SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Að tapa eða græða

Einn af föstum liðum við reikningsskilastörf er kynning á niðurstöðu bókhalds gagnvart eiganda eða framkvæmdastjóra fyrirtækis.

Með fullri virðingu fyrir stétt atvinnurekenda er skilningur þeirra á þýðingu þessarar niðurstöðu æði misjafn.
Afkoma fyrirtækja á Íslandi er upp og ofan og viðbrögð ráðamanna fyrirtækja við ótíðindum í rekstri oft ekki skynsamleg.
Á starfsævi minni hafa samtöl mín við einstaka viðskiptavini stundum hljóðað svona í einföldustu mynd:

Ég: Fyrirtækið þitt er að tapa peningum.
Hann: Það getur ekki verið.
Ég: Jú, gjöldin eru hærri en tekjurnar, sem þýðir tap.
Hann: Víst er ég að græða.
Ég: Ég byggi niðurstöðu mína á þeim gögnum og upplýsingum, sem þú hefur lagt fram.
Hann: Þú hefur misskilið eitthvað eða gert vitleysu í bókhaldinu.
Ég: Allir reikningar stemma og eignakönnun hefur verið gerð í samráði við þig.

Niðurstaða svona samtala er náttúrlega engin. Reikningsskilamaðurinn finnur til vanmáttar síns við að koma viðskiptavininum í skilning um það hvernig afkoman er og viðmælandinn er áfram viss í sinni sök.
Hinn vestræni fjármálaheimur hefur síðustu áratugina snúist á sveif með þeim, sem neita að horfast í augu við raunveruleikann. Má það merkja á tvennu:
  1. Í stað þess að horfa svo mjög á rekstrarreikning hefur í auknum mæli verið litið til sjóðstreymis. Það gefur eins og menn vita yfirlit yfir uppruna og ráðstöfun fjármagns. Í sjóðstreymi er ýtt til hliðar reiknuðum kostnaði (afskriftum) og skuldum sem koma síðar til gjalda (gengis- og verðbótahækkun langtímaskulda).
  2. Fundið var upp hugtakið markaðsverðsreikningsskil og notað í stað kostnaðarverðsreikningsskila, einkanlega í félögum sem störfuðu á opnum hlutabréfamörkuðum.

Mergurinn málsins er sá að í bókhaldi er fjárhæðum raðað í tvo dálka, debet og kredit. Horfum sérstaklega á kreditdálkinn. Þar eru annars vegar skráðar tekjur, hins vegar hækkun skulda. Í báðum tilfellum erum við að fá peninga en munurinn liggur í því að tekjur eru endanleg eign þeirra sem afla, skuldahækkun kemur hins vegar til endurgreiðslu síðar.

Það að fá greidda peninga þykir eftirsóknarvert. Skammtímahugsunin segir að þarna hafi okkur áskotnast fjármagn til yfirráða. Gjalddagar skulda er síðari tíma áhyggjuefni.

Þetta er nákvæmlega sú hugsun sem allur inn vestræni fjármálaheimur er helsjúkur af. Íslenskum atvinnurekendum er því viss vorkunn.

Markaðsverðsreikningsskil byggja meðal annars á því að meta líklegt söluverð eigna í stað þess að bíða eftir að þær seljist og tekjufæra þá fyrst raunverulegan söluhagnað. Raunkostnaður og rauntekjur eru víkjandi á meðan markaðsverð fjármuna tekur völdin í reikningsskilunum. Tilgangurinn með þessu er að gefa hluthöfum rétta mynd af líklegu verðmæti hluta sinna. Gott og göfugt markmið en hefur í för með sér mikla áhættu ef efnahagslegt umhverfi tekur umtalsverðum breytingum.

Hrollvekja samtímans er ekki síst til komin vegna þess að menn hafa hætt að lesa rekstrarreikninga, þeir eru oft ekki upplífgandi lesning. Þess í stað viljum við vita hvað við höfum haft mikla peninga til ráðstöfunar á liðnu reikningsári. Þannig er oft hægt að búa sér til bjartari veröld. Menn hafa hætt að gera greinarmun á tekjum og skuldasöfnun (eða eignarýrnun). Hið þekkta hugtak EBIDTA (hagnaður fyrir vexti og afskriftir) er gjarna birt í stað raunverulegrar afkomu.

Þegar eignum er safnað án þess að gefa gaum að því að hluti þeirra er aðeins fenginn að láni tímabundið, stefnir í óefni. Því er nú svo komið sem komið er fyrir íslenskri þjóð. Öflugustu athafmenn hennar hafa nú um nokkurt skeið látið greipar sópa um almannafé í nágrannalöndum á meðan við sem álengdar stöndum erum látin ljúga góðæri upp á sjálfa okkur. Það er gert í þeirri trú að ekki skipti máli hvort að á kredithliðina sé skráð endanlega fengið fé eða annarra eignir, hverra eigendur munu vitja fyrr eða síðar.

Nú er komið til kasta eftirkomaenda að standa skil á skuldum forfeðranna. Það mun taka tíma og miklar fórnir, en með bjartsýni, jákvæðu hugarfari og ekki síst raunsæi munum við rétta úr kútnum. Á síðustu öld tók nokkra áratugi að komast úr örbirgð til álna og það mun taka svipaðan tíma á nýrri öld.

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir  | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum