SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Bókari skal vera skoðunarmaður eigin bókhalds

Ég tel mig ekki hafa yfir miklu að kvarta í lífinu, það hefur gengið sinn gang og margt af því sem ég hef tekið mér fyrir hendur hefur gengið vel, annað miður.

Áratugum saman hef ég meðal annars unnið við bókhald, sem innifelur almenna bókfærslu, uppgjör, ársreikningagerð og skattskil.

Fyrir ca 15 árum réð ég mig til forystu í nýju bókhaldsfyrirtæki í samstarfi við stórt endurskoðunarfyrirtæki. Þá töldu samstarfsmenn mínir í endurskoðunarfyrirtækinu að gott væri að hafa bókhald í öðru félagi en hjá endurskoðendum. Þetta þótti mér vera góð latína og var tilbúinn til starfsins á þessari forsendu.

Skömmu eftir að þetta samstarf hófst tóku endurskoðendurnir að stórefla bókhaldsþjónustu á sínum vegum. Hafði ég ekkert um það að segja, þeir stjórna sínu fyrirtæki.

Starfsferill minn við bókhald spannar nú hátt í 50 ár og allan tímann hef ég forðast að láta velja mig sem „skoðunarmann“ þeirra félaga sem ég eða mitt samstarfsfólk förum með bókhaldið fyrir. Hef ég gjarna mælt með öðrum, oftast mínu ágæta samstarfsfélagi, sem er meðal fremstu endurskoðunarfélaga landsins.

Þeir ársreikningar sem ég hef unnið fyrir mína viðskiptavini bera mína áritun, þar sem ekkert segir um endurskoðun, enda félög viðskiptavinanna gjarna undanþegin skyldu til endurskoðunar.

Í haust bar svo við að ársreikningaskrá hafnaði innsendum ársreikningi. Ástæða: „Áritun ógild. Ekki gerð af kjörnum endurskoðanda/skoðunarmanni.“ Nauðugur lét ég viðkomandi félag velja mig sem skoðunarmann til þess að þessi ágæti viðskiptavinur þyrfti ekki að greiða 600.000 kr. í sekt fyrir vanskil ársreiknings.

Þessi afgreiðsla ársreikningaskrár bendir til annars af tvennu:

  • a) að sá sem valinn er skoðunarmaður félags skuli jafnframt sjá um bókhald þess, að minnsta kosti þann hluta sem snýr að ársreikningsgerð
  • b) eða að bókari fyrirtækja skuli jafnframt eiga heimtingu á því að gerast skoðunarmaður eigin bókhalds.

Ja, undarlegur er andskotinn!

Hef ekki kynnt mér tilhögun slíkra mála erlendis en á Íslandi virðist staðan vera sú að bókari skuli vera eftirlitsmaður með sjálfum sér og skoðunarmaðurinn skuli hafa hönd í bagga með þeirri vinnu, sem hann á að hafa eftirlit með.

Ef út af þessu er brugðið er ársreikningur metinn ómarktækur af þeim sem taka hann til opinberrar birtingar.

Sigurjón Bjarnason.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum