Eignarhald almannaheillasamtaka.
Eins og þjóð veit starfar í landinu mikill fjöldi félagasamtaka þar sem fólk tekur sig saman um að vinna að málefnum, undantekningarlaust til gagns fyrir menningu og þjóðlíf allt. Opinberlega ganga félög þessi undir heitinu „almenn félagasamtök“ og mörg þeirra eru skráð í fyrirtækjaskrá hvert með sína kennitölu og aðrar grunnupplýsingar.
Seint verður ofmetið allt það góða starf sem unnið er á þessum vettvangi eða talin öll þau þjóðþrifamál sem hin frjálsu félagasamtök standa fyrir.
Hvað eignarhald snertir eru eignir þeirra óskipt sameign félagsmanna og afraksturinn rennur allur til þeirra málefna sem skráður tilgangur segir til um samkvæmt samþykktum. Félagsfundir kjósa stjórnir og aðra embættismenn til takmarkaðs tíma í senn oftast eitt ár eða til fárra ára. Kjörnir stjórnarmenn eiga ekkert meira í eignum félagsins en hinn óbreytti félagsmaður. Hins vegar hvílir á þeim sú ábyrgð að haga starfinu í samræmi við tilgang félagslaga.
Þetta er rifjað upp í tilefni af því að opinber stofnun í skjóli löggjafans hefur nú knúið stjórnarmenn þessara þörfu stofnana til að játa ranglega á sig eignarhald á eignum þeirra og rekstri. Þar með hafa fjöldi landsmanna látið leiðast til að játa á sig að eignarhald á eignum sem þeir hafa í raun mjög takmörkuð yfirráð yfir.
Til að kóróna rangindi þessi hefur ríkisskattstjóri nú hótað öllum þessum almannaheillasamtökum sem ekki sinna kalli hans refsingu sem nemur vænum fjárhæðum pr. dag.
Ekki er að efa að stjórnvaldinu gengur gott til með aðförum þessum, en hvernig væri nú að einhver í forystunni færi nú að hugsa áður en lengra er haldið?
Sigurjón Bjarnason