SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Úr sameignarfélagi í einkahlutafélag

Ákvæði 2. mgr. 53. greinar laga um tekjuskatt hljóðar svo:

“Ef sameignarfélagi … er breytt í hlutafélag þannig að eigendur í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir eignarhluta sína í félagi því sem slitið var, þá skal þessi breyting ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigendur sameignarfélagsins eða félagið sjálft. Við slíka breytingu skal hlutafélagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum sameignarfélagsins.”

Ákvæði þetta er sambærilegt við ákvæði 56. greinar sem heimilar formbreytingu einkarekstrar í einkahlutafélag án skattalegra áhrifa, enda færast allar kvaðir og öll réttindi yfir í hið nýja félag.

Slík breyting getur komið sér vel þar sem einkahlutafélög bera lægri tekjuskattsprósentu en sameignarfélög og ef fyrirhugaðar fjárfestingar eru fjármagnaðar með hluta af hagnaði félagsins.

Undirritaður hefur reynslu af því að nýta fyrrgreindu heimildina án vandræða, ný kennitala einkahlutafélags fékkst í byrjun árs og sameignarfélagið tæmdist um leið, en þurfti þó að skila skattframtali næsta árs og þarnæsta, það síðara reyndar án hreyfinga.

Á síðari tímum er þetta þó ekki eins einfalt mál og áður. Á árinu 2007 voru sett ný lög um sameignarfélög nr 50/2007. Í 41. grein laganna um „framkvæmd skipta“ er meðal annars að finna ákvæði um innköllun krafna og tveggja mánaða frest til hennar. Jafnfram heimilar greinin áframhaldandi rekstur “að því marki sem æskilegt er með hliðsjón af uppgjöri eigna félagsins og skiptum þess”.

Ákvörðun um slit sem tekin er við áramót getur því ekki tekið gildi fyrr en í marsbyrjun vegna lögboðins frests til innköllunar.  Fyrr getur nýtt einkahlutafélag ekki yfirtekið eignir og rekstur eða fengið kennitölu þar sem það er stofnað með yfirtöku hreinna eigna sameignarfélagsins við slit. Nýtt einkahlutafélag sem stofnað er á grunni sameignarfélagsins fæst ekki skráð fyrr en slit hins síðarnefnda eru frágengin. Svo virðist sem formbreytingin sé óframkvæmanleg á sama hátt og um yfirtöku einkareksturs væri að ræða skv. 56. grein, en þá gildir efnahagur við árslok sem stofnefnahagsreikningur nýs einkahlutafélags.  

En hvað ef ákvörðun um skipti verður tekin í október miðað við formbreytingu um áramót?

Í fljótu bragði sýnist það vera lausnin, en þó vaknar lokaspurningin ef sameignarfélagið á að halda fullum rekstri til áramóta. Hvernig skal fara með þær kröfur sem myndast á hendur félaginu á þessum tveim síðustu rekstrarmánuðum? Þarf að hefja nýtt innköllunarferli vegna þeirra? Kannski er innköllunarskylda við slit ekki jafn „fortakslaus“ eins og ríkisskattstjóri orðar það gjarna í túlkun sinni.

Hjáleið?: Ef litlar sem engar eignir finnast í sameignarfélaginu gætu eigendur sameignarfélagsins fært reksturinn yfir á eigin kennitölur sem hefðu reksturinn með höndum a.m.k. í eitt heilt almanaksár. Að því búnu stofnað tvö (eða fleiri) félög upp úr einkarekstri samkvæmt 56. grein tekjuskattslaga.  Enn síðar færi svo fram samruni tveggja einkahlutafélaga. Virðist ansi löng og dýr krókaleið og tilgangslaus ef væntanlegur hagnaður er ekki hugsaður til fjárfestinga í rekstrinum. 

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum