SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Beneficial Owner.

Ég hef verið að reyna að skilgreina þetta enska hugtak, sem á Íslensku er látið heita „raunverulegur eigandi“

Nafnorðið „benefit“ þýðir samkvæmt minni fornu orðabók (1952) hagnaður. Beneficial owner ætti því að merkja „eigandi hagnaðar“.

Hátt í tvö ár hafa íslenskir þegnar þannig verið látið skilgreina sjálfa sig sem „eigenda hagnaðar“ ef þeir hafa valist til stjórnarsetu í ýmsum frjálsum félagasamtökum,.

Ef einhverjir leyfa sér að mótmæla, er hótað háum sektum, gott ef ekki fangelsisvist.

Nú  vita þeir sem til þekkja að þessu er öfugt farið, hin frjálsu félagasamtök, sem almennt eru rekin í þágu almannaheilla, njóta góðs af vinnuframlagi stjórnenda sinna, ekki öfugt. Um arð er ekki að ræða og þóknun fyrir stjórnunarstörf er fátíð.

Það er hægt að taka svo djúpt í árinni að heil þjóð hafi verið höfð að fíflum. Við sem sitjum í stjórnum göfugra félagasamtaka erum sögð eiga hagnaðarvon af rekstri þeirra. Sem er akkúrat öfugt, við fórnum hagsmunum okkar í þágu málstaðarins án þess að sjá neitt eftir því.

Mín stóra spurning er sú hvers vegna engum finnst þetta neitt skrýtið. Það er að minnsta kosti ástæða til þess að stjórnvöld skýri það fyrir heimskum almenningi hvers vegna þetta hugtak er látið ná til þeirra sem eru að fórna tíma og oft fjármunum, þegar það þýðir hið gagnstæða.

Mér er fullkomlega ljós tilgangur laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ég geri mér líka grein fyrir möguleikanum til að misnota þau samtök sem (kannski stundum í orði kveðnu) starfa í þágu almannaheilla.

Hins vegar fullyrði ég að þessi beiting laganna þjónar engan veginn tilgangi þeirra.

Og hvernig er þá hægt að koma í veg fyrir slíka misnotkun? má spyrja. Þá skal bent á eftirfarandi staðreyndir.

  • Félagasamtök sem á annað borð hafa kennitölu eru öll skráð í fyrirtækjaskrá.
  • Starfandi félagasamtök kjósa sér stjórn, venjulega árlega. Stjórnvöld hafa frjálsan aðgang að upplýsingum um formennsku og stjórnarsetu þegar henta þykir.
  • Þessi samtök eru almennt opin, ársreikningar birtir á aðalfundum.
  • Ársreikningarnir eru unnir samkvæmt bókhaldi, sem á að vera aðgengilegt stjórnvöldum, ef eftir því er leitað.
  • Ársreikningarnir eru yfirfarnir af félagskjörnum endurskoðendum eða skoðunarmönnum, sem árita þá með áliti sínu áður en þeir eru lagðir fyrir félagsfundi.

Úrræði stjórnvalda gætu verið af tvennum toga.

  • Opinber rannsókn, ef grunur vaknar um misferli.
  • Reglubundið eftirlit, úrtakskönnun á bókhaldi (þarf ekki að vera hátt hlutfall) þar sem kannað er hvort bókhaldi og ársreikningagerð hefur verið haga samkvæmt reglum félagsins eða landslögum

Í stað þessara nærtæku úrræða, er alþjóð látin lifa í þeirri trú að stjórnarmenn í slíkum samtökum sitja þar til að græða því. „Gjafir eru yður gefnar“ var einhvern tíma sagt.  Eru þeir sem vinna að framkvæmd laganna um aðgerðir gegn peningaþvætti einhverju nær, þó að til sé skrá yfir þá sem sitja í stjórnum allra þessara göfugu samtaka? (Eftir er svo að vita hversu nákvæm hún verður þegar fram líða stundir.) Að vísu stendur í lögunum að skylt sé að tilkynna sérhverja breytingu strax og hún hefur átt sér stað. Mér þætti gaman að sjá það í framkvæmd, hvað þá opinbert eftirlit með stjórnarskiptum í hverju einasta félagi á Íslandi!!!!!

Því miður hef ég grun um að þetta sé ekki einsdæmi um útúrsnúninga þeirra sem hafa það að atvinnu sinni að „íslenska“ erlend hugtök með því að gera þau að öfugmælum og beita þeim síðan gegn saklausri alþýðu af slíku vægðarleysi að sektarkröfur geta náð mörg hundruð þúsundum króna auk annarra refsiaðgerða.

Verra er að heilu starfsgreinarnar hafa sóað tíma sínum í að þjóna stjórnvöldum með því að forða viðskiptavinum sínum frá meiri háttar kárínum. Vissulega atvinnuskapandi, en væri ekki hægt að hugsa sér einhverja nytsamari iðju fyrir allt það hæfileikafólk sem starfar við bókhald og endurskoðun á Íslandi?

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir  | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum