SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Að borga skatt eftir dauðann

Hingað til hefur undirritaður staðið í þeirri meiningu að við gjaldþrot væri rekstri slitið, lífi lokið. Aðeins eftir að ganga formlega frá skiptum eigna og skulda milli þeirra sem eiga kröfur á þrotamanninn eftir settum reglum og viðkomandi lagagreinum. Eignir mínar dugðu ekki fyrir skuldum og þeir óheppnu sem ekki fengu greitt, bera tjón sitt óbætt. Ég er gjaldþrota „dauður“ og verð ekki sóttur, nema mér takist með dugnaði eða klókindum að afla fjár til að gera upp við mína ágætu lánveitendur síðar meir.

Þegar um lögaðila er að tefla þýðir gjaldþrotið venjulega lok starfsemi, endanlegan „dauða“ skattaðilans. Kröfuhafa geta ekki vænst endurgreiðslu umfram það sem kemur til úthlutunar úr búinu. Í undantekningartilvikum rekur búið atvinnustarfsemi og þá með samþykki kröfuhafa í því skyni að vernda eignir sínar, verjast frekara tapi. Gilda þá almennar reglur um skattlagninguna á meðan.

Nú hefur ríkisskattstjóri birt í áliti sínu nr. 2/2015 alveg nýjan flöt á málinu, sem sagt: Ég á að borga skatt af því sem ríkisskattstjóri kallar „eftirgefnar kröfur“ í þrotabú. Ef ég á kröfu í einhvern drullusokk eða glæpafyrirtæki sem hefur orðið gjaldþrota þá hann að skila tekjuskatti af því fé sem hann hefur „grætt“ á gjaldþrotinu áður en hann skilar restinni til mín.

Í kíkti á þetta tímamótaálit og sá þar ýmislegt fróðlegt. Tvennt vakti þó einkum athygli mína.
  1. Ríkisskattstjóri telur þær kröfur sem tapast við gjaldþrot vera „eftirgefnar“ eða „niðurfelldar“. Nú er það svo að ég sem kröfuhafi felli hvorki niður né gef eftir kröfur á hendur þrotabúi. Ég lýsi þeim í búið og fái ég þær ekki að fullu greiddar á ég fullan rétt að fá þær greiddar síðar við endurreisn eða endulífgun þrotamanns. (Sem reyndar er afar ólíklegt að gerist.)
  2. Skilji ég álit ríkisstjóra rétt telur hann að eignaraðild breytist ekki við gjaldþrot og falli tilvikið því ekki undir síðari málslið 8. tl. 1. mgr. 31. gr. tskl. Fyrir mér er þetta nýlunda. Hingað til hef ég staðið í þeirri trú að við gjaldþrot hafi þrotamaður verið sviftur forræði yfir búi sínu og geti ekki talist eigandi þess lengur. Við taki skiptastjóri í umboði þeirra sem kröfur eiga í búið og fyrri eigandi hefur þá hvorki eignarhald né atkvæðisrétt.

Sem sagt: Þrotabú er ekki leyst undan því að greiða skuldir sínar, það á einfaldlega ekki fyrir þeim og er slitið þegar eignum þess hefur verið ráðstafað upp í kröfur. Fljótt á litið sé ég ekki að uppgjör eigna og skulda skapi tekjuskattstofn.

Kannske ósambærileg en ekki með öllu óskyld hliðstæða:

Við andlát gildir erfðaréttur. Eignum er úthlutað til erfingja að frádregnum erfðafjárskatti. Eigi hinn látni ekki fyrir skuldum fara venjulega fram opinber skipti, búið kallað skuldafrágöngubú og erfingjar ekki skyldugir að standa skil á skuldum hins látna. En hvorki hann né þeir eru krafðir um skatt af því sem þeir hafa „grætt“ á óspilunarsemi hins látna. Það var hann sem naut góðs af óráðsíu sinni og fer með allar kvaðir af þeirri breytni sinni í gröfina.

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir  | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum