Verðtryggingarsaga
Þessi saga byrjaði snemma á áttunda áratug síðustu aldar.
Undirritaður var að þreifa sig áfram á refilstigum bókarans.
Rekin var Bókhaldsþjónustan Berg, sem þjónaði smáfyrirtækjum og einstaklingum víða á Austurlandi.
Um þetta leyti voru lánastofnanir að byrja á því að veita verðtryggð lán. Ætli Iðnlánasjóður hafi ekki verið með þeim fyrstu.
Svo kom að því að ég lauk uppgjöri fyrir Sigurð Stefánsson sem þá átti og rak Röra- og steinasteypuna hf. á Egilsstöðum. Sigurður var afar glöggur rekstrarmaður og þegar hann hafði rýnt í ársreikninginn fór hann að spyrja leiðinlegra spurninga. Hvernig er þetta með lánið frá Iðnlánasjóðnum? Skuldin í efnahagsreikningum er ekki í samræmi við stöðu lánsins um áramót. Það tók mig ekki langan tíma að sjá að þetta var eitthvað galið. Mín byrjendamistök fólust í því að mér hafði láðst að gjaldfæra og skuldfæra hækkun eftirstöðva lánsins sem nam vísitöluhækkuninni. (Áður hafði maður einfaldlega fært afborgun til lækkunar skuldar og málið dautt.)
Ekki man ég hvort ég lagaði ársreikninginn hans Sigurðar, en eftirleiðis var þess gætt að efnahagur sýndi rétta skuldastöðu og vísitöluhækkun höfuðstóls gjaldfærð.
Allar götur síðan hefur gengið á með verðbólgutímabilum og eitt af fyrstu boðorðum reikningsskilamanna er að gæta að öllum verðbreytingum á langtímaskuldum og reyndar einnig langtímakröfum ef þær eru verðtryggðar. Sérstök reikningsskilaaðferð var fundin upp, kölluð verðbólgureikningsskil, og þá voru fastafjármunir færðir upp með verðlagi áður en afskrifað var og reiknuð svonefnd verðbreytingafærsla til að finna hjöðnun óverðtryggðra skulda og skammtímakrafna. Mismunurinn síðan gjaldfærður eða tekjufærður. Venjulegt fólk hafði engan skilning á þessum reikningskúnstum, enda voru þær lagðar niður þegar menn héldu að verðbólgan væri fyrir bí.
Víkur nú sögunni til nútímans.
Síðustu árin hefur ungt fólk fjárfest í íbúðarhúsnæði, sem að verulegu leyti er fjármagnað með lántöku til langs tíma. Alls konar tilboð eru í boði: Fastir vextir eða breytilegir, verðtryggður höfuðstóll eða óverðtryggður. Jafngreiðslulán (annuitet) eða jafnar afborganir.
Ekki veit ég hvað bankafólk hefur sagt við hina ungu „fjárfesta“, en hitt veit ég að nú, að fáum árum eftir lántökuna, er vaxtastig með allt öðrum hætti en það var við lántöku. Þriggja prósenta vextir af óverðtryggðum lánum hafa margaldast og nálgast nú tíu prósentin. Sem þýðir stórkostlega hækkun mánaðargreiðslna. Ekki má gleyma því að bankarnir lögðu ríka áherslu á að fólk stæðust hið ágæta „greiðslumat“ áður en af skuldsetningu varð. Það átti að tryggja full skil, nema mikið bæri út af.
Það er gömul saga og ný að þessi aðferð til að velja hæfa skuldara, greiðslumatið, hefur í fjölmörgum tilfellum verið byggð á sandi. Ástæðan er einfaldlega miklar sveiflur í íslensku atvinnulífi annars vegar og hins vegar er greiðslubyrði lána með öllu óútreiknanleg, þó að bankar bjóði upp á afar vandaðar lánareiknivélar.
Nú standa leikar þannig að þeir sem eru að guggna á greiðslubyrðinni eiga þann kost að lækka hana með því að færa höfuðstólinn yfir í verðtryggingu og verður mér þá hugsað aftur til Sigurðar Stefánssonar og lánsins hans. Munurinn er bara sá að nú finnst enginn bókari svo grænn að hann tékki ekki á verðbótum og höfuðstólsuppfærslu lána.
Almenningur er líka meðvitaður um það að verðtrygging höfuðstóls þýðir stöðuga hækkun skuldarinnar. (40 milljón króna lánið hækkar um fjórar milljónir á ári miðað við 10% verðbólgu). Litlar líkur eru á því að íbúðareignin hækki jafnmikið að markaðsvirði og því sér fólk hreinu eignina sína (eign umfram skuld) lækka stórum og hverfa með tímanum.
Valkostirnir eru því ekki glæsilegir. Tvöfalda eða margfalda mánaðarlega greiðslubyrði eða sjá eignina sína hverfa í skuldafen. Þetta er eins og að geta valið á milli þess að láta skjóta sig eða hengja.
Hvar endar þetta?
Tvisvar eða þrisvar um ævina hefur sá sem þetta ritar séð fólk missa íbúðir sínar unnvörpum til bankans síns og standa eftir nánast á brókinni. Margt bendir til þess að sú saga endurtaki sig í fjórða sinn, nema stjórnvöld og lánastofnanir finni nýja og manneskjulegri leið til að forða fólki frá eignamissi eða stórkostlega skertum lífskjörum.
Sigurjón Bjarnason