SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Dæmisaga úr bókhaldinu

Eigandi einkahlutafélags kemur að máli við bókarann sinn og hefur meðferðis reikning stílaðan á félagið yfir útigrill upp á 350.000 kr.

„Viltu gjaldfæra þetta og innskatta í bókhaldinu“, segir hann.

Bókarinn veit að gripurinn nýtist ekki í rekstrinum, en mun verða á heimili eigandans án þess að félaginu skíni nokkuð gott af, hvað þá að það varði tekjuaukningu. Bókarinn þekkir líka reglur um gjaldfærslu og innsköttun.

En hann er undirmaður, eigandinn ræður og rekur fyrirtækið undir kjörorðinu „ég á þetta og ég má þetta“. Bókarinn á ekki annars úrkosta en að hlýða, enda nánast engar líkur á því að upp komist af hálfu þeirra sem hlut eiga að máli, hins almenna skattborgara.

Félagið er að öðru leyti vel rekið og skilar reglubundið jákvæðum virðisaukaskattskýrslum.

Dæmið hér að ofan er ekki einsdæmi, langt frá því. Og fjárhæðin er lág miðað við önnur dæmi sem heyrst hafa. Bókarar sem mótmæla og vilja fara eftir reglum eiga í vök að verjast.

Háttsettur embættismaður hjá ríkisskattstjóraembættinu tjáði mér nýlega að alllangt væri síðan að reglubundnum úrtakskönnunum á bókhaldi rekstraraðila hafi verið hætt. Ástæða: Sáralítið kom út úr þeim, aðeins fundust villur sem kölluðu á breytingar í ca 8% tilvika.

Undirritaður leyfir sér að hafa þá skoðun að 8% sé hátt hlutfall og ekkert yfir núllinu sé viðunandi. Auk þess er horfinn sá fælingarmáttur sem fækkaði verulega bókhaldsbrotum af þessu tagi.

Ríkisskattstjóri hefur hins vegar tekið upp stranga skoðun á öllum gjaldfærslum þegar innskattur er umfram útskatt á virðisaukaskattskýrslum. Vissulega þarft framtak, en þar er líka slegið margt vindhöggið.

Rafrænt eftirlit og samkeyrsla er mikilvægur þáttur í skatteftirliti. En á meðan engin viðleitni er höfð til að rannsaka annað það sem að baki ársreikninga liggur er hætt við að þeir sem búa yfir einhverjum brotavilja, hvað þá einbeittum, gangi frjálslega um eigur annarra þegar þeir færa bækur sínar til stuðnings ársreikningum og skattframtölum ár hvert.

Sigurjón Bjarnason.

 

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir  | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum