Að endingu skyldi upphafið skoða.
Þann 1. Júní 1972 kvaddi ég öruggt starfsumhverfi í bankanum, og hóf störf við bókhald, bauð þjónustu mína á því sviði á vegum nýstofnaðs félags, Bókhaldsþjónustunnar Berg hf.
Þetta var nokkurs konar brautryðjendastarf á Egilsstöðum, en samt má ekki gleyma fyrirrennaranum, Ólafi Magnússyni, þeim eftirminnilega manni, föður Tryggva listmálara, sem hafði veitt þessa þjónustu á Egilsstöðum í nokkur ár. Mitt brautryðjendahlutverk fólst í því að vinna á bókhaldsvélum, en Ólafur hafði handskrifað allar sínar bókhaldsbækur með sinni fögru rithönd, sem oft vakti aðdáun okkar lítt skrifandi bókara, sem alist höfðu upp við að pikka á ritvélar og reiknivélar.
Fyrsti vinnustaðurinn var bílskúr í eigu Lilju Þórarinsdóttur að Lagarási 12 (sjá mynd). Þar var hvorki hátt til lofts eða vítt til veggja, og verður að játa að lítið vissi ég hvað ég var að fara út í, hafði fram að þessu sáralítið fengist við bókhald eða uppgjör smærri fyrirtækja. En í þau 50 ár sem síðan eru liðin hef ég kallað mig bókara.
Fátt tækja hafði ég til starfans, en félagið fjárfesti þó í notaðri Taylorix bókhaldsvél, sem hreppurinn hafði lagt til hliðar. Handskrifað bókhald var víkjandi um þetta leyti, en svokallað spjaldabókhald var að taka við, sem þótti mikil tækninýjung.
Verkefnin tíndust furðu hratt inn og ekki hafði ég lengi bjástrað við þessa þjónustu í bílskúrnum þegar verkefnin voru orðin næg til þess að hægt var að fjölga mannskap. Fyrsti samstarfsmaðurinn var Gísli Bjarnason, síðar endurskoðandi, og urðum við samstarfsmenn í nokkur ár.
Gísli hafði þá tekið stefnu á löggildingu og má segja að hann orðið andlegur leiðtogi minn, en hann hafði fengið innsýn í starfið á endurskoðunarskrifstofu í Reykjavík. Hann leiddi mig fyrstu skrefin um refilstigu reikningsskila og samskipta við skattayfirvöld, sem þá sneru fyrst og fremst að skattstjóranum á Egilsstöðum.
Þar var til svara Páll Halldórsson skattstjóri með hans starfsfólki. Koma fyrst upp í hugann Bjarghildur Sigurðardóttir og Bjarni Arthursson, sem var bekkjarbróðir Gísla frá Bifröst. Það kom fljótt í ljós að þörfin var knýjandi fyrir aðstoð við að svara bréfum „skattsins“. Bjarni var snjall við að gera góða grein fyrir athugasemdum skattstjóra. Bréfin hans voru forprentuð með fjórum reitum, gjöld og tekjur, eignir og skuldir. Í reitina handskrifaði hann þær breytingar sem skatturinn vildi gera á innsendu framtali, en þar sem rithönd Bjarna var ekki sú fegursta kom það oft í hlut okkar Gísla að „lesa í málið“, og semja svar þar sem við leituðumst við gæta hagsmuna okkar viðskiptavina. Þetta var mín fyrsta reynsla af bréfaskiptum við skattyfirvöld og hef ég viðhaldið þjálfun á því sviði allt til þessa dags.
Þetta var áður en hugtakið „reiknað endurgjald“ var fundið upp og kom fyrir að einstaklingar með rekstur sluppu algjörlega við útsvar, þar sem afskriftir og vextir sáu til þess að reksturinn varð „öfugur“. Kostaði þetta óvinsældir okkar hjá sveitaryfirvöldum, en við bentum bara á lagaákvæði og rétt þeirra sem stunduðu atvinnurekstur.
Þegar haustið nálgaðist sáum við að húsnæðið var alls ófullnægjandi, sem varð til þess að við fluttum okkur í „gamla pósthúsið“ að Kaupvangi 2 og vorum við leigjendur á neðri hæðinni. Það var þáverandi „kanslari“ S.S.A., Ingimundur Magnússon sem hvatti okkur til að koma í kompaní með sér og varaði samflot sambandsins og Bókhaldsþjónustunnar Bergs áfram eftir að við fluttum að Lagarási 8 og höfðu sambýli þar í nokkur ár.
Það er margs að minnast frá þessum árum, sem mér finnst að hafi verið bestu ár ævi minnar. Nokkra ágæta samstarfsmenn hafði ég í framhaldi af þessu og má nefna Bolla Ólafsson, Guðmund Jóelsson og Helga Gunnarsson og hefur vinátta þeirra varað allar götu síðan. Einnig lifir minningin um kvenfólkið, sem hamaðist á bókhaldsvélinni eða í vélrituninni. Ekki er ég viss um að ég muni þær allar eða röðina, en við sögu komu Edda á Miðhúsum, Ragnhildur Benediktsdóttir, Gugga í Hleinargarði, Sigríður Sigurðardóttir, Auður Egilson og örugglega er ég að gleyma einhverri.
Þá má ekki gleyma eigendum félagsins, Bókhaldsþjónustunnar Bergs hf., þeim Magnúsi Einarssyni, Birni Ágústssyni, Halldóri Hróari Sigurðssyni endurskoðanda og Sigurjóni Jónassyni þá fulltrúa bankastjóra, en þeir fylgdust með gangi mála og höfðu mun meiri reynslu að baki en ég. Halldór gaf okkur sérstaklega góðar leiðbeiningar, en hann var þá að ganga til liðs við nýstofnað endurskoðunarfyrirtæki fyrir sunnan, Endurskoðun hf., sem nú gengur undir nafninu KPMG.
Lengra ætla ég ekki að rekja bókaraferil minn, hann hefur verið bæði rykkjóttur og skrykkjóttur og ekki samfelldur þessi 50 ár sem síðan eru liðin, en mér þótti rétt að rifja þetta upp í tilefni dagsins.
Ef einhver af mínum gömlu félögum skyldu lesa þessar línur flyt ég þeim þakkir fyrir allt gamalt og gott og ekki síður kollegum mínum hér fyrir austan. Ég hef gert mér far um að líta á þá sem samstarfsfólk frekar en samkeppnisaðila, því oftar en ekki hefur samstarf við þá miðað að því að leysa mál í stað þess að skilja þau eftir án úrlausnar.
Megi ykkur öllum vegna vel í framtíðinni.
Sigurjón Bjarnason bókari.