SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Hrunið og reikningsskilareglurnar

Undirritaður tróð sér inn í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands í gær og hlýddi á fyrirlestra þeirra Vilhjálms Bjarnasonar fjárfestis og Stefáns Svavarssonar endurskoðanda í fundaröðinni ALDREI AFTUR sem Samtök sparifjáreigenda standa fyrir.

Mesta athygli mína vakti ræða Stefáns sem fjallaði um það hvernig eigið fé í bönkunum var hækkað með innborgunum í formi verðlausra eigna fyrir hrun. Var eigið fé hækkað sem þessu nam en eignin færð á eignahlið, en hún var oft á tíðum skuldabréf á hluthafa eða þriðja aðila án tryggingar eða einungis tryggt með hlutabréfinu í bankanum.

Þessi aðferð var tíðum staðfest af endurskoðendum sem töldu að þannig saminn ársreikningur gæfi „glögga mynd“ af stöðu félagsins. Benti Stefán á ýmislegt í reikningsskilareglum og lögum um ársreikninga og bókhald sem segir að í slíkum tilfellum hefði við frágang ársreiknings átt að lækka eigið fé í stað þess að telja slíkar „greiðslur“ til eigna og innborgaðs hlutafjár.

Sem sagt: Hin trausta staða bankanna fyrir hrun var sýndarveruleiki staðfestur með áritun endurskoðenda. Þá vakti hann sérstaka athygli á því að enginn hefði verið kærður fyrir brot á innlendum lögum um reikningsskil sem styðjast í mörgu tilliti við erlenda staðla, sem gilda skulu á alþjóðavettvangi.

Ekkert kom fram í máli Stefáns eða Vilhjálms sem benti til að vinnubrögðum endurskoðenda hefði verið breytt í þessu efni eftir hrun en þó minnt á að reglur hafi verið hertar stórlega og stéttin því líklega aðgætnari við undirritun ársreikninga síðan.

Við útgöngu mína af þessum fjölmenna fyrirlestri fékk ég þá tilfinningu að kjörorðið ALDREI AFTUR gæti auðveldlega breyst í spásögnina: ÖRUGGLEGA AFTUR.

Reykjavík 9. maí 2018

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum