SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Höfundarréttur bókara og skyldur skoðunarmanns

Sagan er um bókara sem hefur ráðið sig til félags án þess að á hann séu lagðar skyldur skoðunarmanns eða endurskoðanda.

Bókarinn vinnur sitt starf af samviskusemi, kynnir sér reglur um reikningshald og kappkostar að fara eftir þeim. Yfirmenn hans eru stjórn félagsins og framkvæmdastjóri eftir atvikum.

Hluti af starfssviði hans er að semja ársreikning fyrir félagið. Byggir bókarinn ársreikninginn á því bókhaldi sem hann hefur sjálfur fært og fylgir reglum sem birtar eru í lögum um ársreikninga.

Félaginu er ekki skylt samkvæmt ársreikningalögum að láta félagskjörinn endurskoðanda eða skoðunarmann yfirfara bókhald eða ársreikning og stjórn þess treystir bókaranum til að ljúka verkinu, enda unnið í nánu samstarfi við hana.

Stjórn félagsins felur bókaranum að skila ársreikningunum til þar til bærra stjórnvalda.

Stjórnvaldið hafnar ársreikningnum. Ástæða: Áritun skoðunarmanns eða endurskoðanda vantar.

Með höfnun þessari er stjórnvaldið að krefjast þess að aðili, sem hvergi hefur komið nærri bókhaldi félagsins áriti ársreikning sem byggður er á því. Gefinn er kostur á því að bókarinn verði endurskoðandi eða skoðunarmaður bókhalds sem hann hefur sjálfur unnið. Stjórnvald leggur til að félagið haldi félagsfund þar sem slíkt kjör skuli fara fram.

Verði farið þessum fyrirmælum er bókarinn sviptur sjálfsögðum höfundarrétti, og félaginu gert skylt að skila ársreikningi sem annað hvort er

  • áritaður af skoðunarmanni eða endurskoðanda sem hvergi hefur komið nálægt bókhaldi félagsins, eða það sem verra er
  • áritaður af skoðunarmanni bókhalds sem hann hefur sjálfur unnið og ætti því að vera vanhæfur til að yfirfara.

Nú er svo komið í réttarframkvæmd að verði einstaklingi það á að árita eigin verk (ársreikning) án þess að vera kjörinn skoðunarmaður eða endurskoðandi, verður afurð hans hafnað á opinberum vettvangi. Jafnframt er annar aðili kallaður til áritunar án þess að hann viti endilega mikið um hvað málið snýst.

Spurningar vakna um tilgang þessarar tilhögunar:

  • Telja stjórnvöld þetta stuðla að auknum áreiðanleika reikningsskila?
  • Hafa komið upp dæmi þar sem bókarar hafa með áritun sinni valdið félaginu tjóni eða gefið hinu opinbera rangar eða villandi upplýsingar?
  • Félagið fellur ekki undir endurskoðunarskyldu samkvæmt ársreikningalögum. Því er þá krafist áritunar skoðunarmanns eða endurskoðanda?
  • Er notandi ársreiknings betur settur með áritun aðila sem hvergi hefur komið nálægt gerð hans en hins sem þekkir gjörla á hvaða grundvelli hann er byggður?
  • Hver er réttur höfundarréttur bókarans?
  • Hver er réttur hans til starfsins, sem hann hefur unnið af trúmennsku í þágu yfirmanna, en verður nú að setja í annarra hendur, gangist hann ekki undir það að gerast skoðunarmaður eigin bókhalds?
  • Hver er réttur félagsins til að velja þann einstakling sem það treystir til að vinna reikningsskil sín og ársreikning óháð því hver kjörinn hefur verið til endurskoðunar sömu reikningsskila?
  • Er félaginu skylt að kalla til áritunar félagskjörinn endurskoðanda eða skoðunarmann, án þess að hann kanni hvað liggur að baki henni?
  • Eða er því skylt að ráða þann sem kjörinn hefur verið endurskoðandi eða skoðunarmaður til þess að vinna bókhald þess?
  • Nú kemur upp trúnaðarbrestur í garð bókarans sem jafnframt er kjörinn skoðunarmaður. Verður þá félagsstjórn að kaupa þjónustu ytri aðila til að ganga úr skugga um réttmæti bókhalds og ársreiknings?
  • Öll stjórnvöld hljóta að vinna að almannaheillum. Á hvern hátt er almenningur betur settur með tilhögun líka þessari?

Ekki er krafist svara við spurningum þessum, en þó þykir undirrituðum framanritað gefa tilefni til að varpa þeim fram og væri ekki verra að fá viðbrögð þeirra sem kunna svör við einhverjum þeirra.

Sigurjón Bjarnason.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir  | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum