástæðan fyrir því að einkahlutafélög hafa tilhneigingu til að verða langlíf, ef ekki eilíf. Önnur ástæða er þó að minni hyggju mun algengari. Hún er sú að starfsemi félagsins hefur ekki skilað þeim ávinningi sem því var ætlað í upphafi og eigandi (eða eigendur) ekki tilbúinn að fjármagna rekstrarhalla, heldur verða til skuldir í félaginu sem það eitt og sjálft ber ábyrgð á. Eins og menn vita er ábyrgð eigandans takmörkuð við hlutaféð, meira er honum ekki ætlað að taka á sig lögum samkvæmt.

Þessi félög eru sem sagt lifandi lík, engum til gagns. Gjaldþrotakrafa myndi kosta 250.000 fyrir beiðanda og auðvelt að sjá eignaleysi og þar með árangursleysi slíkrar kröfu með því að skoða síðasta innsendan ársreikning hjá ársreikningaskrá.

Í ár var gerð sú breyting á ársreikningalögum að bætt var við skyldu ársreikningaskrár til að krefjast gjaldþrotaskipta á félögum sem ekki hafa sent inn ársreikning innan tiltekins tíma eftir síðasta leyfða skiladag, en ákvæði 1. málsgreinar 121. greinar hljóða svo: 
Ef ársreikningi eða samstæðureikningi hefur ekki verið skilað innan átta mánaða frá því að frestur skv. 109. gr. til skila á ársreikningi eða samstæðureikningi er liðinn eða frá því að ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi skal (leturbreyting SB) ársreikningaskrá krefjast skipta á búi félagsins.

Og í 2. málsgrein sömu greinar stendur:

Þegar héraðsdómara hefur borist krafa um skipti skv. 1. mgr. skal hann fara með hana eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um meðferð kröfu lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Ef að þessi lagaákvæði komast í framkvæmd er ljóst að þau baka ríkissjóði verulegan kostnað þar sem beiðandi tekur alltaf á sig kostnað við skiptin fáist þau ekki greidd úr þrotabúinu. Varla er þess þó að vænta að af slíkum fjárútlátum ríkisins verði fyrr en í fyrsta lagi árið 2018 og því ástæðulaust að fjárlög 2017 geri ráð fyrir þeim. Í undirbúningi breytinganna mun fjármálaráðuneytinu hafa verið bent á þennan útgjaldalið og var að skilja á svarinu að ríkið væri tilbúið að leggja út fyrir þessu.

Eins og menn vita liggja mjög íþyngjandi sektir við vanskilum á ársreikningum til birtingar í ársreikningaskrá. Til þessa hafa þær verið 250.000 kr., en hækka í 600.000 kr. (með lækkunarákvæðum þó) frá og með árinu 2017. Í nágrannalöndum munu eigendur eða stjórnendur félaganna vera ábyrgir fyrir greiðslu slíkra viðurlaga, en svo er ekki á Íslandi. Ríkissjóður á því ekki möguleika á því að sækja þetta fé, eigi viðkomandi félag ekki fyrir skuldum, sem þýðir að eigendur eignalausra félaga sjá ekki ástæðu til að sinna birtingarskyldu þegar félagið er orðið órekstrarhæft.

Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé komin ein veigamesta skýringin á þeim fjölda einkahlutafélaga, sem fylla fyrirtækjaskrána en geta hvorki lifað eða dáið.

Hvort stjórnendur ársreikningaskrár og fyrirtækjaskrár láta verða af því að lifa samkvæmt þessum nýju lagaákvæðum verður tíminn að leiða í ljós en grunur leikur á að núverandi ástand hafi verulegan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð og því má vænta þess að á næstu tveim eða þrem árum verði hafið opinbert átak til grisjunar á fyrirtækjaskrá í krafti þessara nýju lagaákvæða.

Sigurjón Bjarnason

Einkahlutafélög úr einkarekstri.

Skattaleg áhrif við stofnun og eigendaskipti.

Allt frá árinu 2001 hafa lög um tekjuskatt heimilað formbreytingu einkarekstrar yfir í einkahlutafélög án skattalegra áhrifa. Eignir úr einkarekstri mega færast yfir í einkahlutafélag á skattalega bókfærðu verði, þó að verðmæti þeirra séu ef til vill umtalsvert meiri. Rökin fyrir þessu er að ekki verða eiginleg eigendaskipti við félagsstofnunina, heldur einungis breytt form. Áunnin réttindi svo sem yfirfæranlegt tap færist yfir í félagið og getur nýst á móti hagnaði þess á sama hátt og um framhald á einkareksturinn væri að ræða. Einkahlutafélagið ber hins vegar einungis 20% tekjuskatt, en við úttekt í formi arðs reiknast önnur 20%, sem samanlagt gera 36%.

Þegar skattaleg eiginfjárstaða er neikvæð, en sýna má fram á að í rekstrinum finnist eignir sem meta má til nægjanlegs verðgildis til þess að efnhagsreikningur sýni jákvætt eigið fé, er í reglugerð heimilt að stofna félagið, en eins og kunnugt er þurfa eigendur nýs einkahlutafélags að leggja fram hlutafé að lágmarki 500.000 kr. Þannig getur einstaklingur í rekstri breytt honum í einkahlutafélag þó hann eigi ekki fyrir skuldum samkvæmt skattframtali, ef hægt er að endurmeta eignir til hækkunar[i], og hann getur lagt fram staðfestingu endurskoðanda þess efnis þannig að eignir í rekstrinum séu hærri en skuldir.[ii]

Þess ber hins vegar að gæta að þessi réttur er eingöngu bundinn við þann einstakling sem upphaflega stofnaði félagið. Selji stofnandi hluti í félaginu til annarra reiknast söluhagnaður hlutafjár þannig að frá söluverði dragast eignir á því skattalega verði, sem það stóð í lok einstaklingsrekstrar og ekki horft til stofnefnahagsreiknings eftir endurmat. Yfirfærslan í einkahlutafélag er sem sagt bundinn við hinn upphaflega eiganda, eigendaskipti hluta í félaginu á síðari tímum getur því skapað skattskyldan söluhagnað í hendi hans, þó að söluverðið sé nálægt bókfærðu innra virði félagsins.

Samandregin niðurstaða: Formbreyting einkarekstrar yfir í einkahlutafélag breytir ekki skattlagningu síðari tíma söluhagnaðar til þriðja aðila.

[i] Um getur verið að ræða fasteignir eða óefnisleg réttindi svo sem aflamark, greiðslumark í landbúnaði og fleira.
[ii] Sjá reglugerð nr. 223/2003.

Er gistináttaskatturinn sjálfbær?

Í byrjun árs 2012 var tekinn upp nýr skattur á Íslandi, gistináttaskattur. Fjármagnið átti að renna til uppbyggingar vegna aukinnar umferðar ferðafólks í landinu. Kollegar mínir í bókarastétt eyddu verulegum tíma í að kynna sér útreikning og skýrslugerð vegna hins nýja tekjustofns ríkisins og í dag fer alltaf nokkur tími aukalega í að halda honum til haga og aðstoða viðskiptavini við að gjalda keisaranum það sem keisarans er í þessu efni sem öðru. Þá er ótalin sú vinna sem hugbúnaðarsfræðingar lögðu í breytingar á bókhaldsforritum svo þau gætu þjónað þessum nýja skatti.
Eitt af því fyrsta sem stúderað var var gjaldstofninn gistináttaeining, en af hverri einingu áttu eigendur gistirýma að skila 100 kr. til ríkisins en einnig virðisaukaskatti þar til viðbótar þannig að í dag greiða neytendur 111 kr. til ríkisins á þessa einingu.

Hugum nú aðeins að hugtakinu gistináttaeining. 
Hún gildir fyrir eina nótt eftir orðanna hljóðan. Halda mátti að einn maður í eina nótt væri því gistináttaeining. En málið reyndist alls ekki svo einfalt, enda kannski erfitt að halda utan um slíka talningu hvað þá að hafa eðlilegt eftirlit af hálfu skattyfirvalda. Í stað þess er meginreglan þessi:
 1. Eitt útleigt herbergi í eina nótt telst ein gistináttaeining, sama hvað margir gista í herberginu.
 2. Ein íbúð eða orlofshús í eina nótt telst líka ein gistináttaeining. Gestafjöldi skiptir ekki máli.
 3. Nótt á tjaldstæði er ein gistináttaeining. Ekki skiptir máli þó að í tjaldinu kúri einn puttaferðalangur eða hvort fjölmenn fjölskylda í stórum húsbíl eigi í hlut.
 4. Ef rúm eða bara svefnpokapláss er leigt út í stærra rými telst það eitt gistirými, þó að mörgum gestum sé komið fyrir í stórum sal.
Ofantaldar gistináttaeiningar eru síðan seldar á mjög misjöfnu verði. Mér er nær að halda að verðin séu á bilinu 5.000 til 50.000 kr., (og gistináttaskatturinn frá 0,2% upp í 2% af veltu) þó að eflaust megi finna bæði lægra og hærra verð og hlutfall. Að framangreindu athuguðu læðist að manni grunur um að í stað þessarra tilbúnu eininga gæti skattstofninn einfaldlega verið sölutekjur, sem gæti einfaldað alla meðferð til muna og gert innheimtu skilvirkari. 
Fyrir utan þetta hefur sú spurning vaknað hvort þessi tiltölulega hógværa skattlagning skili nokkru til ferðaþjónustunnar, sem átti nú einu sinni að njóta teknanna með einum eða öðrum hætti. Hver er kostnaður við álagningu, eftirlit, innheimtu og ekki síst utanumhald sjálfra innheimtuaðilanna, gistihúsaeigenda víða um land. Eru tekjurnar örugglega að standa undir þessu öllu saman? Raunar er ekki hlaupið að því að hafa upp á áreiðanlegum upplýsingum um þennan tekjulið ríkissjóðs, en heyrst hafa tölur frá 250 milljónir á ári upp í 500 milljónir, sem þýðir svosem verðgildi 3-6 einbýlishúsa. 
Með öðrum orðum: Er gistináttaskatturinn sjálfbær?
Önnur spurning snýr að því hvort að eðlilegt sé að skatturinn sé bundinn við þá sem bjóða gistirými, en auðvitað hagnast flestar ef ekki allar þjónustugreinar landsmanna á fjölgun ferðamanna, ekki aðeins hótelrekendur.

Sigurjón Bjarnason.

Ábyrgð einstaklings að baki eigin atvinnurekstri - skattaleg ívilnun.

Viðskiptavinur minn lenti í hremmingum vegna þess að bankaskuld einkahlutafélags, sem hann átti hlut í féll á hann vegna sjálfskuldarábyrgðar. Hann var að vísu aðeins 50% eigandi í félaginu og meðeigandi hans hafði tekið að sér greiðslu á sínum hluta. Af þessu skapaðist fjárhagsbyrði sem skerti gjaldþol verulega og því freistandi að láta reyna á 6. tl. 65. greinar tekjuskattslaga og leita eftir ívilnun vegna tapaðra krafna sem ekki stafa af atvinnurekstri.

Niðurstaðan var næsta fyrirsjáanleg, eins og segir í niðurstöðu ríkisskattstjóra þar sem hann vitnar til reglu í 66. gr. tekjuskattslaga: „Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið er að gjaldþol manna sé verulega skert vegna tapa á útistandandi kröfum sem ekki stafa af atvinnurekstri hans. Með atvinnurekstri í þessu sambandi er átt við atvinnurekstur sem einstaklingur hefur með höndum og eignaraðild í sameignarfélagi eða hlutafélagi. Það telst þó ekki atvinnurekstur ef eignarhluti í hlutafélagi er óverulegur og aðild eða tengsl manns við félagið eru þannig að ekki sé ástæða til að líta þannig á að um atvinnurekstur sé að ræða. Sé eignarhluti minni en 20% telst hann óverulegur í þessu sambandi ...“

Því miður er mörg dæmi um að heimili fái slíka bakreikninga vegna aðildar að atvinnurekstri og því rétt að vara fólk við persónulegum uppáskriftum skuldabréfa eða tryggingabréfa fyrir fjármála­stofnanir í rekstrarlegum tilgangi.

Öll höfum við trú á fyrirtækjunum okkar og viljum veg þeirra sem mestan. Blasi við skortur á fjármagni er hins vegar rétt að spyrja sig hvort að tekjur framtíðarinnar séu öruggar. Eru engir hákarlar í kjölfarinu? Er meðeigandi traustur? Reynist svörin við þessum spurningum verða jákvæð, myndi ég samt sem áður skoða eftirtalin atriði áður en ég set nafnið mitt undir skjalið: 
 1. Eru aðrar leiðir til fjármögnunar útilokaðar, (til dæmis fyrirframgreiðsla viðskiptavinar inn á tekjur)?
 2. Gæti ég lánað félaginu úr eigin sjóði.
 3. Gæti ég tekið persónulegt lán, sem ég gæti síðan greitt af með sjálfsaflafé?
 4. Gæti ég tekið á mig þessa skuld félagsins án þess að verða sjálfur fyrir verulegum skakkaföllum, ef illa fer?
Ef svörin við þessum spurningum eru neikvæð er ekki nema eitt að gera: Kveðja þessa hugmynd um atvinnurekstur og snúa sér að einhverju öðru.

Hitt er svo annað mál og rétt að spyrja sig þeirrar spurningar líka: „Er ég tilbúinn að fórna aleigunni svo að draumurinn rætist?“ Má vera að svo sé og þá er ekki annað að gera en að henda sér í djúpu laugina.

Hitt er svo annað mál, að ef við göngum í sjálfskuldarábyrgð fyrir frænda, frænkur eða annað venslafólk til að auðvelda fjármögnun þeirra atvinnurekstrar og ef sú skuld fellur á okkur sjálf, þá getum við óhikað leitað eftir skattalegri ívilnun, þar sem við erum þá ekki sjálf með reksturinn, heldur hefur skapast krafa á hinn óheppna ættingja eða vin sem er töpuð, enda verði hann gjaldþrota eða þoli árangurslaust fjárnám.

En eitt er á hreinu: Verði mönnum á að bakka upp eigin atvinnurekstur með persónulegri ábyrgð, þýðir ekki brauðs að biðja varðandi skattalega ívilnun.

Sigurjón Bjarnason      

Birting skattskrár

Á þrítugsaldrinum var ég gerður formaður í nýstofnuðu íþróttafélagi. Félagið var fátækt, fátt um aðgengilega tekjustofna. Ýmis uppátæki voru valin til fjáröflunar. Meðal þeirra var útgáfa og sala skattskrár allra skattgreiðenda í þeim hreppi Egilsstaðahreppi.

Ekki man ég betur en að viðtökur hafi verið góðar. Allavega seldist upplagið og framtakið mæltist almennt vel fyrir. Einhverjir urðu þó til að draga úr því að þessari starfsemi yrði framhaldið, þó að skattskrá landsmanna væri þá opinbert plagg og aðgengileg allan ársins hring á skattstofunni.

Og árin liðu. Raddir urðu háværari um að hætta birtingu skattskrár og að lokum var hún gerð aðgengileg fáa daga eftir útkomu, síðan einkamál embættismanna.

Ég hef reynt að setja mig inn í hugarheim þeirra sem telja misráðið að gefa almenningi kost á vitneskju um framlög einstakra skattþegna í sameiginlega sjóði. Algengustu rökin eru þau að talsvert er um áætluð gjöld, álagningin því ekki fyllilega marktæk, og að tryggustu lesendum gangi til forvitni og jafnvel illgirni. Upplýsingarnar séu notaðar gegn fólki sem ekkert hefur til saka unnið. Upplýsingar í skattskránni séu persónulegar sem „leynt skuli fara“.

Ég vil á hinn bóginn eiga kost á því að vita hvaða hópi ég tilheyri, hverjir greiða félagsgjöld í þá sjóði sem ég er aðili er að og hversu ríkulegt framlag kemur frá hverjum og einum. Mig varðar hins vegar ekkert um fjárhag eða afkomu, fjárfestingar eða lántökur samborgara minna, enda koma slíkir hlutir ekki fram í skattskránni. Þar á móti tel ég aðildargjöld samborgara minna að okkar ágæta samfélagi ekki einkamál. Og eftir umræðu þessara daga og vikna sýnist mér andrúmsloftið í íslensku samfélagi ekki verða hreinsað fyrr en gamli siðurinn verði tekinn upp, upplýsingar um álagðan tekjuskatt og útsvar gerð aðgengileg allan ársins hring. Hitt er svo spurning hvort að rétt er að gefa þær út í bókarformi og dreifa í hús.

Og hvað forvitni og illgirni okkar ágætu samborgara líður, verðum við bara að búa við það hvort sem okkur líkar betur eða verr. Slíkir finna sér alltaf leiðir til að þjóna lund sinni og væri okkur skammar nær að innleiða kurteisi og virðingu fyrir hag og einkamálum samborgara okkar, frekar en að láta einhverja elítu um vitnesju sem varðar almannahag.

Sigurjón Bjarnason. 

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum