SKRIFSTOFUÞJÓNUSTA AUSTURLANDS
Skrifstofuþjónusta Austurlands

Pistlasafn á bók.

Auk þess að hafa ritað pistla á þessa bloggsíðu undanfarin ár, hafa mér dottið í hug ýmsar hugleiðingar um óskyld mál, sem ég hef safnað í tölvu mína. Upp á síðkastið hefur hvarflað að mér að veita fólki þá þjónustu að fá aðgang að öllum þessum hugrenningum, sem eru orðnar á annað hundrað, fleiri og meiri að vöxtum en ég hafði áttað mig á óathuguðu máli. Því hefur orðið af því að koma frá sér safni þessu í bókarformi undir heitinu „Þungir skrifborðsþankar“.

Til hægðarauka fyrir þá sem vilja kynna sér efni einstakra pistla hef ég flokkað þá í sex meginflokka sem bera heitin: „Austurland“, „fjármál“, „hrunið“, „siður“, „skatturinn“ og „stjórnmál“. Sumt af þessum greinum hefur verið birt, aðallega í austfirskum fjölmiðlum, annað hefur aldrei komið fyrir almenningssjónir.

Þess skal getið að í skrifum mínum eru settar fram ýmsar kenningar sem skjóta skökku við ríkjandi viðhorf, Ætlast ég ekki til að menn séu mér sammála, svona almennt, heldur lesi þetta með opnum huga. Ef þetta verður til að víkka sjóndeilarhring lesenda þá er tilganginum náð.

Bókin er prentuð í takmörkuðu upplagi, en er samt komin í nokkrar bókabúðir, þar sem hún kostar 3.990 kr.

Hins vegar geta bloggvinir fengið hana beint frá forlaginu á kr. 3.500 með því að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og gefa upp nafn, heimili og kennitölu. Verður þá bókin send til viðtakenda og innheimt með bankakröfu eða látinn fylgja greiðsluseðill.

Sendingarkostnaður er innifalinn í verðinu.

Dæmisaga úr bókhaldinu

Eigandi einkahlutafélags kemur að máli við bókarann sinn og hefur meðferðis reikning stílaðan á félagið yfir útigrill upp á 350.000 kr.

„Viltu gjaldfæra þetta og innskatta í bókhaldinu“, segir hann.

Bókarinn veit að gripurinn nýtist ekki í rekstrinum, en mun verða á heimili eigandans án þess að félaginu skíni nokkuð gott af, hvað þá að það varði tekjuaukningu. Bókarinn þekkir líka reglur um gjaldfærslu og innsköttun.

En hann er undirmaður, eigandinn ræður og rekur fyrirtækið undir kjörorðinu „ég á þetta og ég má þetta“. Bókarinn á ekki annars úrkosta en að hlýða, enda nánast engar líkur á því að upp komist af hálfu þeirra sem hlut eiga að máli, hins almenna skattborgara.

Félagið er að öðru leyti vel rekið og skilar reglubundið jákvæðum virðisaukaskattskýrslum.

Dæmið hér að ofan er ekki einsdæmi, langt frá því. Og fjárhæðin er lág miðað við önnur dæmi sem heyrst hafa. Bókarar sem mótmæla og vilja fara eftir reglum eiga í vök að verjast.

Háttsettur embættismaður hjá ríkisskattstjóraembættinu tjáði mér nýlega að alllangt væri síðan að reglubundnum úrtakskönnunum á bókhaldi rekstraraðila hafi verið hætt. Ástæða: Sáralítið kom út úr þeim, aðeins fundust villur sem kölluðu á breytingar í ca 8% tilvika.

Undirritaður leyfir sér að hafa þá skoðun að 8% sé hátt hlutfall og ekkert yfir núllinu sé viðunandi. Auk þess er horfinn sá fælingarmáttur sem fækkaði verulega bókhaldsbrotum af þessu tagi.

Ríkisskattstjóri hefur hins vegar tekið upp stranga skoðun á öllum gjaldfærslum þegar innskattur er umfram útskatt á virðisaukaskattskýrslum. Vissulega þarft framtak, en þar er líka slegið margt vindhöggið.

Rafrænt eftirlit og samkeyrsla er mikilvægur þáttur í skatteftirliti. En á meðan engin viðleitni er höfð til að rannsaka annað það sem að baki ársreikninga liggur er hætt við að þeir sem búa yfir einhverjum brotavilja, hvað þá einbeittum, gangi frjálslega um eigur annarra þegar þeir færa bækur sínar til stuðnings ársreikningum og skattframtölum ár hvert.

Sigurjón Bjarnason.

 

Bújarðir í ættareigu

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þegar bændur eldast vilja þeir sjá afrakstur erfiðis síns lenda í góðum höndum. Margir telja þá jarðirnar best komnar í eigu erfingja, sem oftast eru reiðubúnir til viðtöku.

Að foreldrunum látnum er þá eignin orðin skipt milli erfingja, sem geta verið frá einum upp í 10-15 einstaklinga, jafnvel fleiri.

Ýmis form hafa verið notuð til að halda utan um slíkt eignarhald, helst eru það einkahlutafélög, frjáls félög, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, stundum sameignarfélög og í sumum tilfellum er eigninni einfaldlega skipt í arfshlutföllum og telja eigendur þá sinn hlut til eignar beint á skattframtali. Verður þá að gera samkomulag um kostnaðar- og tekjuskiptingu og einhver úr hópnum sér um þá hlið mála.

Oftar en ekki koma upp samskiptavandamál þegar frá líður. Hinir eftirlifandi niðjar telja sig hafa misjafnan hag af eignarhlutnum og geta þá risið úfar meðal eigenda, sem jafnframt eru náskyldir innbyrðis. Sumir vitna gjarna í orð forfeðranna og líta á þau sem lög sem öllum ber að fara eftir.

Sá sem þetta ritar hefur því miður orðið vitni að illvígum deilum nákominna ættingja þar sem hagsmunir eru misjafnir, og það sem verra er, skilningur á viðhorfum hvers annars æði takmarkaður.

Af reynslu minni sýnist mér eldra fólk gera afkomendum sínum hæpinn greiða með ráðstöfunum af þessu tagi. Fjölskylda sem sýnist samheldin við ævilok foreldra dreifist fljótlega, búseta verður víða, möguleikar á nýtingu viðkomandi fasteignar misjafnir og hætt er við að viðhald verði vanrækt til skaða. Og þegar til lengri tíma er litið og önnur, þriðja og ef til vill fjórða kynslóð tekur við, er yfirleitt komið í óefni. Óhjákvæmilega kemur þá til eigendaskipta, einhverjir niðja hafa hugsanlega selt meðeigendum sinn hlut, en eftir stendur eign sem í raun enginn hefur yfirráðarétt yfir. Þá hafa dæmin sannað að eina leiðin til að leysa vandann er að krefjast uppboðs til slita á sameign. Það er þrautalending, ferli sem er bæði langt og flókið og hefur oft sársaukafullan aðdraganda fyrir ættingjana.

Undirritaður hefur gjarna vikist undan ráðgjöf á þessu sviði sem öðrum, en ef að dánarbú sitja uppi með bújarðir eða aðrar fasteignir, teldi ég skynsamlegast að slíkar eignir séu boðnar til sölu áður en skiptum lýkur. Þeir ættingjar sem hug hafa á að eignast eignina geta þá gert tilboð á markaðsforsendum, söluverðið rennur inn í búið sem gerir skipti þess mun auðveldari.

En fyrir okkur sem eldri erum er óneitanlega viturlegra að koma eignum okkar í verð áður en við hverfum yfir móðuna miklu. Þannig spörum við afkomendum okkar örugglega öll þau vandræði sem skapast af óskiptri sameign á síðari tímum.

Sigurjón Bjarnason.

Hrunið og reikningsskilareglurnar

Undirritaður tróð sér inn í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands í gær og hlýddi á fyrirlestra þeirra Vilhjálms Bjarnasonar fjárfestis og Stefáns Svavarssonar endurskoðanda í fundaröðinni ALDREI AFTUR sem Samtök sparifjáreigenda standa fyrir.

Mesta athygli mína vakti ræða Stefáns sem fjallaði um það hvernig eigið fé í bönkunum var hækkað með innborgunum í formi verðlausra eigna fyrir hrun. Var eigið fé hækkað sem þessu nam en eignin færð á eignahlið, en hún var oft á tíðum skuldabréf á hluthafa eða þriðja aðila án tryggingar eða einungis tryggt með hlutabréfinu í bankanum.

Þessi aðferð var tíðum staðfest af endurskoðendum sem töldu að þannig saminn ársreikningur gæfi „glögga mynd“ af stöðu félagsins. Benti Stefán á ýmislegt í reikningsskilareglum og lögum um ársreikninga og bókhald sem segir að í slíkum tilfellum hefði við frágang ársreiknings átt að lækka eigið fé í stað þess að telja slíkar „greiðslur“ til eigna og innborgaðs hlutafjár.

Sem sagt: Hin trausta staða bankanna fyrir hrun var sýndarveruleiki staðfestur með áritun endurskoðenda. Þá vakti hann sérstaka athygli á því að enginn hefði verið kærður fyrir brot á innlendum lögum um reikningsskil sem styðjast í mörgu tilliti við erlenda staðla, sem gilda skulu á alþjóðavettvangi.

Ekkert kom fram í máli Stefáns eða Vilhjálms sem benti til að vinnubrögðum endurskoðenda hefði verið breytt í þessu efni eftir hrun en þó minnt á að reglur hafi verið hertar stórlega og stéttin því líklega aðgætnari við undirritun ársreikninga síðan.

Við útgöngu mína af þessum fjölmenna fyrirlestri fékk ég þá tilfinningu að kjörorðið ALDREI AFTUR gæti auðveldlega breyst í spásögnina: ÖRUGGLEGA AFTUR.

Reykjavík 9. maí 2018

Sigurjón Bjarnason

Höfundaráritun ársreikninga

Pistill þessi er ritaður í tilefni af breytingum á lagaumhverfi þeirra sem semja ársreikninga samkvæmt fyrirliggjandi bókhaldi í þágu þeirra sem bera ábyrgð á rekstri félaga og annarra lögaðila.

Í lögum um einkahlutafélög og um ársreikninga eru lítil félög og örfélög undanþegin skyldu til að fá áritun skoðunarmanna eða endurskoðenda.

Þeir sem starfa við bókhald slíkra félaga og annarra skattskyldra og undanþeginna félaga geta lýst vinnu sinni á eftirfarandi hátt.

  1. Unnið er bókhald samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.

  2. Stemmt er af við ytri gögn, svo sem yfirlit frá bönkum viðskiptavinum, opinberum aðilum ofl.

  3. Settur er saman ársreikningur svo sem skylt er samkvæmt lögum og samþykktum viðkomandi félaga.

  4. Auk ofangreinds eru unnin laun, gerðir sölureikningar og fleira eftir óskum og þörfum hvers viðskiptavina.

  5. Skattframtali er skilað á grunni bókhaldsins og ársreikningur sendur ársreikningaskrá.

Eins og gefur að skilja fer þessi vinna fram á ábyrgð kjörinna stjórna viðkomandi félaga, og annarra sem fara með fjárreiður félaganna. Hún er oft unnin af bókurum í verktöku eða starfsmönnum fyrirtækjanna.

Það er álit mitt að þrátt fyrir undanþágu þessa eigi allir eigendur og stjórnendur rétt á áritun þeirra sem vinna reikningsskil eigin félaga. Engin þaraðlútandi ákvæði er þó um það að finna í ofangreindum lögum. Til fróðleiks fyrir utanaðkomandi fer hér á eftir dæmigerð áritun þeirra sem unnið hafa ársreikninga á vegum Skrifstofuþjónustu Austurlands.

Til stjórnar og hluthafa í xxxxxx ehf.

Við höfum samið ársreikning XXXXXX ehf. fyrir árið XXXXX en hann hefur að geyma skýrslu stjórnar, rekstrarreikning, efnahagsreikning, yfirlit um sjóðstreymi og skýringar nr. 1-?.

Ársreikningurinn er unninn í umboði stjórnar félagsins, sem ber ábyrgð á efni hans. Hann er byggður á bókhaldi og öðrum gögnum félagsins ásamt upplýsingum frá stjórnendum þess. 

Við höfum skipulagt og hagað vinnu okkar í samræmi við viðurkenndar aðferðir við gerð árlegra reikningsskila.  Höfum við sannreynt stöðu á bankareikningum, kannað réttmæti viðskiptakrafna og skulda og unnið framsetningu ársreikningsins í heild. 

Við höfum leitast við að haga framsetningu ársreikningsins í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju og allar upplýsingar sem okkur eru kunnar og skipta máli koma fram í honum.

Staður og dagsetning

Undirritun höfundar.

Eins og kunnugir átta sig á er áritunin ekki ósvipuð áritun skoðunarmanna að innihaldi. Meginmunurinn er sá að ekki er vikið að því að bókhald hafi verið yfirfarið hvað þá endurskoðað, heldur er sá sem undirritar gerandinn og starfsmaður eða þjónustuaðili viðkomandi félags, ekki utanaðkomandi eftirlitsaðili.

Tel þetta vera í anda þeirra lagabreytinga sem tekið hafa gildi að undanförnu og ætti einnig að vera í takt við þann raunveruleika sem ríkir í atvinnurekstri landsmanna.

Sigurjón Bjarnason

HAFÐU SAMBAND

Ertu með spurningar eða verkefni sem þarfa að leysa?
Hafðu þá samband við okkur og við aðstoðum þig við að greiða úr vandanum.

Hafa samband

Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf | Fagradalsbraut 11 | 700 Egilsstaðir | S: 471 1171 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | kt: 671005-0740 | vsk nr: 88335

PES | Vefum & hönnum