SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Er GAMMA toppur á ísjaka?

Að sjálfsögðu er ég sekur um að hafa gleypt í mig það sem fréttamenn höfðu fram að færa í fréttaskýringum Kveik í hinu íslenska ríkissjónvarpi að kvöldi, þann 24. mars 2020.

Innihaldið er kannski ekki ljóst fyrir öllum sem fylgdust með og út af því má leggja á mismunandi vegu.

Málið snertir mig persónulega þar sem ég er félagi í þeim lífeyrissjóði sem hrapallega var hlunnfarinn sem kaupandi í viðskiptum með félag, sem hafði veifað reikningsskilum sem reyndust að öllu leyti haldlaus.

En minn hlutur er þó algert aukaatriði. Heldur hinn slæmi grunur um að fjárhagsupplýsingar úr hinu íslenska atvinnu- og viðskiptalífi séu ekki alltaf sem haldbestar.

Og ástæðurnar eru að mínu viti einkum tvær:

  • a) Þeir sem vinna bókhald fyrir fyrirtæki landsmanna, stór eða smá, eru stundum beittir ofríki eigenda með einum eða öðrum hætti. Þeir fá ekki alltaf réttar upplýsingar, fá gögn til bókunar sem standast ekki skoðun og það sem verst er, eru fengnir til þeirra óhæfuverka að eiga þátt í að framreiða falskar upplýsingar. Sumir stjórnendur fyrirtækja, einkum smárra og meðalstóra, lifa samkvæmt kjörorðinu „ég á þetta, ég má þetta“ og þá er bókarablókinni vissast að gera eins og henni er sagt.
  • b) Stétt manna sem ber hið lögverndaða heiti ENDURSKOÐENDUR yfirfara bókhald, setja upp ársreikninga og staðfesta þá með áritun sinni. Þar með ætti réttmæti upplýsinganna að vera staðfest.
    En er það svo?
    Það vita þeir sem að þessum málum vinna að áður en endurskoðandi leggur nafn sitt við ársreikninginn lætur hann viðskiptavininn, oftast framkvæmdastjóra félagsins, undirrita svokallað staðfestingarbréf. Þar er staðfest að allar þær upplýsingar sem endurskoðandi hafi fengið séu réttur, þær séu tæmandi um hag félagsins og að hann hafi ekkert að fela sem hugsanlega geti breytt meginniðurstöðum ársreikningsins. Með bréf þetta í höndunum staðfestir endurskoðandinn að ársreikningurinn sé „í öllum meginatriðum“ réttur og „gefi glögga mynd“ af afkomu félagsins og hag þess í lok reikningsársins. Og er þar með orðinn „ábyrgðarlaus í athöfnum sínum“ eins og segir á einum stað í stjórnaskránni okkar.

Og hvernig getur nú almenningur brugðist við ástandinu?

Í fljótu bragði séð er ekkert hægt að gera, bara vita hvernig við högum upplýsingagjöf úr okkar atvinnulífi. Að vilja breyta háttum þessum er ekki vinsælt umræðuefni og fáir sem búa yfir nægri þekkingu til að kryfja það til mergjar.

En ef vilji væri fyrir hendi væri til dæmis hægt að

  • a) vernda hinn samviskusama bókara með því að gefa honum kost á að leita réttar síns út fyrir fyrirtækið ef á að hafa hann til óhæfuverka.
  • b) gera endurskoðendur í auknum mæli ábyrga fyrir áritunum sínum.
  • c) láta eftirlitsstofnun á vegum ríkisins ráða hæfa einstaklinga til að gera úrtakskannanir á bókhaldi fyrirtækja sem valin eru af handahófi burtséð frá atvinnugreinum, stærð eða áritunum. Úrtakið þarf ekki að vera stórt en hefði örugglega mikinn fælingarátt gagnvart þeim hafa valdið ótrúverðugleika í atvinnulífi okkar um alllangt skeið.
En meðan ekkert er gert megum við búast við því að horfa á efnahagsreikninga þar sem hálfbyggðar byggingar (eða bara lóðir) eru metnar sem fullbyggð hús, eignarhlutar í dótturfélögum gróflega ofmetnir og viðskiptavild eignfærð þó að félagið hafi verið rekið með tapi í áravís og enginn sé líklegur kaupandi. Við eigum það sem sagt áfram á hættu að ársreikningarnir geti í verstu tilfellum bara verið pappírsins virði þó að eignir umfram skuldir sýnist vera einhverjir milljarðar.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum