SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Bújarðir í ættareigu

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þegar bændur eldast vilja þeir sjá afrakstur erfiðis síns lenda í góðum höndum. Margir telja þá jarðirnar best komnar í eigu erfingja, sem oftast eru reiðubúnir til viðtöku.

Að foreldrunum látnum er þá eignin orðin skipt milli erfingja, sem geta verið frá einum upp í 10-15 einstaklinga, jafnvel fleiri.

Ýmis form hafa verið notuð til að halda utan um slíkt eignarhald, helst eru það einkahlutafélög, frjáls félög, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, stundum sameignarfélög og í sumum tilfellum er eigninni einfaldlega skipt í arfshlutföllum og telja eigendur þá sinn hlut til eignar beint á skattframtali. Verður þá að gera samkomulag um kostnaðar- og tekjuskiptingu og einhver úr hópnum sér um þá hlið mála.

Oftar en ekki koma upp samskiptavandamál þegar frá líður. Hinir eftirlifandi niðjar telja sig hafa misjafnan hag af eignarhlutnum og geta þá risið úfar meðal eigenda, sem jafnframt eru náskyldir innbyrðis. Sumir vitna gjarna í orð forfeðranna og líta á þau sem lög sem öllum ber að fara eftir.

Sá sem þetta ritar hefur því miður orðið vitni að illvígum deilum nákominna ættingja þar sem hagsmunir eru misjafnir, og það sem verra er, skilningur á viðhorfum hvers annars æði takmarkaður.

Af reynslu minni sýnist mér eldra fólk gera afkomendum sínum hæpinn greiða með ráðstöfunum af þessu tagi. Fjölskylda sem sýnist samheldin við ævilok foreldra dreifist fljótlega, búseta verður víða, möguleikar á nýtingu viðkomandi fasteignar misjafnir og hætt er við að viðhald verði vanrækt til skaða. Og þegar til lengri tíma er litið og önnur, þriðja og ef til vill fjórða kynslóð tekur við, er yfirleitt komið í óefni. Óhjákvæmilega kemur þá til eigendaskipta, einhverjir niðja hafa hugsanlega selt meðeigendum sinn hlut, en eftir stendur eign sem í raun enginn hefur yfirráðarétt yfir. Þá hafa dæmin sannað að eina leiðin til að leysa vandann er að krefjast uppboðs til slita á sameign. Það er þrautalending, ferli sem er bæði langt og flókið og hefur oft sársaukafullan aðdraganda fyrir ættingjana.

Undirritaður hefur gjarna vikist undan ráðgjöf á þessu sviði sem öðrum, en ef að dánarbú sitja uppi með bújarðir eða aðrar fasteignir, teldi ég skynsamlegast að slíkar eignir séu boðnar til sölu áður en skiptum lýkur. Þeir ættingjar sem hug hafa á að eignast eignina geta þá gert tilboð á markaðsforsendum, söluverðið rennur inn í búið sem gerir skipti þess mun auðveldari.

En fyrir okkur sem eldri erum er óneitanlega viturlegra að koma eignum okkar í verð áður en við hverfum yfir móðuna miklu. Þannig spörum við afkomendum okkar örugglega öll þau vandræði sem skapast af óskiptri sameign á síðari tímum.

Sigurjón Bjarnason.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum