SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Húsaleigutekjur og skerðing bóta.

(Hvað er tekjuskattstofn?)

Við sem vinnum við framtalsgerð viljum halda því fram að niðurstöður á tekjusíðum sé hinn eini og sanni tekjuskattstofn.

En á því eru undantekningar, eða hvað?

Á blaðsíðu 3 í einstaklingsframtali koma fram fjármagnstekjur, sem skattlagðar eru um 22% til tekjuskatts. Í lið 3.7 skal telja fram tekjur af útleigu húsnæðis og í aftari dálki eru þær lækkaðar um 50% (helming) og þar af reiknaður tekjuskattur. Nú gætu menn haldið að þá sé fundinn stofn til tekjuskatts.

Stofn til tekjuskatts einstaklinga er ákvarðaður í II. og III. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, tekjur í fyrri kaflanum, frádráttur frá þeim í seinni (svona í stórum dráttum). Í frádráttarkaflanum er hins vegar ekkert að finna um þessa lækkun húsaleigutekna áður en skattur er lagður á.

En hvar er þá skýringu að finna?

66. grein laganna lýsir skattstiga manna í allmörgum liðum. Þriðja málsgrein þessarar greinar kveður á um álagningarprósentu af fjármagnstekjum. Þar má finna eftirfarandi ákvæði: „[Þó skal ekki reikna tekjuskatt skv. 1. málsl. af heildarvaxtatekjum að fjárhæð [150.000 kr.] 8) á ári hjá manni og [50%] 9) af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis [sem nýtt er til búsetu leigjanda og fellur undir húsaleigulög]. 10)4) „

Rökin að baki þessu lækkunarákvæði eru að mínu viti ljós. Með þessu er komið til móts við íbúðareigendur vegna kostnaðar við rekstur eignanna, svo sem fasteignagjöld og tryggingar, viðhald og annað sem eðlilega fylgir slíku eignarhaldi, og þessi kostnaður er metinn til lækkunar á tekjuskattstofni.

Víkur nú sögunni til Tryggingastofnunar og til laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þar segir í 16. grein að til tekna teljist tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt að teknu tilliti til frádráttarákvæða í 28. grein tilgreindra liða í 30. og 31. grein. Sú lækkun tekjuskattstofns til skattlagningar, sem lýst er hér að ofan er ekki talin með.

Eins og kunnugt er skerðast bætur almannatrygginga samhliða hækkun annarra tekna. En þar sem ekki er vísað til þessa ákvæðis 66. greinar tekjuskattslaga kemur það ekki til álita við útreikning bóta. Ellilífeyrisþegi fær því skerðingu sem nemur öllum húsaleigutekjum burtséð frá þeim kostnaði sem fylgir þessari tilteknu tekjuöflun.

Á mannamáli: Bætur almannatrygginga skerðast að fullu á móti leigutekjum, burtséð frá því sem kostar að afla þeirra.

Eftir stendur spurningin hvort niðurstaða bls 3 á skattframtali teljist vera tekjuskattstofn.

Til að flækja málið má benda á að skattleysismörk vaxtatekna er ekki sýnd á framtalseyðublaði, þó að þau séu tilgreind í sömu málsgrein og lækkun húsaleigutekna til skatts.

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum