SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Sérálit um auðlindagjald

Umræða um veiðigjald gengur fjöllum hærra og atvinnugreinin sjávarútvegur kvarta undan álagningu 2017, sem miðast við afkomu ársins 2015. Reiknað er með frekar rýru ári í ár, en aftur var árið 2015 heldur hagstætt.

Sjávarútvegsráðherra telur að búast hefði mátt við hækkun í ljósi góðs árs 2015. Hins vegar veit ég ekki til þess að veiðigjald sé framreiknað almennt í reikningsskilum útgerðarfyrirtækja, enda hygg ég að sá útreikningur yrði háður ýmsum fyrirvörum og endanleg ákvörðun í höndum framkvæmdavalds tveim árum síðar.

Nú er það svo að undirritaður hefur haft efasemdir um réttmæti sérstaks gjalds á þessa tilteknu atvinnugrein í krafti þess að hún er að nýta náttúrulega auðlind. Málið er að það eru ekki allir að hagnast á nýtingu náttúrulegra auðlinda. Þar má til dæmis nefna ýmsar greinar landbúnaðar, sem varla geta talist miklar mjólkurkýr fyrir eigendur sína.

Í framhjáhlaupi má líka nefna aðrar auðlindir sem ekki eru náttúrulegar, heldur er umhverfi viðkomandi atvinnugreina gert hagstætt af löggjafanum og öðrum þeim sem stýra efnahagslegu umhverfi. Þar má nefna rekstur fjármálastofnana, tryggingafélaga og fleiri slíkra, en afkoma þeirra má teljast nokkuð trygg og fátt bendir til annars en að svo verði a.m.k. í náinni framtíð.

Spurningin er hvort að slík fyrirtæki ætti ekki líka að greiða auðlindagjald, þó að auðlindin sé ekki náttúruleg heldur sköpuð af mannavöldum.

Til að jafnræðis sé gætt milli atvinnugreina sýnist mér því einfalda leiðin vera sú að „auðlindagjald“ verði einfaldlega reiknað sem álag á tekjuskatt fyrirtækja sem hagnast yfir ákveðnu marki, ef til vill sem hlutfalli af veltu.

Svo getum við farið út í umræðuna um verðmætin í kvótanum, frjálsa framsalið og fleira, en geymum það til síðari tíma.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum