SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Áritun án skoðunarskyldu

Ætli það séu ekki liðin fimmtíu og eitthvað ár síðan ég var fyrst kosinn endurskoðandi (það mátti heita það þá) einhverra félagasamtaka, sem ég taldist félagi að.

Til að tryggja vönduð vinnubrögð voru alltaf tveir kjörnir, sem ýmist höfðu samstarf eða skiptu með sér verkum við yfirferð bókhalds og athugun fylgiskjala. Stundum var litið í fundagerðarbækur og önnur tengd gögn.

Að verki loknu var samin áritun með eða án athugasemda, oft leiðbeiningar um hvað betur mætti fara í vinnubrögðum bókara.

Tímar liðu. Bannað er nú, að viðlögðum refsingum, að nefna sig endurskoðanda, nema hafa til þess tilskilda menntun og réttindi. Allt gott um það að segja. Það þýðir að þeir sem fylla stétt endurskoðenda þurfa að taka sér verulega hærri þóknanir, enda fylgir talsverður kostnaður menntun og við gerð þeirra staðla sem slíkir þurfa að styðjast við. Þar við bætist stöðug endurmenntun, sem útheimtir bæði tíma og peninga.

Ekki eru allir rekstraraðilar svo fjáðir að þeir hafa tök á að njóta þessarar ágætu þjónustu. Það var leyst með því að gefa „ómenntuðum“ einstaklingum kost á því að veita þessa þjónustu undir heitinu „skoðunarmenn“. Starf þeirra er þó líkt því sem áður tíðkaðist, tékkað á efnahag, stærstu hreyfingum í bókhaldi, athugun fylgiskjala og svo framvegis.

Árin hafa liðið og áratugirnir. Hlutverk þeirra sem árita reikningsskil sem endurskoðendur eða skoðunarmenn er þó hið sama, að gefa lesendum ársreikninga hugmynd um á hve traustum grunni þeir eru byggðir.

Það fer svo eftir ýmsu hvort félög (og nú er ég að tala um öll möguleg félög, allt frá almennum samtökum til allra þeirra tegunda sem þjóna atvinnulífinu) óska eftir því að bókhald þeirra sé (endur)skoðað með ofangreindum hætti, og mikill meirihluti félaga í atvinnurekstri er undanþeginn skyldu til endurskoðunar. Samt sem áður er skylt að velja svokallaða skoðunarmenn eða endurskoðendur við stofnun hvers félags. Undirritaður hefur lifað í þeirri trú að slík félög þurfi ekki að leita til þessara skoðunarmanna eða endurskoðenda, nema þegar stjórn ákveður að fá vissa staðfestingu á innihaldi ársreikninganna. 

Sjálfur sit ég uppi með kjör sem skoðunarmaður ýmissa félaga, flest frá fyrri tíð. Komið hefur fyrir að til mín er leitað með áritun. Stjórnendum þykir þetta þá stundum vera formsatriði, ég eigi að undirrita, bara af því nafnið mitt kom upp í síðustu fundargerð félagsins. Ekki veit ég viðbrögð kollega minna, en ég hef hafnað slíkri „þjónustu“, nema ég fái aðgang að bókhaldi og stöðu bankareikninga í lok reikningsárs. Að öðrum kosti legg ég ekki nafn mitt við reikningsskilin.

Nú bregður svo við að ársreikningaskrá krefst áritunar kjörinna skoðunarmanna/endurskoðanda á ársreikninga félaga sem ekki er skylt að kosta upp á slíka þjónustu árlega.  Slíkt hefur óhjákvæmilega í för með sér kostnað, sem ætti að vera óþarfur, sé ég að skilja ákvæði ársreikningalaga rétt. Þannig hefur ársreikningaskrá tekið sér vald til að kalla kostnað yfir félög og fyrirtæki sem ættu að vera undanþegin honum.

Hvort löggjafinn hefur haft það í huga þegar hann gerði síðustu breytingar á ársreikningalögunum verð ég að telja vafasamt og stefni að því að aflétta efasemdum mínum og annarra þar um.

Sigurjón Bjarnason.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir  | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum