SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Rýnt í nána framtíð

Nú styttist í hina árlegu uppgjörs- og skattavertíð og þá rétt að nefna nokkur atriði sem gott er að vita.


Tekjuskattur

Álagning opinberra gjalda einstaklinga verður birt mánuði fyrr en venjulega eða um mánaðamót júní-júlí. Þrátt fyrir þetta er ekki gert ráð fyrir því að frestur fagaðila styttist, breytingin er fyrst og fremst rökstudd með tækniframförum og betra aðgengi skattsins að upplýsingum og hefur hvorttveggja flýtt mjög fyrir vinnslu innsendra framtala.
Þá mun kærufrestur verða lengdur upp í 60 daga og verður nærri ágústlokum eins og verið hefur.
Þetta mun koma fram í árlegri auglýsingu fjármála- og efnahagsráðherra að fengnum tillögum ríkisskattstjóra auk þess sem kærufrestur skv. 112. grein tekjuskattslaga breytist í 60 daga úr 30.
Við athugun á „bandorminum“ svonefnda sem afgreiddur var á Alþingi nú rétt fyrir jól kemur fátt fram sem breytir skattalegri meðferð tekna utan hefðbundnar breytingar á skattstiga. Þó ber að nefna að aðeins 50% af leigutekjum af íbúðarhúsnæði verða nú skattlagðar í stað 70% áður og að nú verður óheimilt að jafna barnabótum á móti skuldum við ríkissjóð.  


Virðisaukaskattur

Stóra breytingin á næsta ári verður sú að ferðaþjónusta, þar með talið farþegaflutningar sem ekki teljast reglubundnar almenningssamgöngur, verður virðisaukaskattskyld. Við þá breytingu þurfa þeir sem eingöngu hafa selt skipulagðar ferðir og farþegaflutninga að skrá sig á virðisaukaskattskrá frá 1. jan. 2016 og þeir sem hafa rekið virðisaukaskattskylda starfsemi meðfram ferðaþjónustu geta nú nýtt innskatt að fullu þar sem þeir teljast ekki lengur með blandaða starfsemi. Þess skal þó geta að eftir er að leysa úr ýmsum markatilvikum og búast má við að framkvæmdin verði að mótast í í einhverja mánuði, jafnvel í nokkur ár eftir að breytingin tekur gildi.


Ársreikningalög

Enn hefur breytingafrumvarp um ársreikningalög ekki verið lagt fram á Alþingi, en það hefur verið í undirbúningi á annað ár. Reikna má með því að það líti dagsins ljós í byrjun þingtíma eftir áramót og boði ýmsar róttækar breytingar.

Í tilskipun Evrópusambandsins er reiknað með að lögin verði sniðin eftir smærri félögum og að sett verði sérákvæði um félög yfir ákveðnum stærðarmörkum. Þessu er öfugt farið í gildandi ársreikningalögum og undirbúningshópurinn gerir ekki ráð fyrir breytingu á því.

Undirritaður er þeirrar skoðunar að þessu hefði þurft að breyta þar sem stærstur hluti íslenskra félara teljast örfélög og smærri félög (líklega yfir 95%) en félög yfir þeim stærðarmörkum eru tiltölulega fá. Aðalefni ársreikningalaga eftir breytingar mun því miðast við mjög lítinn hluta félaga en sérákvæðin varða stærsta hlutann.

Margrar annarrar nýlundu má vænta í frumvarpinu svo sem heimild til þess að fela ríkisskattstjóra að senda ársreikningaskrá samandreginn ársreikning byggðan á innsendu framtali, sjóðstreymi verði ekki lögbundinn hluti af ársreikningi o.m.fl.

Þá er í tillögum starfshópsins ákvæði um stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 sem leggst á þegar frestur er liðinn til að skila inn ársreikningi, en sem lækkar síðan um 60% ef skilað er innan tveggja mánaða og um 40% ef skilað er innan þriggja mánaða.

Þetta á þó allt eftir að koma í ljós einnig hvort gildistími breytinga verður frá og með reikningsárinu 2016 eða hvort lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017.

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir  | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum