Félagaslátrun
Íslenskur félagaréttur í vörn
Í 1. mgr. 74. greinar stjórnarskrárinnar segir þetta:
Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds.
Gunnar Schram segir eftirfarandi á bls. 595 í bókinni STJÓRNSKIPUNARRÉTTUR (1997)
„Öll stjórnvöld eru eftir þessu óbær til að leysa upp félag. Er því jafnóheimilt að leysa félag upp með forseta- eða ráðheraúrskurði sem með úrskurði lægra settra yfirvalda. Löggjafanum er óheimilt að fela framkvæmdarvaldshöfum endanlegt úrskurðarvald um lögmæti félaga. Það vald er fengið dómstólunum.“
Nú hefur ríkisskattstjóri tilkynnt 840 íslenskum félögum að hann krefjist skipta með vísun til 3. mgr. ákvæðis til bráðabirga II við lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, sbr. lög nr. 139/2022.
Það er ástæða til að velta eftirfarandi fyrir sér af þessu tilefni.
- a) Ljóst er að ríkisskattstjóri þarf að fara dómstólaleiðina til að fá búum þessara lögaðila skipt.
- b) Er dómstólum stætt á því að dæma lögaðila þessa til skipta, sé tilgangur samþykkta þeirra í samræmi við íslensk lög?
- c) Í tilvitnaðri málsgrein (3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögum 82/2019) er veitt undanþága frá vissum ákvæðum stjórnsýslulaga um þessa ákvörðun Ríkisskattstjóra. Með þessu hefur Alþingi gefið ríkisskattstjóra leyfi til slátrunar á félagasamtökum, sem starfað hafa lögum samkvæmt án þess að þau geti varið sig með stuðningi stjórnsýsluréttar.
- d) Hvernig munu þessi skipti fara fram? Í samþykktum félagasamtaka eru ákvæði um það hvernig eignum skuli ráðstafað við slit. Verður litið til þeirra ákvæða eða munu dómstólar úrskurða á annan veg? Við hvaða lög myndu þeir dómar þá styðjast?
- e) Hver verður kostnaður við þessar aðgerðir og hver ber hann?
- f) Lykilspurning: Getur það verið dauðasök þegar félög uppfylla ekki skyldur laga um skráningu „raunverulegra eigenda“?
Best er að forðast að draga ályktanir, en forvitnilegt verður að sjá hvernig framkvæmd þessara laga verður háttað og hvort enginn reynist tilbúinn að grípa til raunverulega varna til að tryggja áframhaldandi félagafrelsi á Íslandi.
Sigurjón Bjarnason