SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Hæstiréttur og "ólögmætar úttektir"

Undirritaður er nú á útleið af sviði bókhalds og skattskila.

Margt hefur á dagana drifið og í starfinu hafa skipst á skin og skúrir eins og gengur.

Það sem mest skyggir á feril minn er hæstaréttardómur nr. 153/2012, þar sem ég var einfaldlega gerður að ósannindamanni gagnvart ágætum viðskiptavini, sem hafði látið sig henda að taka fé úr félagi sínu "með ólögmætum hætti", en ég ráðlagði honum endurgreiðslu samkvæmt skýrum lagaákvæðum og treysti ég því að endurgreiðslan þýddi lækkun tekjustofns eins og almennt gerist þegar endurgreiða þarf ofgreidd laun.

Stjórnvöld og dómstólar reyndust þar á öðru máli.

Á vordögum 2021 gerði ég grein fyrir afstöðu minni í þessu máli með persónulegu bréfi til þeirra hæstaréttardómara sem kváðu upp dóminn. Bréfið var að vísu sent í trúnaði, en þar sem ég hef engin andsvör fengið, og ég tel það eiga erindi á opinberan vettvang, leyfi ég mér að birta það hér með lesendum til fróðleiks (en trúlega til lítillar ánægju):

 

Til eftirtaldra dómara við Hæstarétt:

Markús Sigurbjörnsson,

Árni Kolbeinsson,

Gunnlaugur Claessen,

Ingibjörg Benediktsdóttir

Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Egilsstöðum 20. apríl 2021

Trúnaðarmál

Efni: Ofgreidd laun og afgreiðsla dómstóla. Í tilefni af dómi Hæstaréttar nr. 153/2012

Sá sem þetta ritar hefur starfað að bókhaldi, reikningsskilum og skattskilum meirihluta starfsævi sinnar, sem nú er senn á enda. Meðal samstarfsmanna minna hafa verið nokkrir endurskoðendur og lögfræðingar og undir lokin tók ég meistarapróf í skattarétti á Bifröst. Margt hefur á dagana drifið og margháttaða ánægju hef ég haft af starfinu, þó að stundum hafi skugga borið á. Samskipti mín við skattayfirvöld hafa verið talsverð og yfirleitt jákvæð. Þó hefur á stundum verið misjafn skilningur á málum, einkum þegar kemur að túlkun laga og reglna.

Fyrir þá sem vilja kynnast umfjöllun minni um skatta- og reikningsskilamál bendi ég á bloggsíðu mína www.skrifa.is/skattamal en þar hef ég ritað hugleiðingar mínar síðustu 15 ár. Bréf þetta er ætlað til lestrar þeim sem felldu dóm hæstaréttar nr. 153/2012.

 

Almennt um endurgreiðslu launa

Í rekstri ber það við að laun eru ofreiknuð, launþeginn fær meira útborgað en samningar kveða á um. Valda þar ýmist mistök eða þekkingarleysi launagreiðanda. Uppgötvist þessi ofgreiðsla á launagreiðandi rétt á endurgreiðslu úr hendi launþega. Gerist það oftast með frádrætti á síðari tímum, sjaldnar með beinni endurgreiðslu í peningum. Slíkar endurgreiðslur launa hafa þau áhrif að tekjuskattstofn er lækkaður, enda verða skattyfirvöld sjaldnast vör við slíkar leiðréttingar sem eiga sér oftast stað á sama ári og ofgreiðslan.

Að sjálfsögðu hefur ekki komið til álita að skattleggja hin ofgreiddu laun að fullu án tillits til endurgreiðslu, sjá þó hæstaréttardóm þann sem er kveikjan að bréfi þessu.

Nú er það svo að „lán“ einkahlutafélaga til eigenda sinna eru skilgreind í skattalegu tilliti sem „laun“ skv. 3. mgr. 1. töluliðar A-liðar 7. grein tekjuskatttslaga. Þá er samkvæmt 77. grein laga um einkahlutafélagalög skylt að endurgreiða slík „lán“ til félaganna, auk þess sem eiganda er skylt að bæta það tjón sem félaginu hefur hugsanlega verið bakað með hinni ólögmætu úttekt.  Er það í fullu samræmi við almenna skyldu til leiðréttingar á fyrri gerðum.

Undirritaður hefur stritað við bókhald, reikningsskil, ársreikningagerð og skattskil óteljandi félaga og einstaklinga undanfarna áratugi. Í barnaskap mínum hélt ég framan af (og held reyndar enn) að slíkar endurgreiðslur lytu sömu lögmálum og aðrar endurgreiðslur launa. Því miður ber það oft við að leiðandi eigendur félaga leiðast út í slíkar ólögmætar úttektir og veldur stundum óprúttni en oftar þekkingarskortur á reglunum. Nú er það svo að skattyfirvöld eiga erfitt með að fylgjast með slíkum fjárhreyfingum. Stafar það bæði af fjárskorti embætta en ekki síður af því að fjöldi félaga með takmarkaða ábyrgð er orðinn slíkur í landinu að líklega hefur landinn slegið þar heimsmet miðað við höfðatölu.

Málavextir, rök og túlkun lagaákvæða.

Það var á árunum 2005 til 2007 að Stefán Guðjónsson einn viðskiptavina minna hafði ítrekað tekið fé úr félagi sinu „með ólögmætum hætti“. Gerðist það þrátt fyrir ábendingar mínar um alvarleika málsins og að hann ætti að endurgreiða þessa skuld til félagsins. Benti ég á ákvæði einkahlutafélagalaga máli mínu til stuðnings, að öðrum kosti yrði hann að greiða tekjuskatt af úttektinni.

Á árinu 2007 fór hann að tilmælum mínum og gerði upp skuld sína við félagið. Taldi ég þá réttlætinu fullnægt, félagið hafði fengið fé sitt til baka og skattskylda eigandans (launþegans) fallin niður eins og gerist ævinlega þegar laun eru endurgreidd.

Þarna voru yfirvöld skattamála ekki á sama máli. Það stendur nefnilega hvergi í lögum að endurgreidd laun hafi yfirleitt nokkur áhrif á tekjuskattsstofn, jafnvel þó það sé almennt svo í framvkæmd.

Í löngu kærubréfi reyndi ég að koma eins víða við og mér var unnt og naut til þess aðstoðar ágætra kollega, meðal annars lögfræðinga og endurskoðenda. Í rökstuðningi mínum vitnaði ég meðal annars í álit meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að baki lögum nr. 133/2001, en með setningu þeirra var meðal annars bætt inn fyrrnefndum ákvæðum 3. mgr. 1. töluliðar A-liðar 7. greinar tekjuskattslaga. Í nefndarálitinu segir að „huga skuli að skattlagningu, þegar úthlutað sé fjármunum til eigenda í formi láns án þess, að burðir séu í reynd til endurgreiðslu fyrr en skattstjóri geri athugasemd.“ (Leturbreyting SB) Yfirskattanefnd og héraðsdómur skrá þessa umsögn í álitum sínum, en virðast ekki taka afstöðu til endurgreiðslumöguleikans.

Nú var það svo í því tilfelli sem hér um ræðir að minn viðskiptavinur hafði „burði til endurgreiðslu“ áður en en skattstjóri gerði athugasemd og hafði meira að segja gert upp skuld sína.

Þessi umsögn alþingismanna taldi ég að hefði þýðingu við vinnslu úrskurðaraðila og dómstóla, væri sem sagt fullgild lögskýring. Lagði ég áherslu á hana í kæru til yfirskattanefndar, kvörtun til umboðsmanns Alþingis og í málarekstri fyrir dómstólum. Enginn þessara aðila virðist hafa talið þessa tilvitnun skipta máli við afgreiðslu málsins, en að mínu viti var hún þvert á þennan ljósa vilja löggjafans. Hins vegar láðist mér að vísa til þeirrar almennu réttarvenju, sem felst í því að endurgreiðsla launa hefur lækkunaráhrif á tekjuskattstofn.

Dómurinn

Í byrjun verður að geta þess að með dómi Hæstaréttar var héraðsdómi snúið við. Héraðsdómari studdist við stjórnarskrárákvæði í niðurstöðu sinni og taldi ákvörðun ríkisskattstjóra brjóta í bága við þau. Get ég verið sammála því að sá dómur sé byggður á veikum grunni. Að öðru leyti vil ég hér eftir fara yfir forsendur Hæstaréttar með innfelldum athugasemdum mínum með breyttu letri.

Eftirfarandi kemur fram í forsendum dómsins: 

Svo sem fram kemur í fyrrnefndum lögskýringargögnum, sem gerð var grein fyrir í úrskurði yfirskattanefndar, var helsta markmiðið með setningu hinna sérstöku reglna 2. gr. laga nr. 133/2001 að stemma stigu við ólögmætri úthlutun fjár í formi láns úr félögum eins og hér um ræðir. (Menn stemma ekki stigu við neinu með lagasetningu. Engin athugun hefur verið gerð á því hvort slíkum brotum hefur fækkað frá lagasetningu, enda sýnist mér í starfi mínu fátt benda til þess). Eðli máls samkvæmt felur lánveiting ekki í sér varanlega yfirfærslu verðmæta. (Mikið rétt, en hvers vegna á þá að skattleggja hana?) Af framangreindu er ljóst að ekki var af hálfu löggjafans gert ráð fyrir að endurgreiðsla lána eins og hér um ræðir ætti að hafa áhrif á skattskyldu. (En hvað með álit meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar?)  Þótt notkun hugtaka í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 sé samkvæmt framansögðu um sumt hvorki hefðbundin né með öllu rökrétt verður að líta til þess að í dómaframkvæmd hefur löggjafanum verið játað víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða skattskyldu. (Nú þekki ég ekki „dómaframkvæmd“, en í þessu tilfelli er ég ósammála þeim skilningi að niðurstaðan byggist á vilja löggjafans. Hins vegar styðst dómurinn við vilja framkvæmdavaldsins, sem virðist þá hafa stöðu löggjafa í niðurstöðu hæstaréttar.)

Undirritaður hefur leitað álits nokkurra aðila á dómi þessum og fengið misjöfn svör. Einnig hafði ég hug á að gera rannsókn á meðferð sambærilegra mála erlendis og nánari greiningu á henni hérlendis. Mun vera möguleiki á að sækja um stuðning Norræna skattrannsóknasjóðsins til slíkrar rannsóknar, og leitaði ég meðal annars aðstoðar Lagastofnunar Háskóla Íslands, lögfræðings, löggilts endurskoðanda og höfundar einkahlutafélagalaganna frá 1994 við að vinna slíka umsókn. Eftir umræður féll Lagastofnun frá því að veita mér nauðsynlega faglega aðstoð, og þar sem ég var í krefjandi starfi við að þjóna viðskiptavinum mínum, hafði ég ekki tíma til að gera umsókn mína þannig úr garði að ég gæti notið faglegrar aðstoðar við frágang hennar. Hef ég ekki sinnt þessu máli nú í nokkur ár, en lít nú yfir farinn veg við starfslok og tel að nokkuð vanti upp á að málið sé fullunnið af minni hálfu, enda tel ég mig hafa verið aðila að því.

 

Notkun hugtaka í lagamáli.

Til rökstuðnings álitum sínum notuðu úrskurðaraðilar og dómstólar orðfæri, sem mér er vissulega framandi, þó að ég hafi verið flestum bókurum duglegri við að liggja yfir lagatextum í starfi mínu og skulu hér nefnd tvö dæmi:


Fortaksleysi

Hugtakið „fortakslaust bann“ er notað við túlkun dómstóla á ákvæðum 2. og 3. grein laga nr. 133/2001 þegar úttektir stjórnenda/eigenda voru gerðar skattskyldar sem laun. Þessi orðanotkun var talin gildur rökstuðningur fyrir skattskyldu. Leikmaður á erfitt með að átta sig á því hvaða gildi „fortaksleysi“ hefur í forsendum dóma eða túlkun á lögum, né hvenær það á við og hvenær ekki. Orðið „fortakslaust“, kemur mér vitanlega hvergi fram í lagatextum, enda sé ég ekki hvaða gildi það hefði þar.

Í málarekstrinum reyndi hins vegar aldrei á hvort að ákvæði 77. greinar ehfl., sem kveða á um skyldu til endurgreiðslu slíkra lána, séu „fortakslaus“ og væri fróðlegt að vita skýringu á því.

 

Úthlutun

Þetta orð er mikið notað í umfjöllun skattyfirvalda og dómstóla í þessu málið. Ég hef þó skilið orðið á þann veg að það þýði ákvörðun um ráðstöfun fjár. Útborgun er annað hugtak, sem þýðir að greiðsla fari fram. Þegar ráðandi aðili að einkahlutafélagi tekur fé úr sjóðum þess til eigin þarfa tel ég það ekki vera „úthlutun“, varla heldur útborgun. Rétta orðið væri úttekt eða öllu heldur „fjárdráttur“ og ættu þeir sem vinna á þessum vettvang, jafnt framkvæmdavald, dómstólar og löggjafi að láta hlutina heita réttum nöfnum þegar málin eru tekin til afgreiðslu. Gæti það orðið til að menn komist að réttari niðurstöðu og almenningur ætti auðveldar með að skilja innihald hennar.

 

Aðild mín að málinu og áhrif dóms hæstaréttar á störf bókara og endurskoðenda.

Það verður að segjast að dómur hæstaréttar kom mér, og líklega flestu fagfólki við reikningsskil, á óvart. Sjálfur gat ég ekki með góðri samvisku ráðlagt viðskiptavinum mínum að endurgreiða sín ólögmætu lán, sem auðvitað tíðkuðust eftir sem áður. Hefði ég séð þessi úrslit fyrir hefði ég auðvitað ráðlagt Stefáni Guðjónssyni að borga tekjuskatt af úttekt sinni. Það hefði ég gert ef í tekjuskattslögum hefðu verið skýr ákvæði um að slík endurgreiðsla hefði ekkert skattalegt gildi, sem ekki var raunin og er ekki enn. Að fengnum hæstaréttardómnum var ég hins vegar orðinn ósannindamaður í augum ágæts viðskiptavinar og er það enn.

Einhvers staðar las ég að í skattarétti giltu þær „meginreglur laga“ að skattalög ættu að vera „skýr og ótvíræð“ og að þau ættu að túlka „samkvæmt orðanna hljóðan“. Það verður svo annara að meta hvort það hafi verið gert með dómi hæstaréttar nr. 153/2012. 

Staðreyndin er sú að dómur sá sem hér er um fjallað hefur haft í för með sér breytt vinnubrögð margra þeirra sem vinna við frágang reikningsskila í landinu. Áður trúðu menn því að endurgreiðsla ólögmætra lána forðaði mönnum frá skattlagningu. Eftir að dómurinn gekk hurfu margir frá því að ráðleggja endurgreiðslu. Í stað þess var lögð til skattlagning, ýmist sem laun eða gjöf til viðkomandi stjórnanda. Þetta hefur haft þau óheillavænlegu áhrif að félögin standa eftir án þess að fá til baka það fé sem ranglega var frá þeim tekið. Oft eru úttektir þessar í ósamræmi við vinnuframlag og hefi ég hugsað til reikningsskilaráðs í því sambandi, en í álitum þess er því miður engin skilgreining á hugtakinu „laun“. Þrátt fyrir það hefur ríkisskattstjóri/skatturinn látið óátalið þegar „laun“ þessi hafi verið gjaldfærð í rekstri félagsins og er því hægt að líta svo á að endurgreiðsla hafi átt sér stað í formi vinnu. Getur það átt við í sumum tilfellum, en alls ekki öllum.

Þegar á allt er litið sýnist mér að umræddur dómur hafi fjölgað lögbrotum í landinu verulega í stað þess að „stemma stigu“ við þeim.

Því miður eru ennþá brögð að því að forsvarsmenn einkahlutafélaga hafa tekið sér fé úr fyrirtækinu framhjá launa- eða arðgreiðslum og stendur reikningsskilamaðurinn gjarna frammi fyrir því vandamáli þegar fyrir liggur bókhald liðins árs. Er þá of seint að bregðast við en viðskiptavininum bent á vandamálið. Stundum er fjárhag hans ekki þannig varið að auðvelt sé að greiða skatt af úttektinni. Í öðrum tilfellum er hugað að endurgreiðslu. Er það erfiðleikum bundið meðan dómur hæstaréttar stendur, gjarna bent á hann, en án þess að lausn finnist.

Í sérstakan reit á framtali lögaðila skal skrá skuld eiganda, sem getur reyndar verið lögmæt í vissum tilvikum. Til að fullnægja lagaákvæðum er talið rétt að greina frá hinni ólögmætu skuld í þeim reit og taka þar með afleiðingunum ef skatturinn gerir athugasemd.

Því miður verður að játa að í allt of mörgum tilvikum hafa menn fallið í þá freistni að „fela vandann“. Og ef vel er leitað eru felustaðirnir víða, svo sem

  1. a) að fella skuld við eiganda undir viðskiptakröfur.
  2. b) að telja skuldina með öðrum skammtímakröfum.
  3. c) að telja fjármagnið geymt hjá eiganda í formi peningaseðla og falli því undir handbært fé.
  4. d) að lækka einhverjar skuldir á móti, ef einhverjar eru.

Að sjálfsögðu eru þetta allt brot á reglum um bókhald og reikningssil. Þá er ótalin vinsæl leið, sem er sú að eigandinn taki prívat lán hjá banka rétt fyrir áramót, sem endurgreiðist strax á nýju ári. Þessu ráði er þó ekki hægt að beita ef eigandinn er ómeðvitaður þangað til kemur að reikningsskilum á nýju ári.

Það er langt frá því að sá sem hér ritar sé stoltur af störfum sínum síðustu ár, eiginlega má segja að starfsferill minn hafi orðið hálfgerður glæpaferill, svo meðvitaður sem ég hef verið um að hafa farið á svig við lagareglur. Svo vill til að ég hef verið í góðu sambandi við marga kollega mína, sem hafa staðið í nákvæmlega sömu sporum, þegar tilvikin eru þannig að ekki er hægt að bjarga málum á neinn veg annan er að brjóta reglur, þó flestum sé það þvert um geð.

Með því að girða fyrir möguleika á endurgreiðslu, sem þó er lögbundin í einkahlutafélalögum, er bókurum og endurskoðendum gert ókleyft að leysa slík mál þannig að talist geti í samræmi við lög.

Niðurlag

Það er von mín að framanritað auki skilning lesenda á þeirri stöðu sem stétt bókara og endurskoðanda er í eftir að umræddur dómur féll. Sjálfur hef ég enga tillögu um meðferð þessara mála, en á þá einlægu ósk bókurum og endurskoðendum til handa að þeir fái í framtíðinni skýrara lagaumhverfi um störf sín en nú blasir við, þannig að þeir verði ekki knúnir til óhappaverka, eins og núverandi ástand býður upp á.

Að lokum ítreka ég að ég tel ómaksins vert að ráðast í sérstaka rannsókn á stöðu þessara mála, ef það mætti verða til þess að leiða menn á gleggri slóðir í framtíðinni, því vegur réttlætisins í bókhalds- og reikningsskilamálum á Íslandi hefur verið afar vandrataður nú á seinni árum. Ég læt aftur á móti ósvarað þeirri spurningu hver ætti að hafa frumkvæði að slíkri rannsókn.

Virðingarfyllst.

____________________
Sigurjón Bjarnason

Selási 9, 700 Egilsstöðum

s. 848 3314, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir  | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum