SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Um ársreikninga smærri einkahlutafélaga

Gerð ársreikninga.

Til athugunar við upphaf uppgjörsvertíðar.

Af umræðu liðins árs og breytingum á ársreikningalögum, sem samþykktar voru á Alþingi í sumar mátti gjarna ráða að smærri einkahlutafélögum (örfélögum með heildareignum undir 20 millj. kr., hreinni veltu undir 40 millj. kr. og færri en þrem ársverkum) væri óskylt að semja ársreikninga yfir fjárreiður næstliðins árs. Átti þetta að auðvelda þeim lífið sem hafa valið þetta form fyrir atvinnurekstur sinn. Til að átta sig ögn á stöðunni og þar sem framundan er vinnutörn við skattskil og ársreikningagerð tók undirritaður sig til og tíndi saman nokkur ákvæði um ársreikninga í ýmsum lögum og reglum og fer samtíningur sá hér á eftir: 

  1. Einkahlutafélalög:
Eftirfarandi er upphaf 59. greinar: 
Aðalfund skal halda eftir því sem félagssamþykktir ákveða, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári og aldrei síðar en innan átta mánaða frá lokum hvers reikningsárs. Á aðalfundi skal leggja fram ársreikning og skýrslu endurskoðenda eða skoðunarmanna. [...] Á aðalfundi skal taka ákvörðun um:    
a. staðfestingu ársreiknings;    
[b. hvernig fara skuli með hagnað eða tap félagsins á reikningsárinu;
Einnig kemur eftirfarandi fram í 74. grein sömu laga: Einungis er heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. … 1)
Þá er að finna ákvæði í sömu lögum um að ársreikningar skuli lagðir til grundvallar í kafla nr. X1, Sérstakar rannsóknir og ef til vill víðar í lögum um einkahlutafélög.

B. Algeng ákvæði í samþykktum einkahlutafélaga.

Hvert einkahlutafélag starfar eftir settum eigin reglum, samþykktum, og er þar að finna ákvæði sem kalla á gerð ársreikninga. Dæmi:
Aðalfundur skal haldinn fyrir lok ágústmánaðar ár hvert. 
1)               Stjórn félagsins skal skýra frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári. 
2)           Ársreikningur ásamt athugasemdum endurskoðenda/skoðunarmanna skal lagður fram til samþykktar.

og

5. REIKNINGSHALD OG ENDURSKOÐUN

5.1.
Á aðalfundi skal kjósa löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til eins árs í senn.

 5.2.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn félagsins skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt fyrir endurskoðanda eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund samkvæmt gr. 3.2. samþykkta þessara.

C. Úr lögum nr. 145/1994 um bókhald:

Í lögum um bókhald er sérstakur kafli um ársreikninga. Telur kaflinn 14 greinar og hefst hann svo:
III kafli. Ársreikningar.
Reikningsár og undirritun.
22. gr. Þeir sem bókhaldsskyldir eru skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár samkvæmt lögum þessum enda séu ekki gerðar strangari kröfur í öðrum lögum. Ársreikningurinn skal a.m.k. hafa að geyma rekstrarreikning og efnahagsreikning, svo og skýringar eftir því sem við á. Ársreikningurinn skal mynda eina heild. [Reikningsárið skal vera tólf mánuðir og miðast við mánaðamót. Nýtt reikningsár hefst daginn eftir að fyrra reikningsári lýkur. Við upphaf eða lok rekstrar eða breytingu á reikningsári getur tímabilið verið skemmra eða lengra, þó aldrei lengra en fimmtán mánuðir. Reikningsári verður því aðeins breytt síðar að sérstakar aðstæður gefi tilefni til. Breytingin skal tilgreind og rökstudd í skýringum.] 1) Ársreikningurinn skal fullgerður og undirritaður eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsársins. Hann skal undirritaður af þeim sem ábyrgð bera á bókhaldinu, sbr. 5. gr. Hafi einhver, sem skyldur er til að undirrita ársreikninginn, mótbárur fram að færa gegn honum skal hann undirrita reikninginn með árituðum fyrirvara. Koma skal fram hvers eðlis fyrirvarinn er.

Nánari ákvæði er að finna í 23-35. grein um framsetningu ársreikninga, eignamat, endurskoðun og fleira. 

  1. Úr ársreikningalögum
Hér fara á eftir nokkur atriði úr ársreikningalögum eftir nýsamþykktar breytingar:

Samning ársreiknings.
3. gr. [Félög skv. 1. gr. skulu semja ársreikning í samræmi við lög þessi, reglugerðir og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á. [Sé ekki mælt fyrir um tiltekið atriði í lögum þessum eða reglugerðum skal fara eftir viðeigandi ákvæðum í settum reikningsskilareglum.]
1)] 2)


Úr 7. mgr. sömu greinar
[Í stað ársreiknings skv. 1. mgr. er örfélögum heimilt að semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit, byggð á skattframtali félagsins. Teljast slík rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit gefa glögga mynd af afkomu og efnahag félagsins í skilningi 20. tölul. 2. gr. Ársreikningaskrá skal gera örfélögum kleift, við rafræn skil til skrárinnar, að nota innsendar upplýsingar til ríkisskattstjóra til að semja rekstraryfirlitið og efnahagsyfirlitið. Ekki er skylt að skoðunarmaður yfirfari slík reikningsyfirlit. Ráðherra setur reglugerð um framsetningu rekstraryfirlits og efnahagsyfirlits og önnur atriði skv. 1. málsl. við beitingu 3. málsl.

Sérfræðingar og höfundar lagabreytinga hafa látið í veðri vaka að þar með sé smærri félögum ekki lengur skylt að gera ársreikninga, innsent skattframtal dugi til að fullnægja birtingarskyldu í ársreikningaskrá. Það ber þó að hafa í huga að allir lögaðilar eru bókhaldsskyldir og yfir þá ná ákvæði laga um bókhald, þar með talinn kaflinn um ársreikninga. Ennfremur er vandséð hvernig hægt er að gera grein fyrir fjárreiðum stórra eða smárra félaga á aðalfundum þeirra og öðrum vettvangi án þess að unninn sé áritaður ársreikningur, sem sýni að minnsta kosti, tekjur, gjöld, eignir og skuldir auk annarra mikilvægra fjárhagsupplýsinga.
Þar að auki er ekki svo að tekjuskattslög nr. 90/2003 hafi slakað á í þessu efni samanber eftirfarandi:

D. Ákvæði í lögum um tekjuskatt:

Upphaf 90. greinar um skattframtal hljóðar svo:

Skattframtöl.
90. gr. Allir, sem skattskyldir eru skv. I. kafla laga þessara, svo og þeir sem telja sig undanþegna skattskyldu skv. 4. tölul. 4. gr., skulu afhenda [ríkisskattstjóra]
1) skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður þar sem greindar eru að viðlögðum drengskap tekjur á síðastliðnu ári og eignir í árslok, svo og önnur atriði sem máli skipta við skattálagningu. Skýrslu lögaðila og einstaklinga sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal fylgja undirritaður ársreikningur [með sundurliðunum og skýringum]
2) í samræmi við ákvæði laga um bókhald eða eftir atvikum laga um ársreikninga, ásamt sérstakri greinargerð um skattstofna í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.


Niðurlagsorð

Vinna við bókhald og reikningsskil er unnin í þágu viðkomandi atvinnurekenda. Afrakstur þeirrar vinnu er meðal annars skil nauðsynlegra fjárhagsupplýsinga til skattyfirvalda. Þrátt fyrir að slakað sé á kröfum um birtingu ársreikninga svokallaðra örfélaga breytast innri þarfir þeirra ekki. 
Lögin um bókhald eru afgerandi hvað form ársreikninga snertir og mér vitanlega hefur engin umræða farið fram um breytingu á þeim.
Ekki er hægt að mæla með því að hinn almenni félagsmaður geri minni kröfur til reikningsskila en verið hefur.
Að lokum taka lög um tekjuskatt af allan vafa um að skattyfirvöld krefjast áfram undirritaðs ársreiknings með sundurliðunum og skýringum, enda hlýtur traust og réttlát skattlagning ávallt að byggja að greinargóðum fjárhagsupplýsingum af hálfu skattaðila.

Pistill þessi er settur saman af sjónarhóli þess sem er í þjónustu atvinnurekenda, bókara sem jafnframt annast ársreikningagerð og skattskil. Í fljótu bragði sé ég ekki að starf mitt minnki að umfangi við breytingu ársreikningalaga að öðru leyti en
  1. innsending ársreikninga örfélaga til ársreikningaskrár hverfur. Er það vissulega ánægjuefni en afar takmarkaður tímasparnaður, og

  2. hægt er að sleppa gerð sjóðstreymis við gerð ársreiknings. Það er þó sáralítill vinnusparnaður því almennt er þessi hluti ársreiknings fasttengdur við viðkomandi efnahagsliði og því oft sjálfsprottinn um leið og aðrir hlutar ársreikningsins liggja fyrir.
Væri fróðlegt að vita nánar um skoðanir eða væntingar þeirra sem að lagabreytingu þessari stóðu og hvort að unnið sé að frekari breytingum á lagaumhverfi þeirra sem annast bókhald og fjárreiður smærri einkahlutafélaga.

Leturbreytingar í textanum eru undirritaðs.

Sigurjón BjarnasonHAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum