SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Sjálftaka

Á fyrstu árum mínum á vinnumarkaði vann ég í banka. Kunningjar mínir töldu að ég ætti þá greiðan aðgang að lánsfjármagni, en svo var nú aldeilis ekki. Bankastarfsmönnum var einfaldlega bannað að taka lán hjá þeim banka sem þeir störfuðu við. Annað varð að leita þyrfti maður að slá víxil, sem var algengasta lánsformið á þeim árum.

Svo liðu árin og ástandið í dag þekkjum við. Nú er enginn banki með bönkum nema hann hygli starfsfmönnum sínum á allan mögulegan hátt, lánveitingar ekki undanskildar (jafnvel án endurgreiðsluskyldu). Mest eru þó áberandi svokallaðir bónusar og kaupréttarsamningar þar sem starfsmönnum er ívilnað á margan hátt oft óháð afkomu fyrirtækisins sem þeir vinna hjá. Þetta telst mikilvægur þáttur í að efla atvinnulífið og á að gera menn jákvæða gagnvart vinnuveitendum sínum, svo þeir haldi tryggð við stofnanirnar.

Áður var þeim sem sýndu trúnað í starfi veitt stöðuhækkun með viðeigandi launaauka. Um lán var ekki að ræða. Sjálfur þurfti ég að leita til samkeppnisaðilans í byggðarlaginu, Sparisjóðs Fljótsdalshéraðs, þegar fyrsti bíllinn, Moskvits árgerð 1964, var færður á mitt nafn.

Frelsi fjármagnsins á síðari tímum hefur ekki hvað síst byggst á því að auka aðgengi starfsmanna og eigenda fyrirtækja að hagnaði og eignum vinnuveitenda. Hér hafa einkahlutafélög í einstaklingseigu sérstöðu þar sem enginn raunverulegur eftirlitsaðili getur fylgst með því hvernig aflafé þeirra er útdeilt eða ráðstafað. Vissulega gilda um það lög og reglur en framkvæmdin í raun ekki sýnileg öðrum en þeim sem hafa tögl og hagldir, nefnilega einstaklingnum sem á 100% eignarhlut í félaginu.

Í starfi mínu hef ég kynnst mörgum í þessari stöðu sem hafa kynnt sér þessar reglur og fylgja þeim út í æsar, en því miður virðast hinir vera fleiri sem hafa látið það vera eða kæra sig ekki um að fara eftir þeim.

Hér er komið að hinu vandasama og oft óvinsæla hlutverki bókarans. Bendi i hann viðskiptavini sínum á þessar tiltölulega einföldu reglur, er ekki víst að undirtektirnar verði jákvæðar. Þar sem ytra eftirlit er ósýnilegt (og kannski óframkvæmanlegt) er erfitt að sýna dæmi sem styðja sjónarmið hans. Hendi það, sem sjaldan skeður, að skattyfirvöld fyrir tilviljun komist að ólögmætri ráðstöfun fjár úr einkahlutafélagi, hefur bókarinn gengisfellt sig fyrir augum stjórnvaldsins og á því hvorki miskunn hjá því né viðskiptavini sínum.

Það styttist í að ferill minn á þessum vettvangi taki enda. Vanlíðan mín í starfi hefur farið vaxandi hins síðari ár af þessum sökum og óska ég þess innilega að eftirmönnum mínum verði gert auðveldara að leysa verkefni sín með hliðsjón af gildandi rétti en verið hefur.  Hvernig það má vera hef ég ekki ljósa hugmynd um en er eindregið þeirra skoðunar að samband stjórnvalda, hvort sem þau heita fyrirtækjaskrá, ríkisskattstjóri eða eitthvað annað, þurfi að vera miklu nánara við almenning en verið hefur hin síðari ár.

En eftir stendur spurningin: Því skyldu mínir ágætu viðskiptavinir ekki mega fara frjálslega með fé atvinnulífsins eins og æðstu fjármálastofnanir landsins? „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það“ stendur í Passíusálmum Hallgríms.

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum